27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, fjárlög 1927

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg ætla að segja örfá orð um 13. gr. fjárlagafrv. Vil jeg byrja á því að þakka hv. fjvn. fyrir það, hve litlar brtt. hún gerir við greinina, því að þar með sýnir hún, að hún fellst í öllum verulegum atriðum á mínar tillögur. Þessi grein er nú langhæsta útgjaldagreinin, og stafar það af því, að nú hefir verið ákveðið að leggja á ný fje til verklegra framkvæmda, eftir nokkurra ára kyrstöðu. Brtt. hv. fjvn. eru ekki miklar. Eftir stjfrv. eru útgjöld samkvæmt 13. gr. á 4. miljón, en brtt. hv. nefndar eru alls ca. 40 þús. til hækkunar. Get jeg verið brtt. hennar samþykkur, og einkum þykir mjer gott að sjá, að hún hefir gengið inn á þá stefnu að flýta akfærum vegi frá Borgarnesi til Norðurlands. En þetta marka jeg af því, að hún lætur standa fjárveitinguna til að kaupa og húsa Fornahvamm. Væri þetta ekki tilætlunin, væri tilgangslaust að byggja þar. Út af því, sem nefndin segir í inngangi nál. um steinolíuverslunina, vil jeg benda á, að hún hefir hingað til verið rekin með heimild í þingsályktun frá síðasta þingi, og tel jeg þá heimild góða. Jeg fæ ekki sjeð, hvernig sá, meiri hluti, sem samþykti nál., getur ávítað stjórnina fyrir að fram fylgja henni. En eftir því, sem sagt er í nál., verður álit nefndarinnar ekki skilið öðruvísi en sem ráðlegging um að halda versluninni ekki of lengi áfram. Og þannig hlýt jeg að taka það, nema annað komi fram í umræðunum.

Í sambandi við símalagningarfjárveitinguna vil jeg sjerstaklega taka það fram, að línan yfir Barðastrandarsýslu, milli Vestfjarða og Króksfjarðarness, er ekki lögð eingöngu vegna Barðastrandarsýslu sjálfrar, heldur einnig til þess að fá örugt samband við Vestfirði. Jeg álít, að þetta hafi allmikla þýðingu, því að svo sem nú er ástatt er talsímasambandið við Vestfirði mjög stopult, en það er talsíminn, sem mestar tekjur gefur. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) nefndi sjerstaklega símalínu frá Stóra-Núpi austur yfir Þjórsá yfir á Land. Um það get jeg sagt fyrir mitt leyti, að þegar símalína verður lögð að Stóra-Núpi, er jeg fús á að stuðla að því, að hún verði lögð áfram að Fellsmúla á Landi, því að það er stuttur vegur, en síminn nær þá yfir ilt og oft ófært vatnsfall, Þjórsá. (MJ: Verður komist yfir Þjórsá á símanum). Nei, en það þarf þá ekki að fara yfir hana til þess að síma. Annars vil jeg bæta því við, að það hefir ekki enn verið ákveðið, hvenær síminn verði lagður að Stóra-Núpi, og fyr kemur hin línan auðvitað ekki.

Það nýmæli hefir komið fram í háttv. fjvn. að veita 350 þús. kr. til símalínu milli Hornafjarðar og Víkur á næstu árum. Samkvæmt áætlunum landssímastjóra hafði hann hugsað sjer, að þetta mætti dragast nokkuð. En nú sje jeg, að háttv. fjvn. vill fylgja þessu, og hv. þm. þeirra kjördæma, sem hjer eiga hlut að, vilja láta niður falla byggingar loftskeytastöðva gegn heitorði um símalínu þessa. Þetta gefur auðvitað ekki komið til atkvæða núna; mjer skilst, að Barðastrandarlínan sje eina stórlínan, sem lögð verði á næsta ári, en á eftir henni hlýtur þessi að taka við. Kostnaðinum af þessu má dreifa á nokkur ár, svo að hann verður ekki eins tilfinnanlegur. Jeg get að minsta kosti sagt það, að ef jeg á þátt í undirbúningi fjárlaga á næstu árum, mun jeg telja mjer skylt að taka tillit til tillögu hv. nefndar, og það því fremur, sem loftskeytastöðvar eru tiltölulega dýrar í rekstri, — fagmann þarf við hverja stöð — en tekjur af þeim verða altaf litlar, sakir þess; að mestar tekjur eru af símtölunum. Annars vil jeg undirstrika, að fjárveitingum til síma og brúa er ekki ráðstafað enn, sakir þess, að stjórnin getur ekki ráðstafað þessu fje fyr en samþykki þingsins liggur fyrir í fjárlögum. En svo framarlega sem 300 þús. verða samþyktar til símalagninga, verður Barðastrandarlínan látin koma.

Um brýr 1927 er ekkert ákveðið ennþá, en um það verður að sjálfsögðu farið mjög eftir tillögum vegamálastjóra. Vona jeg, að hv. þdm. viðurkenni, að stjórnin og vegamálastjóri geri rjett í því að halda sjer til baka um loforð á fje til brúa, þegar spurt er, hvort ekki fáist brú á þessum og þessum stað, þangað til þingið hefir endanlega samþykt fjárveitingu til þeirra hluta.

Út í einstakar brtt. fer jeg ekki að sinni, en ef til vill síðar.