05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (2946)

86. mál, rýmkun landhelginnar

Flm. (Pjetur Ottesen):

Það er öllum kunnugt, að öryggi atvinnuveganna er sá hyrningarsteinn, sem afkoma og velferð hverrar þjóðar byggist á. Við Íslendingar erum framleiðsluþjóð. Líf og afkoma þjóðarinnar byggist á framleiðslu til lands og sjávar. Framtíð landbúnaðarins byggist á aukinni ræktun landsins, og framtíð sjávarútvegsins á því, að fiskiveiðarnar við strendur landsins gangi ekki til þurðar.

Það er ekki að ófyrirsynju eða ástæðulausu, þótt nokkur uggur sje í mönnum um framtíð fiskiveiðanna hjer við land, eftir þeirri reynslu, sem fengin er um áhrif botnvörpuveiðanna á þær. Það er almenn reynsla, bæði hjer og annarsstaðar í heiminum, að botnvörpuveiðar hafa mjög spillandi og jafnvel eyðileggjandi áhrif á fiskigöngur á þeim miðum, þar sem þær eru stundaðar. Þó að við strendur Íslands sjeu einhver auðugustu fiskimið í heimi, þá segja áhrifin til sín engu að síður ljóst og greinilega, og er ekki um að villast, hvert stefnir með sama áframhaldi. Örtröðin á fiskimiðunum vex með ári hverju. Þegar botnvörpungarnir komu hingað fyrst, var sama, hvert leitað var, alstaðar var krökt af fiski. En hvernig er þetta nú?

Það mun nú vera komið svo, að botnvörpungarnir sjeu búnir að finna hvert einasta fiskigrunn, sem til er í hafinu kringum Ísland, hvern einasta blett, sem fiskurinn staðnæmist nokkuð á, hvern einasta hrygningarstað. Og jafnóðum og fiskimiðin, sem næst liggja ströndinni, gengu úr sjer, leituðu botnvörpungarnir nýrra miða fjær landi, langt á haf út.

Fyrir nokkuð mörgum árum síðan fundu þeir auðugt fiskigrunn út af Austfjörðum, Hvalbaksgrunnið. Þar var uppgripaafli um tíma, bæði smáfiskur og þorskur, einkum smáfiskur, en brátt dró úr þessum miklu uppgripum, og er nú svo komið, að þetta mikla fiskigrunn er nú að mestu leyti uppurið. Það kemur aðeins fyrir, að þarna fást glepsur — eitt og eitt skip fær þar nokkum afla, en aflabrögð að staðaldri er þar ekki um að ræða lengur. Jeg hefi talað við mann af togara, sem nú er nýkominn þaðan austan að og aflaði sáralítið, og er þetta þó einmitt sá tími, sem þar aflaðist mest áður.

Á árinu 1924 var uppgripaafli á íslenskum botnvörpungum, og það á þeim tíma árs, sem eins og komið var, lítið aflaðist á togara. Þetta stafaði af því, að fundist hafði nýtt fiskigrunn, langt út af Vestfjörðum, hið svokallaða Halamið. En það hefir reynst þarna sem annarsstaðar, að veiðin hefir reynst harla endaslepp. Á síðastliðnu ári voru veiðar þarna orðnar mjög tregar og urðu því tregari sem lengra leið, og var ekki annað hægt að sjá en að þessi mið væru orðin gersamlega uppurin við síðustu áramót. Mestur aflinn fjekst þarna á 80 faðma dýpi, en þær seinustu fiskleifar, sem þarna fengust, voru á 120 faðma dýpi. Eina fiskigrunnið, sem ekki hefir brugðist afli á enn þá, er Selvogsbankinn. En það er ekki nema örstuttur tími á árinu, sem þar er fiskur, aðeins tveir mánuðir af vetrarvertíðinni, sem nú er talin frá 1. jan. til 11. maí. Og mjer er sagt af þeim, sem kunnugir eru botnvörpungaútgerðinni hjer, að á aflabrögðunum á þessum stað, fiskiveiðunum á Selvogsbanka á vetrarvertíðinni, byggist tilvera botnvörpungaútgerðarinnar hjer á landi, og hafi gert það í mörg ár, þegar frá er tekið þetta eina ár, sem fiskaðist á Halamiðunum. Svona er þetta nú með botnvörpuveiðarnar. Um smábátaútgerðina, inni á flóum og fjörðum, þarf ekki að tala. Hún hefir víða að miklu leyti lagst niður, og sumstaðar, þar sem aðalfiskimið smábátanna liggja fyrir utan landhelgislínuna, eins og hjer við innanverðan Faxaflóa, þar hefir hún að mestu leyti lagst niður. Það koma að vísu einstöku sinnum fiskihlaup, einu sinni og tvisvar á ári. Þó hafa komið fleiri ár í röð, sem ekkert hefir aflast á opna báta, enda liggja togararnir við lóðarhálsinn, tilbúnir til að sópa öllu upp jafnóðum, ef eitthvert skrið kemur. Smábátaútvegurinn, er reis upp á ófriðarárunum — en þá fyltust öll grunnmið af fiski, eins og var áður en botnvörpuveiðarnar komu til sögunnar — fúnar í naustum. Svona er nú þetta, og það er heldur ekkert undarlegt, því að botnvörpungaveiðarnar eru áreiðanlega stórfeldasta rányrkjan, sem enn þá er þekt í veröldinni. Það er ekki nóg með það, að þær taka nytjafiskinn, heldur drepa þær líka jöfnum höndum ungviðið og umturna botninum og eyðileggja allan botngróður, sem vitanlega hefir mikla þýðingu fyrir fiskinn. Að öllu þessu athuguðu þarf engan að undra, þó að að því reki, að einhverjar ráðstafanir þurfi að gera til verndar fiskveiðunum.

Hingað sækja botnvörpungar frá öllum fiskveiðaþjóðum Norðurálfunnar, og sú aðsókn vex eftir því sem fiskimið þeirra heima fyrir ganga úr sjer og svo við aukningu á fiskiflotanum. En það er nú víða svo komið, eins og t. d. í Norðursjónum, að þar fæst svo sem enginn afli lengur. Það er því ekkert undarlegt, þótt að því reki hjer, að gera þurfi sjerstakar ráðstafanir til verndar fiskveiðunum, þar sem sú óskapa örtröð er á miðunum, og það því fremur sem þær landhelgistakmarkanir, er gilda nú, eru settar meðan áhrifa botnvörpuveiðanna gætti lítið eða alls ekki. Nú verður að aðgæta það, hvaða ráð sje til þess að sporna á móti þessari fyrirsjáanlegu eyðileggingu. Jeg hygg, að hjer sje um tvö úrræði að gera. Fyrst og fremst að vernda rækilega þá landhelgi, sem nú er viðurkend. Og til þess hafa nú verið gerðar ráðstafanir, svo við því má búast, þegar nýja varðskipið bætist við, að landhelgisgæslan komist í sæmilegt horf. En þótt það tækist að reka af höndum sjer þá ránsmenn, sem sækja í landhelgina, þá verður ekki annað sjeð en að sú landhelgi, sem vjer nú höfum, sje öldungis ónóg til þess að tryggja afkomu fiskjarins. Og þá kem jeg að hinu atriði málsins, að auka við landhelgina, en það er nauðsynlegt, þar sem með því einu móti er hægt að forða ungviðinu frá vargakjöftum. Það er kunnugt, að ungviði fiskjarins berst upp á grunnsævið við strendur landsins, þar sem það finnur hæfilegt hitastig til að lifa og þroskast. Það hefir því mjög mikla þýðingu fyrir fiskveiðar landsmanna að stækka landhelgina, eða m. ö. o. friða sem mest af uppeldisstöðvum fiskjarins. En þar sem við í þessu atriði erum bundnir samningum við eina stóra þjóð, þá er þetta líka vitanlega allmjög undir henni komið.

Jeg ætla nú, áður en jeg kemst að efni till., að fara nokkrum orðum um það, hvernig landhelginni var háttað áður og hver ákvæði hafa um það gilt frá upphafi. Fer jeg um þetta efni að mestu eftir ritgerð próf. Einars Arnórssonar í Andvara 1924. Að fornu voru bannaðar fiskveiðar við Ísland innan 4 sjómílna landhelgi öllum öðrum en landsmönnum og kaupmönnum erlendum, er hjer höfðu leyfi til að versla. Fyrsta reglan um þetta var sett 1631, og var síðan endurnýjuð 1763. Í tilskipun 1787 er bannað að koma inn í firði landsins eða flóa og veiða við landið. Regla þessi var skilin svo, að engir nema þegnar konungs mættu fiska við landið nje á fjörðum þess eða flóum, hversu víðáttumiklir sem þeir væru.

Með konungsúrskurði 1863 var ákveðið að banna þegnum annara ríkja fiskveiðar í einnar danskrar mílu fjarlægð frá landi, talið frá ystu eyjum og hólmum, sem upp úr standa um stórstraumsfjöru, eins og nú er alment gert, og auk þess á fjörðum og flóum.

Í tilskipun 1872 er þegnum annara ríkja bönnuð fiskveiði í landhelgi, eins og hún sje ákveðin í þjóðarrjetti eða verði ákveðin í samningum.

Loks er landhelgin, hvað snertir fiskveiðar hjer við land, ákveðin í samningi við Breta 1901, þar sem fiskiveiðar eru heimilaðar þegnum konungs einum 3 sjómílur undan landi og í fjörðum innan við beina línu, sem dregin er þvert yfir fjörð næst mynni hans, þar sem breiddin fer ekki fram úr 10 mílum, og 3 sjómílur til hafs frá þeirri línu. Þetta gildir nú fyrir aðrar þjóðir, þó samningurinn sje gerður við Breta eina.

Þetta er sú landhelgi, sem við eigum nú að búa við, og jeg geri ráð fyrir því, að þó farið verði langt aftur í forna tíma, þá muni ekki finnast neinn samningur, sem reynst hafi okkur jafnskaðlegur og þessi. Nú mætti ef til vill líta svo á, að hin gömlu landhelgisákvæði giltu gagnvart öllum þjóðum öðrum en Bretum, en þó má vera, að þessi 25 ára gamla venja sje búin að löghelga þessa hefð. En við getum sett allar þær takmarkanir í þessu efni, sem við viljum, gagnvart öllum öðrum þjóðum en Englendingum.

Nú hafa, sem eðlilegt er, um nokkurt skeið heyrst háværar raddir um nauðsynina á því að fá landhelgina rýmkaða með breytingu á samningnum við Englendinga. Hingað kom fyrir allmörgum árum ensk flotadeild, og barst þá í orð, hvort ekki mundi unt að þoka eitthvað til um þetta, og taldi foringi flotadeildarinnar, að líklegt væri, að komið gæti til mála, að Faxaflói yrði friðaður, gegn því að enskir togarar mættu veiða í landhelgi austur með söndum, en lengra komst þetta ekki.

1919 var samþ. þáltill. um að skora á stjórnina að komast að samningum við Englendinga um rýmkun á landhelginni, og 1924 var samþ. önnur till. í sömu átt. Mjer er kunnugt um, að stjórnin hefir hafið málaleitun í þessa átt á þann hátt, sem venja er til, þegar um samninga milli ríkja er að ræða. Hún hefir snúið sjer til danska utanríkisráðuneytisins, sem fer með utanríkismálin fyrir okkar hönd, og það hefir aftur snúið sjer til utanríkisráðuneytisins enska í London, og hefir málið komið til umræðu í parlamentinu, en ekki borið neinn árangur. Það er vitanlegt, að Englendingar hafa hjer mikilla hagsmuna að gæta og eru auk þess mjög fastheldnir við gamlar venjur og samninga, og er því hætt við, að málið verði torsótt á þennan hátt. En þá gæti verið spurning um það, hvort ekki sje til önnur greiðari leið og líklegri til góðrar úrlausnar á málinu, og hún er sú, að gerðir sjeu út menn hjeðan að heiman, sem sjeu gagnkunnugir málinu og geti sýnt með rökum, hvað í húfi er, ekki aðeins fyrir landsmenn sjálfa, heldur alla þá, sem fiskveiðar stunda hjer við land. Auk þeirrar reynslu, sem þegar er fengin, hafa þær rannsóknir, sem hjer hafa verið gerðar, leitt það í ljós, að svo ófullkomin sem landhelgisvörnin er og hefir verið, þá er þó dýralífið afarmiklu fjölskrúðugra innan landhelgislínunnar en utan. Þessi leið sem hjer er stungið upp á, er þá sú, að þessir kunnugu menn, sem sendir yrðu af okkar hálfu, sneru sjer til útgerðarmanna á Englandi, sem láta stunda fiskveiðar hjer við land, og reyndu, hvað þeir gætu komist í því að opna augu þeirra fyrir þessari sameiginlegu nauðsyn, og þeir reyndu svo aftur að hafa áhrif á enska stjórnmálamenn til þess að taka málið upp og leiða það til farsælla lykta. Þessi uppástunga er upphaflega komin frá hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), og jeg get fallist á það, að þetta sje líklegasta leiðin. Loks ef þetta skyldi ekki takast, að fá Englendinga til þess að verða til óskum okkar um þessar breytingar, þá vil jeg benda á það, að ekki verður hjá því komist að taka til athugunar, hvort ekki muni fært að grípa til þess ráðs að segja upp samningnum við Breta frá 1901, auðvitað með þeim fyrirvara, sem þar um getur.

Jeg vænti nú, að hæstv. stjórn bregðist vel við till., ef hún nær samþykki, þannig að þessar samningaumleitanir verði þegar hafnar á þessu sumri. Læt jeg svo útrætt um till. að sinni, en vænti sem sagt góðra undirtekta þingsins og ötullar framgöngu hæstv. stjórnar í þessu mikilvæga máli.