29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (2924)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg gæti í rauninni látið mjer nægja að vísa til ræðu minnar við fyrri umræðu þessa máls og nál. á þskj. 390, en jeg býst við, að það þyki hlýða, að jeg geri nánari grein fyrir málinu og þá einkum viðaukatilllögunni. Hv. Ed. lagði til, að veittar yrðu 5 þús. krónur til bráðabirgðaráðstafana til varnar framrensli úr Þverá. Og hæstv. atvrh. (MG) mun hafa haft góð orð um að fara eitthvað fram úr þeirri upphæð, ef á þyrfti að halda. Hvort hann hefir tilnefnt nokkra ákveðna upphæð, hefi jeg ekki heyrt, en vafalaust mun hann hafa heimild til þess samkvæmt lögunum frá 1917.

Mjer þykir líklegt, að tillaga þessi fái því betri byr hjer í þinginu, sem það hefir komið í ljós, að meðan á þinginu hefir staðið og meðan þetta mál var til meðferðar í nefnd hjer í deildinni, hefir Þverá brotið allmikið af jörðum í Fljótshlíðinni, einkum Múlakoti, sem nú er orðin nafnfræg fyrir trjárækt. Það er húsfreyjan þar, sem gert hefir garðinn frægan, og það svo mjög, að menn sækja þangað unnvörpum hjeðan úr höfuðstaðnum, til að dást að því, hvað gera má hjer á landi til þess að prýða landið, ef vilji, vit og smekkvísi fylgjast að, og mun í hv. Ed. í gær hafa verið samþykt tillaga um að veita henni heiðurslaun fyrir. Það er aðallega þessi jörð, sem Þverá hefir nú skemt að mun, og aðrar jarðir nokkuð. Ástæðan til þess, að svo snemma hefir hlaupið vöxtur í Þverá, er hin mikla árgæska, og má búast við, að þetta sama komi fyrir á hverju vori eða snemma sumars. Hjer þarf því bráðra og gagngaðgerða við, en ekki bráðabirgðaaðgerða. Samgmn. Nd. hefir ekki lagt á móti ályktun Ed. um þessa bráðabirgðaveitingu, en álítur hana hinsvegar, eins og til hagar þar eystra og eins og jeg lýsti við fyrri umr. málsins, mjög ófullnægjandi til frambúðar, og hefir vegamálastjóri staðfest það álit nefndarinnar. Er hann henni sammála um, að það, sem hægt er að gera fyrir þessa peninga, yrði kák eitt, og mætti telja þeim sama sem kastað í ána, án þess að þeir kæmu að nokkru verulegu gagni.

Þó að eitthvað megi gera til þess að hindra skemdir af Þverá, án þess um leið að veita vatninu á aðra — því það er auðvitað aðalskilyrði fyrir því, að fjárveitingin verði notuð — telur nefndin ekki rjett að nota fje til þess á þessu ári, nema vegamálastj. beinlínis leggi það til. Rangæingar hafa í svo mörg ár orðið að bíða eftir framkvæmdum í þessu efni, að þeir geta vel beðið eitt árið enn, ef þeir geta þá búist við verulegum árangri. Það er því sameiginlegt álit nefndarinnar, að hjer dugi ekkert kák, og vill hún nú þegar á þessu ári láta framkvæma nákvæmar rannsóknir á því, hvernig megi sameina vötnin, sem helst er ráðgert við Stóra Dímon og brúa þau þar og að öðru leyti búa svo um, að ekki hljótist skemdir af völdum Álanna, Affallsins eða Þverár. Þetta þarf að gerast í sumar og áætla nákvæmlega kostnaðarhlið málsins, Þar sem sýslubúar eiga að leggja fram ¼ hluta kostnaðarins, samkvæmt lögum nr. 69, 14. nóvember 1917, finst mjer eðlilegt, að sýslunefnd Rangárvallasýslu fái tækifæri til þess að segja álit sitt þar um, að minsta kosti hvað ráðstafanir við varnir snertir og kostnaðinn við þær, því um hitt aðalatriðið, sem sje hvað brúunina snertir, skiftir ekki sýslufjelagið neinu, því að þann kostnað ber það að engu leyti.

Nefndin hefir spurt vegamálastjóra, hvort rannsókn mundi geta orðið lokið fyrir næsta þing, og hann taldi svo vera. Það má því telja víst, að þetta verði hægt. Ef til vill þarf vegamálastjóri einhverja aukaaðstoð, og er þá sjálfsagt að láta honum hana í tje, og má taka kostnaðinn af þeirri aðstoð af því fje, sem veitt er í tillögunni.

Sýslunefnd Rangárvallasýslu hefir nýlega setið á fundi, og átti jeg tal við oddvita nefndarinnar um málið. Sýslunefndin hafði málið til meðferðar í annari og víðari mynd en þingið hefir haft, en jeg bað oddvitann að taka álit samgmn. til sjerstaklegrar athugunar. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp þá ályktun, sem sýslunefndin hefir gert að því er þetta atriði snertir. Hún hljóðar svo:

„Að öðru leyti er nefndin ekki á móti því, að einhver smátilraun verði gerð í ár, ef vegamálastjóri teldi, að í bili mætti með henni afstýra frekari skemdum en orðnar eru á jörðum í Fljótshlíð, og hann áliti ennfremur, að af henni geti ekki hlotist auknar skemdir fyrir aðrar jarðir, og loks ætlast nefndin til, að ríkissj. kosti að sjálfsögðu þessa tilraun að ¾ og beiðendurnir eða jarðir í Fljótshlíð beri ¼ kostnaðarins, sem afborgun á þeirra hluta af endanlegum fyrirhleðslukostnaði allra mannvirkjanna. — Samþykt með 7 samhljóða atkvæðum. 3 greiddu ekki atkvæði“.

Eins og álitið ber með sjer, er auðsjeð, að sýslunefndin er á sama máli og hv. samgmn., að leggja alt kapp á ítarlega rannsókn, áður en miklu er farið að kosta til, svo að hið háa Alþingi geti tekið endanlega ákvörðun um, að hve miklu leyti skuli ráðist í framkvæmdir þar eystra.

Vona jeg, að till. verði samþ. með þeim viðauka, er nefndin leggur til.