11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (3008)

113. mál, slysatryggingariðgjald

Sigurjón Jónsson:

Jeg mótmæli því, er hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að útgerðarmenn vestra, sem ekki fylgja bátum sínum, skifti sjer af því, hvernig formenn þeirra sækja sjó. Það kemur ekki fyrir. Formenn vestra vita ósköp vel, hvaða ábyrgð fylgir starfi þeirra. Og jeg vildi ekki hafa þann formann þar, er ekki væri fær um að stunda sjósókn eftir sínu höfði. Það er meira að segja svo, að formennirnir ráða því algerlega, hvar þeir stunda veiðar, ráða því jafnvel að fara hingað suður til veiða. Það var því óheppileg sagan, sem hv. þm. (MT) sagði, enda er hún algerlega ósönn.

Jeg þarf ekki að deila um þáltill. á þskj. 465, þar sem hæstv. atvrh. (MG) hefir lýst yfir því, að það sje rjett að framkvæma lögin eins og hún fer fram á.