13.03.1926
Neðri deild: 30. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (2919)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Frsm. (Klemens Jónsson):

Háttv. samþingismaður minn (EP) bar fram í Ed. till. til þál. í tveim liðum; fyrri liðurinn fól í sjer áskorun til stjórnarinnar að byrja þegar á þessu ári á framkvæmdum samkvæmt lögum frá 1917 um fyrirhleðslu fyrir Markarfljót, en síðari liðurinn var til vara og hljóðaði um að fá brú á Þverá að öðrum kosti.

Ástæður fyrir þessari till. til þál. eru þær, að síðan Markarfljót braust yfir í farveg Þverár, hefir hún brotið til stórskemda jarðlendi í Fljótshlíð, og er ekki annað sýnna, ef þessu fær að halda áfram, en að áin gerspilli fjölda jarða þar í Hlíðinni. Við þessu verður að sporna, ef hægt er, enda hefir og Alþingi viðurkent það, er það samþykti lögin frá 1917 um fyrirhleðslu fyrir Þverá og Markarfljót, og átti landssjóður að kosta fyrirhleðsluna að 3/4 hlutum og Rangárvallasýsla að ¼ hluta. Þess vegna hefir og dálítið verið unnið að fyrirhleðslu vatna þar eystra síðan þessi lög voru samþykt. En það hafa víðar orðið skemdir af vatnagangi en í Fljótshlíð. Þegar lengra dregur niður eftir hjeraðinu og Þverá hefir sameinast Rangánum, hefir alt þetta vatn lagt land undir í Þykkvabænum og legið við eyðileggingu hinnar frjósömu Safamýrar. Þess vegna var 1923 gerð öflug fyrirhleðsla við Djúpós, svo áin ruddi sjer djúpan farveg til sjávar, og er þess vegna þess að vænta, fyrst um sinn að minsta kosti, að Þykkvibærinn sje ekki í neinni hættu vegna vatnagangs.

En þó að Markarfljóti verði veitt úr Þverá, er það ekki nóg til varnar skemdum af þess völdum. Það verður líka að varna því, að það leggist nokkursstaðar í einn farveg. Það er mjög dutlungafult vatnsfall. Það myndar ýmsar aðrar stórár, Affallið og Álara, og ef það skyldi leggjast með öllum sínum þunga í annaðhvort þessara vatnsfalla, eða jafnvel þó það skiftist í þau bæði, þá er Landeyjunum hætta búin. Það hefir þó verið ætlun manna, að tiltækilegast væri að veita Markarfljóti í sinn forna farveg, jafnframt því sem fyrirhleðsla væri bygð til þess að varna því, að Markarfljót rynni í Þverá, og um leið varna frekari skemdum í Fljótshlíð. En þessi forni farvegur er vestan við Eyjafjöll, alt til sjávar. Þetta var álit efri deildar, og studdist hún við álit og tillögur vegamálastjóra um þetta mál, og vegamálastj. hefir sýnt það í verkinu, að hann vill framfylgja þessari skoðun sinni, því að á síðari árum hefir samkv. till. hans verið hlaðinn varnargarður undan Seljalandsmúla, til varnar Eyjafjallasveit, en áður hafði Markarfljót oft, er vötnin leituðu í hinn forna farveg, brotist austur með múlanum og gert þar víða stórskaða á mörgum jörðum. Enda þótt þessi garður, sem þar hefir verið hlaðinn, sje til einhvers gagns, verður hann alls ekki nógu öflugur til varnar sveitinni, þegar alt vatnið er komið í einn farveg, og eins og vötnunum er nú háttað, er hann ekki heldur einhlítur. T. d. 1920 kom það fyrir, að vatnið, sem þó var ekki meira en venja var til, hækkaði svo við áfreða, að það fór yfir garðinn og gerði skarð í hann. Það þarf þess vegna að hækka garðinn talsvert og treysta hann svo, að örugt sje, að vötnin falli ekki austur yfir, þó að vatnsmegnið aukist. Menn eru litlu bættari, þó að hlaðið sje fyrir Þverá og Fljótshlíðinni forðað frá frekari spjöllum, ef vötnin brjóta þá land undir Eyjafjöllum eða annarsstaðar. Enda óttast Eyfellingar mjög, að svo geti farið, að stór hluti sveitarinnar, sem er engu síður blómleg en Fljótshlíðin, verði fyrir stóráföllum, ef vötnunum verður veitt austur á við. Jeg held því, að jeg megi fullyrða, að það sje nokkuð almenn ósk þar eystra, að fyrirhleðslu sje hagað þannig, að sje Markarfljótsvatninu veitt í sinn gamla farveg undir Eyjafjöllunum, þá sje jafnframt hlaðinn öruggur garður frá Seljalandsmúla og um leið sett brú á fljótið hjá Litla Dímon. Verkfræðingar hafa annars athugað þetta mál og kemur saman um það, að því að eins sje framkvæmanlegt að stokkleggja fljótið með þessum hætti, að bygður verði öflugur garður, annaðhvort úr Þórólfsfelli eða Háamúlanum, sem er milli Barkarstaða og Árkvarnar. Jeg hefi hjer til leiðbeiningar fyrir væntanlega nefnd kort herforingjaráðsins af þessu svæði.

Annar liðurinn í þessari þál. er sá, að ef ekki sje mögulegt í náinni framtíð að girða fyrir framrensli Markarfljóts í Þverá, verði látið rannsaka brúarstæði á Þverá og gerð áætlun um brúarkostnað. Þessi varatillaga er á fullum rökum bygð, því að Þverá er skaðræðisá, svo vatnsmikil dögum og vikum saman, að hún er ófær á aðalvaðinu, síkisvaðinu, sem liggur beint við fyrir ferðamenn, sem ætla austur eftir þjóðveginum. Ferðamenn verða því oft að leggja krók á hala sinn alla leið inn að Teigi í Fljótshlíð. En svo gæti komið fyrir, að framrensli Markarfljóts breyttist svo, að brúin yrði ónýt og öllu fjenu beint kastað í sjóinn. Þetta mál er því ekki einungis vandamál, heldur líka vandræðamál, því það er varla hægt að hreyfa svo við því í eina átt, að það þá ekki horfi til vandræða í aðra átt. En eitthvað verður að gera, og hjer dugir ekkert kák. Það er þegar búið að gera miklar mælingar til undirbúnings þessu máli, en annars hefir ekkert verulegt verið gert. Þegar við þm. Rangæinga berum fram þetta nauðsynjamál, hefir það fengið þá afgreiðslu hjá hv. Ed., að hún vill aðeins veita til þess örlitla upphæð til bráðabirgða. Hæstv. atvrh. (MG) hefir lýst því yfir, að hann teldi sig ekki bundinn við þessa upphæð, og er það góðra gjalda vert.

Jeg sagði, að þetta væri nauðsynjamál fyrir Rangæinga, en það er meira. Það er nauðsynjamál fyrir alt landið, því það varðar sannarlega alt landið, að stórar og blómlegar sveitir eyðileggist ekki. Háttv. Ed. fann engin betri ráð en að leggja til, að veittar yrðu einar 5000 kr. til bráðabirgðafyrirhleðslu, þ. e. fyrirhleðslu, sem ekki þarf að vera liður í síðari framkvæmdum, þegar alvarlega verður tekið til framkvæmda, m. ö o., hagurinn af þessari bráðabirgðafyrirhleðslu er tvísýnn mjög. En þó svo færi, að með þessari upphæð mætti fyrirbyggja frekari skemdir af Þverá einni, þá er um leið engin trygging fyrir því, að vatnið, sem þá hefir fengið annan farveg, valdi ekki skemdum í Landeyjunum eða undir Eyjafjöllum. Það er lítið unnið við það að veita af einum á annan. Jeg álít því, að þessi niðurstaða í hv. Ed. sje ekki fullnægjandi, og er það von mín, að þetta mál fái betri undirbúning hjer í þessari hv. deild. Þó að jeg eigi sæti í þeirri nefnd, sem málinu verður væntanlega vísað til, hefi jeg talið rjett að skýra afstöðu mína til málsins þegar í stað.

Þá finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni, en mín skoðun er sú, að rjettara sje að bíða 1 eða 2 ár enn heldur en að kasta, þó ekki sje nema 5 þús. kr., út í tvísýnu. Málið þarf að athuga og undirbúa nákvæmlega af verkfræðingum og leggja það síðan undir álit sýslubúa og Alþingis. Vænti jeg svo þess, að málinu verði, að umræðum loknum, vísað til samgmn.