09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vil taka það fram um happdrætti innan fjelaga, sem kallað er, að það á sjer oft stað, að miðarnir eru boðnir víða til sölu. T. d. hefir það komið fyrir, þegar happdrætti hefir verið haldið af fjelagi, er heima á í nágrenni Reykjavíkur, að miðarnir hafa verið boðnir til sölu hjer á götum bæjarins, en að þetta hefir ekki verið tekið fyrir, stafar af því, að það er vafasamt, hvort til eru nokkur viðurlög við slíku. —

Hv. 2. þm. Reykv. segir, að það sje ekki rjett hjá mjer, að hann sje að gera mönnum greiðara fyrir að halda happdrætti. Hv. þm. hlýtur að sjá það sjálfur, að það er það, sem hann er að gera og vill gera. (JBald: Já, löglega) Já, löglega; jeg held mjer sje óhætt að segja það, af því að jeg þekki betur til trúarinnar á happdrætti til fjársöfnunar, að það verður víst mjög sjaldgæft, að neitað verði um slík leyfi eftir hans tillögu.