05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (2951)

86. mál, rýmkun landhelginnar

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg vil leyfa mjer að þakka þeim hv. þm., sem nú hafa talað, fyrir góðar undirtektir þeirra í þessu máli. Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), sem mjer er kunnugt um að hefir áhuga fyrir þessu máli, bar kvíðboga fyrir því, að okkur mundi bresta nóg rök gagnvart Bretum. Hv. þm. (ÓTh) benti á, að þrátt fyrir þetta hefðu aflabrögð botnvörpunga ekki gengið úr sjer. Jeg vil benda honum á þá staðreynd, af hverju þetta stafar. Það hafa sífelt verið að finnast ný og ný mið fyrir botnvörpuveiðamar. Hugsum okkur, hvaða áhrif það hefði haft á botnvörpuveiðarnar hjer, ef Hvalbaksmiðin hefðu ekki fundist, en þó öllu heldur, hvernig hefði verið háttað aflabrögðum botnvörpunganna hjer á árinu 1924, hefðu Halamiðin ekki fundist þá. Hvernig hefði þá farið? En að því hlýtur að reka, að það hætta að finnast ný og ný mið, og jeg býst við, að nú sje svo komið, að ekki sje þess að vænta, að fleiri fiskigrunn finnist hjer við land en þau, sem þegar eru þekt.

Ennfremur má benda á, hvernig fiskveiðunum á grunnmiðunum er nú komið. Eins og kunnugt er, er öll veiði á grunnmiðum að mestu leyti úr sögunni hjer við land. Á þetta ekki einasta við um þau miðin, sem liggja utanvert við landhelgislínuna og botnvörpungar mega því leika lausum hala á, eða þau miðin innan línunnar, sem mest hafa orðið fyrir ágangi botnvörpunganna, heldur einnig þau mið, sem botnvörpungar geta ekki neytt sín á. Þetta er ljós vottur þess, að fiskveiðamar eru að ganga úr sjer, nýja fiskinum að fækka, og að þetta sje af völdum botnvörpuveiðanna, þarf ekki um að deila. Það sýndi sig best á stríðsárunum, þegar botnvörpuveiðarnar lögðust að mestu niður. Þá fyltist alt af fiski brátt aftur, og fiskurinn gekk til grunnmiða, eins og áður fyr. En þegar stríðinu lauk og örtröðin óx á miðunum, og nú er hún orðin meiri en hún hefir nokkurn tíma áður verið, sótti brátt í sama horfið. Eyðileggingarmerkin verða æ greinilegri og greinilegri með hverju árinu sem líður. Af þessu er auðsætt, að hægt er að færa skýr og góð rök fyrir þessari málaleitun við Englendinga, skýr og góð rök fyrir því, að þetta er einasta ráðið til þess að vernda fiskveiðamar í hafinu við Ísland í framtíðinni. Og svo þegar þar við bætast rannsóknir þær, sem fram hafa farið hjer við land á hafrannsóknarskipinu Dana, sem einnig sýna ljóslega hin skaðlegu áhrif botnvörpuveiðanna á uppvöxt og þróun fiskjarins, þá ætti það og ekki síður að vera nokkuð þungt lóð á þeim metaskálum.

Afleiðingar þær af botnvörpuveiðunum hjer við land, sem jeg hefi nú lýst, koma á ýmsan hátt hart niður á landsmönnum. Auk þess sem þær valda beinni aflarýrnun, þá hafa þær valdið mikilli og hættulegri byltingu í þjóðlífinu. Áður var það nefnilega svo, að jafnhliða sjávarútgerðinni, smábátaveiðunum, stunduðu þessir sömu menn garðyrkju og jarðrækt og notuðu úrgang fiskjarins til áburðar. Nú sogast fólkið til þeirra tveggja staða, sem botnvörpungaútgerðin er rekin frá, þangað á mölina, og hefir ekkert upp á að hlaupa, ef út af ber. Þetta fólk á því alt sitt undir því, að þessi stórútgerð beri sig, er algerlega öðrum háð um alla sína afkomu, í stað þess sem það lifði áður sjálfstæðu atvinnulífi; en að sem flestir menn geti lifað sjálfstæðu atvinnulífi, er hin mesta trygging og öryggi hvers þjóðfjelags.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) var einna linastur í þessu máli. En ekki er það raunar svo að skilja, að honum hafi ekki verið ljós nauðsyn þess; en hann heldur, að við höfum í þessu efni ekki eins mikinn rjett eins og við höfum í raun og veru. Jeg vil enn benda honum á, að við erum ekki bundnir samningum um landhelgissvæðið við neina aðra en Breta. Þótt aðrar þjóðir hafi að þessu leyti notið sömu aðstöðu og Bretar, þá verður það ekki skilið öðruvísi en sem algengt er, að hver þjóð njóti bestu kjara hjá hinni, en þetta breytir samt engu. Fáum við samningnum breytt við Englendinga, þannig að landhelgin verði færð út, þá njóta aðrar þjóðir og áfram bestu kjara. En ef samningar hinsvegar strönduðu og reynt yrði að fara aðra leið, þá yrði þeim gert jafnhátt undir höfði og öðrum. Það er mikilsvert atriði, að hver þjóð standi fast á sínum rjetti í svona samningum og láti engan bilbug á sjer finna; og því meiri nauðsyn er þetta fyrir okkur, sem við erum fátæk smáþjóð og eigum ekki önnur vopn.

Hv. þm. (JBald) talaði í þessu sambandi um þjóðabandalagið. Mjer virðist þjóðabandalaginu hafa gengið erfiðlega að ráða fram úr deilumálum enn sem komið er, svo að við getum ekki bygt miklar vonir á því; en vel getur verið, að þegar sú stofnun þroskast, þá geti hún einnig orðið okkur að einhverju liði, en enn sem komið er er ekki mikið á því að byggja.