10.02.1926
Efri deild: 3. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

11. mál, raforkuvirki

Atvinnumálaráðherra (MG):

Eins og kunnngt er, voru lög um rafmagnsveitur frá 3. nóv. 1915 feld úr gildi með vatnalögunum frá 20. júní 1923, með því að lögin frá 1915 náðu einnig til vatnsraforkuvirkja, en af brottfalli þessara laga leiddi það, að engin lög voru til um raforkuvirki, þar sem afllindin var önnur en vatn, t. d. steinolía eða kol. Nú er það svo ekki óvíða hjer á landi, að t. d. kauptún eru lýst með raforku, sem fengin er úr steinolíu, og er ófært, að engin lagaákvæði sjeu um slíkar orkuveitur, því að vitaskuld er það ekki minna áríðandi, að þessar veitur sjeu í góðu lagi en vatnsraforkuveitur.

Frv. þetta er samið að mestu af nefnd úr verkfræðingafjelaginu, og hefir vegamálastjórinn átt mestan þátt í því.

Ákvæði frv. eru að miklu leyti sniðin eftir vatnalögunum og lögunum frá 1915. Að öðru leyti vísa jeg til athugasemdanna við frv. og leyfi mjer að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar.