08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (2980)

54. mál, kaup á snjódreka og bifreiðum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer fanst hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) tala eins og þegar væri sannað, að þessi ákveðna bifreiðategund væri til þess fallin að leysa samgönguvandræði okkar. Það, sem jeg sagði um hana í byrjun, fanst mjer þó ekki á þá lund, að sjálfsagt væri að sannfærast um ágæti hennar. Hins vegar skal jeg taka það fram, að ef það reynist ekki á rökum bygt, sem jeg sagði, og bíllinn dæmist vel fallinn til þess að leysa úr vandræðum okkar, þá skal ekki standa á mjer að hverfa að því ráði, að hann verði keyptur.

En hitt taldi jeg mjer skylt, að skýra frá því, sem ráðamaður stjórnarinnar sagði um þetta mál. Vegamálastjóri hefir að líkindum einn hjerlendra manna farið í þessum bíl. Það var í hitteðfyrra við Holmenkollen í Noregi, að öllum vegamálastjórum á Norðurlöndum var boðið að taka þátt í reynsluför, sem farin var á þessum bíl. Frá dómi þessara sjerfræðinga hefi jeg skýrt og tel óþarft að endurtaka það. Nú má það undarlegt vera, ef allir þessir menn hefðu verið jafnófærir að dæma um farartæki þetta, eða t. d. Svíar hafi verið svo blindir að dæma þann bíl óhæfan, sem nú er fullyrt að geti bjargað okkur út úr öllum vandræðum. (JJ: Jeg sagði ekki öllum). Nei, það kann nú ef til vill að vera fullmikið sagt, en jeg átti við vandræði af flutningum í snjó.

Þegar jeg sagði, að hv. flm. (JJ) þekti ekki mikið til þessa farartækis, þá fór jeg eftir hans eigin orðum, því hann margtók það fram, að hann hefði aldrei sjeð bílinn öðruvísi en á mynd. Hitt veit jeg, að útbýtt hefir verið hjer í bænum ógrynnum af frönskum auglýsingum um þennan bíl, og finst mjer síst ósennilegt, að hv. flm. hafi borist eitthvað af þeim.

Þá er það vegleysan á Holtavörðuheiði. Jeg held mjer við það sama og áður, að kalla þar veg, en ekki vegleysu. Hitt er líka rangt hjá honum, að jeg miði alt við Hellisheiði og þá flutningaþörf, sem þar er um að ræða. En hinsvegar vil jeg benda honum á það, að sá bíll, sem fer yfir Hellisheiði í snjóavetrum, hann hlýtur að reynast líka nothæfur á Holtavörðuheiði.

Annars verð jeg að endurtaka það, sem jeg sagði fyr, að eigi gagn þessa bíls að reiknast eftir því, hvað nothæfur hann reynist á auðri jörð og vegleysum, þá er rangt að nefna hann snjóbíl. Hv. flm. hefir því sjálfur horfið frá snjóbílshugmyndinni, og mun það betur farið; en hann ætti ekki að stökkva upp á nef sjer yfir því, þótt jeg leiði hann á rjettar brautir.

Um Djúpós-fyrirhleðsluna veit jeg ekkert, hvað hv. flm. (JJ) hefir fyrir sjer. Þetta, sem hann var að dylgja um, er mjer algerlega ókunnugt, á hvaða rökum sje bygt, en jeg get spurt vegamálastjóra um það. (JJ: Jeg veit miklu fleira um Djúpósmálið). Hv. flm. getur varla haldið því fram í alvöru, að hann viti betur um fyrirætlanir vegamálastjóra en vegamálastjóri sjálfur.

Annars skal jeg segja það, að ef hv. flm. getur sannfært mig um, að hjer sje um verulega nothæft farartæki að ræða, sem telja megi víst að komi að gagni hjer í landi, þá skal jeg verða fyrstur til þess að taka höndum saman við hann og samþ.kaup ríkissjóðs á þessum bíl. En á meðan jeg sannfærist ekki og hv. flm. hefir ekki merkari rök fram að færa máli sínu til stuðnings, þá finst mjer enginn geta láð mjer, þótt jeg hallist fremur að því, sem vegamálastjóri segir mjer, auk þess sem jeg tel mjer skylt að gera hv. deild kunna skýrslu þessa trúnaðarmanns stjórnarinnar.