10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (3015)

116. mál, strandferðir Esju

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þegar ákveðið var í fyrstu, að Esja byrjaði ekki strandferðir fyr en í mars eða apríl, var það fyrst og fremst sparnaðarráðstöfun. Samkvæmt sögu framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins munar það 40–50 þús. kr. á ári. Það fanst mjer ástæða til að taka til greina, meðan reynt var að spara á öllum sviðum. Nú minni ástæða, en þó er þetta fjárupphæð, sem vert er að taka til greina. Er það leiðara, að till. var ekki komin fram áður en fjárlagafrv. var samþykt. Því að verði hún tekin til greina, reynist vitanlega of lágur áætlaður styrkur til Esjuferða.

Vil jeg leyfa mjer að spyrja hv. flm. (ÞorlJ), hvort ekki stæði á sama, þó annað skip væri en Esja, ef hentara þætti, Gullfoss, Lagarfoss eða kanske nýja kæliskipið. Það er rjett, að gert er ráð fyrir, að Esja verði send utan til skoðunar á þessu ári. Ef hún á að koma til landsins um svipað leyti og till. ráðgerir, er jeg fús til að sjá til, að hún fari þessa ferð, ef ekki er hægt að fá aðra ódýrari.

Út af því, sem hv. flm. sagði um þingbyrjun, þá vildi jeg aðeins segja það, að því seinna sem þing kemur saman, því lengur stendur það fram eftir vorinu. Er mjer til efs, að þingbændum þætti það betra.

Jeg er sem sagt fús til að vinna að því, að ferð komi frá Austfjörðum sunnan um land um þetta leyti, en vil síður skuldbinda mig til, að það verði Esjan.

Út af 2. lið till. vil jeg taka það fram, að svo framarlega sem strandferðir hefjast úr Rvík, verður erfitt að koma því svo fyrir, að 2 ferðir, hvor á eftir annari, verði sunnan um land frá Austfjörðum. Þori jeg því ekki að lofa neinu um það, nema ráðgast við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, sem nú er erlendis.