08.05.1926
Sameinað þing: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (2937)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Pjetur Þórðarson:

Þegar þessi till. var til meðferðar í Nd. og samgöngumálanefnd þeirrar deildar kom með till. um að bæta við hina upphaflegu till. nýjum lið, þá tók jeg ekki til máls. En jeg sá strax, að það mundi valda miklum örðugleikum og auk heldur reynast ómögulegt að rannsaka þetta mál, svo rannsókn gæti heitið, fyrir næsta þing. Jeg var líka sá eini þdm., sem greiddi atkv. á móti till. þá. Jeg er því á sömu skoðun og hv. þm. N.-Þ. (BSv) um það, að hjer sje stofnað til mikils, en þó í óvissu stýrt. Ekki svo að skilja, að jeg sje á móti fullkominni rannsókn og framkvæmd málsins og auk heldur fullkomnari framkvæmd heldur en jeg hefi trú á, að hjer verði, þrátt fyrir fögur orð hæstv. atvrh. (MG) um framkvæmd þessa máls. Enda er nú svo komið, að aðalatriðið, að málið skuli rannsakað og lagt fyrir næsta þing, á það leggur nú enginn áherslu, og er það bót í máli.

En svo er annað. Eins og hv. þm. N.-Þ. (BSv) tók fram, þá hefir landsverkfræðingur jafnan miklum störfum að sinna, og þó hann hafi eitthvað af mönnum sjer til hjálpar, þá er þess að gæta, að margar og miklar samgöngubætur eru nú í undirbúningi, og því mjög vafasamt, að það sje rjett ráðið að ætla landsverkfræðingi rannsókn þessa, á þessum tíma. Jeg tel því mjög efasamt, að jeg treystist til þess að greiða atkvæði með síðari lið till. Og jeg býst ekki við að gera það, ef till. verður borin upp í einu lagi. En úr þeim vanda er jeg leystur, ef liðir till. eru bornir upp sinn í hvoru lagi, og mun jeg þá fylgja þeim fyrri, en greiða atkvæði á móti síðari liðnum.