05.03.1926
Efri deild: 20. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (2913)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Eggert Pálsson:

Jeg hefi í rauninni litlu að bæta við það, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls. Skýring mín, sem jeg gaf þá, stendur enn óhögguð. Hjer í þessu máli er um tvent að ræða, landbrot og samgönguteppu. Það hefir verið gengið út frá því, að hægt væri að yfirstíga þetta hvorttveggja í einu.

Jeg get þakkað hv. 3. landsk. (JJ) fyrir það, hvernig hann tók í þetta mál, og er honum samþykkur um margt, sem hann sagði. En þar sem hann sagði, að gamlir menn eystra teldu margir hverjir, að ógerningur væri að ráðast í þetta, þá er ekki vel að marka slíkt. Gamlir menn geta oft og einatt ekki sett sig inn í nýjustu framkvæmdir. Það var rjett, sem hann tók fram, að oft verða stórflóð þarna; til dæmis má nefna stóra flóðið 1896. Þá kom jökulhlaup, líklega úr Merkurjökli, og var álitið, að flóðið stafaði af því. Upp frá því lagðist Markarfljót í Þverá, en áður um langt skeið — því sem næst 25 ár — var hún rjett eins og smálækur saman borið við það, sem hún er nú.

Það er eitt, sem jeg álít athugavert við till. nefndarinnar, en það er að einskorða fjárhæðina, sem veitt er, við þessar 5 þús. krónur. Það álít jeg ekki heppilegt. Það getur altaf komið fyrir, að vatnið leggist í einn farveg, annaðhvort í Affallið eða Álana, og þá má vera, að verja þurfi einhverju talsverðu fje til þess að deila vatninu. Það er nauðsynlegt að geta deilt því, því að ef það legst alt í einn farveg, hver sem hann er, þá getur það orðið mesta skaðræðisvatnsfall, þó síst, ef það legst alt í Markarfljót. En ef það legst í Affallið, verður það mjög vont. Sama er að segja, ef það fer í einhvern Álanna. Þeir eru margir og þröngir, og verða því djúpir og ófærir yfirferðar. Af þessu leiðir, að það er nauðsynlegt að hafa fje til vara til þess að verja til þess að dreifa vatninu, ef þess gerist þörf. Jeg vænti þess, að þingið geri ekki veður út af því, þótt meira fje yrði notað en hjer er farið fram á.

Nefndin hefir algerlega gengið fram hjá því að hugsa um brú á Þverá, og er það nú varla láandi, er verkfræðingurinn telur það frágangssök. Það mundi þó ekki kosta mikið, hygg jeg, að gera áætlun um brúna, en ánægjulegra er, að sú áætlun væri til. Ef áætlun hefði verið gerð og það hefði sýnt sig, að brúin mundi kosta mikið fje, þá hefði það getað dregið úr óánægju manna með fyrirhleðsluna. Jeg veit ekki, hvað brúin mundi kosta, en þykir verra, að fallið skyldi vera frá henni að lítt athuguðu máli. Ef það hefði sýnt sig, að hún kostaði ekki afarmikið fje, þá hefði átt að leggja út í að brúa, ef sýnilegt yrði, að fyrirhleðslan mishepnaðist.

Það er rjett hjá hv. 3. landsk. (JJ), að það er ekki mikið að byggja á áætluninni frá 1917. En jeg hafði ekki annað fyrir mjer, sem jeg gæti nefnt. En jeg veit það vel, að þær tölur fá ekki staðist nú; það mætti sjálfsagt tvöfalda þær eða þrefalda. Mjer finst ekki óeðlilegt, að nefndin hefir snúist svona í þessu máli og farið eftir tillögum vegamálastjóra, og jeg lái honum ekki hans aðstöðu. En jeg vildi aðeins leggja áherslu á þessi tvö atriði, að mjer finst ekki rjett að einskörða upphæðina við þessar fáu þúsundir, svo og hitt, að mjer finst ekki eiga að taka af skarið með brúarbyggingu, meðan ekki er búið að gera ítarlega áætlun þar að lútandi.