11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3062)

118. mál, rannsókn veiðivatna

Flm. (Halldór Stefánsson):

Þessi till. fjekk að ganga umræðulaust til 2. umr. Vil jeg því efna það, sem jeg lofaði Þegar hún var til 1. umr., að gera stuttlega grein fyrir henni nú.

Það er þá upphaf þessa máls, að í fyrra rjeðst hingað austurrískur vatnalíffræðingur, dr. Reinsch, fyrir milligöngu Búnaðarfjelags Íslands, til þess að rannsaka veiðivötn, og kostaði Búnaðarfjelagið för hans milli landa og að mestu leyti einnig um landið, nema hvað eitt hjerað — Fljótsdalshjerað — kostaði för hans innan hjeraðs. Kostnaður við förina var aðeins ferðakostnaður og fyrir verkfærasliti, en hvorki dr. Reinsch nje aðstoðar- og fylgdarmenn hans tóku nokkurt kaup. Árangurinn af þessari för má sjá af skýrslu, sem legið hefir fyrir þinginu, og sjest glögt á henni, að dr. Reinsch hefir unnið af miklum áhuga að þessum rannsóknum. Nú hefir hann boðist til að halda áfram þessum rannsóknum í sumar með sömu kjörum. En svo er ástæðum háttað, að Búnaðarfjelagið þykist ekki geta lagt fram það fje, sem þarf, vegna þess að það hafi ekki ráð á neinu fje, er sje óráðstafað. Kostnaðurinn í fyrra hefði verið borgaður án þess að nokkurt fje hefði í rauninni verið til þess ætlað, og því óhægra ætti það með fjárframlög nú.

Leitaði nú búnaðarmálastjóri, Sigurður Sigurðsson, til fjvn. beggja deilda um fjárframlög, en þær sáu sjer ekki fært að sinna beiðni hans. Mun þeim hafa þótt rjett, að Búnaðarfjelagið sæi fyrir fjenu, og í nál. fjvn. Ed. liggur það skjallega fyrir, að svo hefir þótt. En þegar um þetta mál hefir verið talað við Búnaðarfjel., hafa svörin verið þau sömu: Engu fje óráðstafað.

Þótt það sje í rauninni eðlilegast, að Búnaðarfjelagið legði þetta fje fram, þá kemur það fyrir eitt, ef ekkert fje fæst hjá því, að þá er ekki hægt að þiggja boð dr. Reinsch. Tækifærinu að njóta þekkingar hans væri slept og árangrinum, sem að því mætti verða, og það stappaði nærri, að erlendum vísindamanni og Íslandsvini væri óvirðing sýnd.

Ræktun veiðivatnanna er einn þátturinn í ræktun landsins. Það er mikið og margþætt verkefni, sem þar er óleyst. Takmarkið er að auka veiðina, eftir því sem skilyrði eru til. Og eftir því, sem ráða má af fornum heimildum, hefir veiðinni farið stórum aftur, svo að þar er nú víða lítil veiði, sem áður var mikil, og fer sumstaðar altaf minkandi. Ástæðan til þess er sú, að veiðin hefir alt fram að þessu verið stunduð sem rányrkja, eins og öll veiði jafnan hefir verið.

Viðvíkjandi þessu máli eru mörg rannsóknaratriði, sem taka þarf tillit til, svo sem veiðiaðferðir, fyrirdrættir, stíflur o. fl., veiðistaðir, að veiða ekki þar sem síst má, á hrygningarstöðum, veiðitími, að veiða ekki á óhentugum tíma, hrygningartímanum, og veiðiáhöld, að brúka ekki önnur en þau, sem henta, t. d. ekki önnur net en þau, sem eru hæfilega möskvavíð, eftir eðlilegri stærð fiskjarins. Um þessi atriði gætu margir gefið leiðbeiningar. Dr. Reinsch álítur, að það þurfi að hafa sjerákvæði fyrir hvert hinna stærri veiðivatna eða veiðisvæða. Það geti ekki gilt sömu almennar reglur um þau öll, heldur hljóti þær að fara eftir eðli og ásigkomulagi veiðinnar og veiðivatnanna. Enn er ótalið eitt atriði, sem ekki er hægt að fá fullar upplýsingar um, nema með nákvæmri vísindalegri rannsókn, og það eru lífsskilyrði fiskanna og önnur veiðiskilyrði í hverju veiðivatni fyrir sig, hver þau eru og hversu mikil. Um þau er ekki hægt að fá að vita nema með aðstoð sjerfræðinnar, vatnalíffræðinnar. Og hennar eigum við ekki annan kost en með því að þiggja þá aðstoð, sem dr. Reinsch býður fram. Það er þessi sjerfræði, sem dr. Reinsch býður fyrst og fremst fram, og þau áhöld, sem þarf til vísindalegra rannsókna á þessu sviði og nákvæm þurfa að vera. Af þessari ástæðu væri það beinlínis óhyggilegt að neita þeirri aðstoð, sem hann hefir boðið okkur.

Jeg ætla nú stuttlega að lýsa dr. Reinsch. Jeg geri það ekki af eigin þekkingu, heldur styðst við upplýsingar, sem Lúðvík Guðmundsson náttúrufræðikennari hefir góðfúslega gefið mjer.

Dr. Reinsch er mjög vel lærður og áhugasamur vísindamaður. Auk fræðilegrar þekkingar hefir hann mikla verklega reynslu og æfingu. Hann hefir fengist við rannsóknir veiðivatna bæði í Þýskalandi og Austurríki. Ástæðan til þess, að hann býður okkur aðstoð sína, er vísindalegur áhugi og metnaður til þess að vinna gagn sinni fræðigrein og skapa sjer verkefni til að vaxa af. Hann er hrifinn af náttúrufegurð Íslands og hefir fengið velvild til lands og þjóðar, eins og svo fjölmargir Þjóðverjar. Langar hann því til þess að vinna okkur gagn á þessu sviði.

Jeg skal geta þess, einnig eftir því, sem Lúðvík Guðmundsson hefir sagt mjer, að þetta er líklega í eina og síðasta sinn, sem kostur er á að njóta vísindaþekkingar þessa manns, því að það er í ráði, að hann fari í vísindaleiðangur til Austurálfu.

Það er stuttlega vikið að því í greinargerð till., að Lúðvík Guðmundsson mentaskólakennari hafi boðist til fylgdar með dr. Reinsch ókeypis, eins og í fyrra. Það mætti e. t. v. skilja það svo, að hann hefði aðeins verið fylgdarmaður hans og túlkur. En svo var ekki. Í fyrra hafði L. G., jafnframt því sem hann var fjelagi og túlkur, einnig nokkurt sjálfstætt verkefni, að safna jurtum, bæði vatna- og landjurtum. Hefir hann límt upp nokkuð af þeim í vetur og gefið mentaskólanum. Ef úr þessari rannsóknarferð verður í sumar, er svo um samið, að L. G. hafi sjálfstætt verkefni, sem snertir rannsókn veiðivatnanna, sem sje athugun skordýralífsins. L. G. hefir boðið, sem fyr er getið, ókeypis aðstoð sína við rannsóknirnar, og jeg verð að segja það, að það er alveg óvenjulegt af mentamönnum vorum að bjóða sig þannig í þjónustu landsins.

Fjárhæðin, sem farið er fram á, er 3000 kr. og er ætluð eingöngu til ferðakostnaðar milli landa og hjeraða og svo fyrir áhaldasliti. Það er hugsað, að hjeruðin, sem hann færi um, kosti sjálf ferðirnar innan hjeraðs, eins og gert var á Austurlandi í fyrra. Eflaust er þetta fje í minsta lagi, en jeg ætla, að Búnaðarfjel. verði ekki um megn að leggja til það, sem á kynni að vanta.

Þetta er þá um fyrra atriðið, og ætla jeg þá að víkja að síðara atriðinu, að veita 3000 kr. til þess að gera Lagarfoss laxgengan.

Eitt af þeim hjeruðum, sem dr. Reinsch fór um í fyrra, var Fljótsdalshjerað. Um það fellur Lagarfljót. Þar er jafnan lítil veiði, og veiðiskilyrðin ekki álitin þar góð, vegna ásigkomulags fljótsins, sem býður ekki góð lífsskilyrði, og svo er fossinn til hindrunar göngu veiðinnar úr sjó. Við rannsókn dr. Reinsch í fyrra staðfestist það, að ekki er um að ræða veiði eða góð veiðiskilyrði í fljótinu sjálfu, en það vitnaðist, að árnar, sem falla í fljótið, veita góð skilyrði sem veiðiár. Sem laxár er þeim líkt við hinar ágætu laxár í Borgarfirði. En ein hindrun er fyrir því að geta notað þau veiðiskilyrði, og það er að fossinn er ólaxgengur. Dr. Reinsch kom auga á mjög auðvelda leið til þess að gera hann laxgengan, og vísa jeg um það til skýrslunnar. Hefir hann boðið forsögn sína um það, hvernig það skyldi framkvæmt, ef hann kæmi í sumar. Hefir hann borið þessa hugmynd sína undir verkfræðing, sem áleit, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að fossinn yrði gerður laxgengur á þann hátt, sem dr. Reinsch hefir hugsað sjer.

Það er mjög mikill áhugi og almennur á því þar eystra að fá notið dr. Reinsch, því það þykir öruggast, ef hans nýtur við, að engin mistök verði á verkinu og að það komi að fullu liði. Eins og gefur að skilja, er mikið í húfi fyrir þetta stóra hjerað, því opnast gætu miklir möguleikar til veiða, ef tækist að gera þennan foss laxgengan.

Jeg skal geta þess um upphæðina, sem til er tekin, að hún er meira sett eftir ágiskun en áætlun, en Lúðvík Guðmundsson, sem þessu máli er kunnugastur, telur líklegt, að kostnaðurinn verði frekar minni en meiri en hjer er tiltekið. Till. er svo orðuð, að gert er ráð fyrir 1/3 framlags, og er þar miðað við það, sem greitt hefir verið til að gera aðra fossa laxgenga. Formaður Búnaðarsambands Austurlands hefir lýst því yfir við mig í símtali, að ekki muni standa á framlagi á móti. Ef kostnaðurinn verður minni en þetta, verður ekki greitt nema 1/3, og ef ekki yrði við komið að nota þetta fje í sumar, þó dr. Reinsch kæmi, yrði þessi heimild ekki notuð.

Það er vaknaður mikill áhugi um alt land í þá átt að leggja meiri rækt við veiðivötnin en verið hefir. Þórður Flóventsson frá Svartárkoti, sem er allra manna áhugasamastur um þetta mál, hefir ferðast um land alt og dreift út frá sjer áhuga. Alþingi hefir viðurkent þennan mann með því að veita honum dálítinn styrk. Áhugi manna hefir mjög eflst við komu dr. Reinsch. Mönnum skildist fljótt, hve mikilsvert það væri að fá vísindalega vissu um lífsskilyrðin í veiðivötnunum. Búnaðarfjelaginu hafa borist beiðnir frá allmörgum sýslum um, að ekki yrði látið fyrir farast að fá dr. Reinsch til að koma hingað. Auk Fljótsdalshjeraðs hefir Þingeyjarsýsla óskað eftir rannsókn á Laxá og Mývatni, og Skagfirðingar óska eftir rannsókn á Hjeraðsvötnum og ám þeim, sem í þau falla. Hefir borist beiðni um það frá Jónasi Kristjánssyni, lækni á Sauðárkrók. Þá hafa borist beiðnir úr Húnavatnssýslu. Þar eru margar ár og vötn. Sömuleiðis úr Ísafjarðarsýslu, einkum frá inn-Djúpinu. Þar hefir alveg nýlega orðið vart við lax í nokkrum vötnum, og leikur mönnum hugur á að fá leiðbeiningar um, hvað gera þyrfti til þess að efla þá veiði. Ennfremur hafa borist beiðnir úr Dalasýslu og Barðastrandarsýslu. Þar er mikið um smáár og vötn, og var þar veiðisæld til forna, eins og kunnugt er. Nú er veiði þar lítil talin.

Jeg þykist ekki þurfa að lengja þetta mál. Jeg hefi stuttlega gert grein fyrir till. og reynt að draga fram helstu ástæður fyrir henni. Hjer eru mörg rannsóknarefni og mikilvæg. En til þess að rannsóknir verði framkvæmdar að gagni, þarf vísindalega þekkingu og vísindaleg áhöld, sem hjer er ekki kostur á. Jeg hefi bent á, hve það er beinlínis praktiskt, að þetta boð geti orðið þegið, enda getur það varla talist vansalaust gagnvart þessum útlenda vísindamanni, sem býður fram aðstoð sína af góðum hug, að synja þessari málaleitun.

Jeg vænti þess, að deildin samþ. till. einróma.