13.03.1926
Neðri deild: 30. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (2921)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) mintist á, að jeg hefði sagt í Ed., að jeg teldi mig ekki bundinn við þessa 5 þús. kr. upphæð. Þetta er alveg rjett. Jeg álít ekki, að mögulegt sje að komast af með þessa upphæð, ef fyrirhleðsla hepnaðist inn frá, en svo kæmi í ljós, að Markarfljót vildi leggjast austur með Eyjafjöllum, því að garðurinn hjá Seljalandsmúla yrði ekki nógu öflugur til þess að standast svo mikið vatnsmegn, en ef hann bilar, verður að gera við hann strax, hvort sem fjárveiting er til þess eða ekki. Vegamálastjóri þorir ekki að svo stöddu að staðhæfa neitt um það, hvort hægt muni að veita nokkru af vatnsmegni Þverár í Markarfljót fyrir 5000 kr., og ef það kemur fram við rannsókn, að það sje tilgangslaust, verður auðvitað við það hætt. Því hafði jeg í Ed. þann fyrirvara, að ekkert yrði af þessu, ef svo reyndist.

Að öðru leyti er jeg samdóma hv. 2. þm. Rang. (KlJ) um, að hjer þarf vandaðan og nákvæman undirbúning, og eins þarf að komast að því hjá sýslubúum, hvort þeir vilja leggja á sig þessa byrði. Það er svo um þessi vötn, að annaðhvort þarf, áður en langt um líður, að veita þeim saman í einn farveg og brúa þau, eða láta þau renna eins og þau gera nú og brúa þau öll, hvert fyrir sig, en það verður ákaflega dýrt. Vötnin eru stór og mörg, og það, sem verst er, er að þau renna sitt á hvað. Álarnir eru 7–8 og afaróstöðugir í rásinni. Það verður því að láta fara fram nákvæma rannsókn á því, hvort ekki sje hægt að fara eftir lögunum frá 1917.

Jeg hefi ekkert við það að athuga, þó að þetta mál fari til samgmn. En þar sem um er að ræða að verjast ágangi á Fljótshlíðina, þá er þetta ekki beinlínis samgöngumál. En það, sem vakti fyrir nefndinni í Ed., var að reyna að grynna svo á Þverá, að hún gerði lítinn usla í Fljótshlíðinni og væri hægari yfirferðar en nú, án þess þó að gera skaða undir Eyjafjöllum. Hvort þetta er samrýmanlegt, er ekki hægt að segja um að svo stöddu.