10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (3014)

116. mál, strandferðir Esju

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Jeg hefi leyft mjer, ásamt 3 öðrum hv. þm., að bera fram till. um strandferðir Esju. Ætla jeg að fylgja henni fáum orðum úr hlaði.

Svo sem kunnugt er, hætti Esja strandferðum á þessum vetri í desember og hóf ekki ferðir aftur fyr en laust fyrir miðjan mars. Það eru því nær 3 mánuðir á þessum vetri, sem við höfum verið án strandferða. En er það heppilegt fyrir landið? Hvaða skip eru til flutninga, þegar Esju er lagt upp? Goðafoss að vísu, þegar hann kemur frá útlöndum. En þessi ferð hans er ekki heppileg til fólksflutninga. Hann kemur upp til Austfjarða um miðjan jan., fer norður og vestur um land og tínir upp hverja höfn. Jeg hefi nú mörg undanfarin ár orðið að sæta þessari ferð á leið til þings. En jeg verð að segja, að það er neyðarúrræði að flækjast með skipinu kanske 3 vikur. Farþegar eru skattlagðir með háu fargjaldi, og fæðiskostnaður gífurlegur svo langan tíma, og svo síðast en ekki síst er tímatöfin.

Við þetta er ekki unandi. Sumir telja að vísu, að ekki sje þörf á skipi til fólksflutninga um þetta leyti. En reynslan sýnir annað. Í vetur fór Goðafoss fullur af fólki frá Akureyri, og var þó Ísland á ferðinni stuttu síðar, einnig fult. Þótt Esja byrjaði ferðir sínar t. d. 1. febr., mundi hún hafa nóg að gera.

Eins og ástandið er nú, þá er afarilla sjeð fyrir samgöngum milli Austfjarða og Reykjavíkur. Aldrei beinar ferðir nema þegar Esja fer. Venjan sú, að menn verði að fara norður um land, bæði lengri ferð og dýrari. Og Goðafossferðirnar eru svo strjálar, sem von er, að margar vikur og jafnvel mánuðir líða svo, að enga ferð er hægt að fá frá Suðurlandinu til Austurlandsins.

En nú höfum við skip, og það er því óforsvaranlegt að láta það liggja aðgerðalaust. Jeg hefi nú heyrt hop á því, að Esja verði að loknum strandferðum látin fara út til aðgerða og skoðunar. Kæmi hún þá t. d. upp með vörur í febrúarbyrjun til Austfjarða og tæki þá fólk til Reykjavíkur og færi sunnan um land, væri það hentugt fyrir þingmenn af Austurlandi. Er engin þörf, að þing byrji fyr en um miðjan febrúar, svo sem lög standa til. Finst mjer æði óhentugt að þurfa að leggja af stað til þings strax upp úr nýárinu, áður en öðrum nauðsynlegum störfum er lokið.

Vænti jeg að heyra undirtektir hæstv. atvrh og vona, að hann verði fylgjandi þessari tilhögun.