05.03.1926
Efri deild: 20. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2911)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Jónas Jónsson:

Jeg var að hugsa um að taka til máls við 1. umr. þessa máls og taka þá í svipaðan streng og hv. 1. landsk. (SE) og styðja hv. 1. þm. Rang. (EP) í þessu máli. Jeg ætla því nú að nota tækifærið og gera nokkrar athugasemdir.

Jeg vil þá fyrst benda á það, því að jeg held, að það hafi ekki komið alveg ljóst fram hjá hv. frsm., að það má ekki byggja um of á áætluninni frá 1917. Jeg álít, að það verði mörgum sinnum dýrara að stöðva Markarfljót og stífla Þverá en þar er gert ráð fyrir. Jeg álít rjett, að þetta verk sje unnið, og mun auðvitað greiða tillögunni atkvæði mitt, en jeg vil ekki, að þeir, sem beita sjer fyrir málið, sjeu að telja ókunnugum mönnum trú um, að þetta sje einskonar barnaleikur. Jeg vil benda á það, að þó svo færi, sem vakir fyrir flm., að hægt væri að komast af með ódýra stíflu við Þverá, þá er vandinn mikill fyrir því. Þá er Markarfljót eftir, sem er mikið vatnsfall, svo og Álarnir og Affallið. Sje Þverá brúuð hjá Hemlu, verður að brúa allar kvíslarnar. En það er vafasöm framkvæmd, því að á þessum slóðum breyta jökulvötnin sífelt farvegi. Ef Þverá er veitt í Markarfljót, verður það voðavatnsfall, að líkindum oft ófært yfirferðar og bændum undir Eyjafjöllum voði búinn af ágangi þess. Þetta er ekki sagt í mótmælaskyni, heldur almennar athugasemdir til þess að sýna fram á, hversu stórt og víðtækt mál þetta er. Jeg vildi beina þeirri spurningu til hæstv. atvrh. (MG), hvort hann geti ekki hugsað sjer að láta fram fara ítarlegar rannsóknir í fyrirhleðslumálinu og undirbúningi þess á næsta ári. Einnig ætti að rannsaka í sambandi við þetta áveitu á Landeyjamar; ef vatni, sem nú myndar þar áveitu, er veitt burtu, þá er það afturför fyrir landbúnaðinn.