11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

118. mál, rannsókn veiðivatna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af síðustu orðum hv. flm. (HStef) verð jeg að segja það, að jeg tel lítil líkindi til þess, að deildin fallist einróma á þessa till.

Þetta mál mun hafa komið fyrir fjvn., og hefir hún þó ekki flutt till. Af því má ráða, að meiri hl. hennar sje á móti þessu. Jeg verð að segja, að mjer finst dálítið óviðkunnanlegt, að svona till. skuli rædd eftir að búið er að samþ. fjárlögin og búið að sleppa því færi að koma þessari fjárveitingu þar að. Till. hefir víst mætt andróðri í fjvn. og því ekki komist að. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sagt við mig, að hann gæti engu lofað um það, hvort þessi fjárhæð yrði greidd eftir þáltill.

Jeg er samdóma hv. flm. um það, að hjer sje þörf rannsóknar og mikilvægt atriði að reyna að auka veiði í ám og vötnum. En það er vafamál, hvort nauðsyn er á að fá útlendan mann til þess starfs. Jeg veit ekki betur en Pálmi Hannesson, sem lagt hefir fyrir sig þessi fræði, ljúki bráðlega prófi erlendis. Hann hefir fengið styrk úr Fiskiveiðasjóði og er talinn efnilegur maður. Mjer finst rjettara, að innlendur maður fáist við þessi störf, einkum þar sem upplýst er, að dr. Reinsch getur ekki sint starfinu nema eitt ár, en hinsvegar liggja fyrir beiðnir úr svo mörgum hjeruðum, að engin von er til þess, að þeim verði öllum sint á einu sumri. Jeg sje ekki, að þessum útl. vísindamanni sje nein óvirðing sýnd, þó að við kjósum heldur að nota innlenda krafta, ef völ er á þeim. En eins og jeg tók fram, veit jeg ekki betur en Pálmi Hannesson taki próf í vor.

Viðvíkjandi fjárveitingunni til að gera Lagarfoss laxgengan, er það að segja, að slíkar fjárveitingar er siður að taka upp í fjárlög. Þar eiga þær heima. Jeg veit ekki, hvort sú till. hefir legið fyrir fjvn. Þaðan hefði hún átt að koma í fjárlögin, og mjer þykir sennilegt, að hún hefði þá verið samþykt. Jeg veit ekki, hvort dr. Reinsch hefir sjerstaka þekkingu á að sprengja fossa. En innlendir menn hafa sjeð um verkið við þá fossa, sem búið er að gera laxgenga hjer á landi, og jeg býst við, að þeir geti eins annast um þetta verk.

Aðalatriðið er þetta, að jeg veit ekki betur en að við eigum völ á innlendum manni til þessara starfa. Það væri illa farð, ef efnilegur Íslendingur þyrfti að vera atvinnulaus af því að verkefni, sem beint lá við að fela honum, væri fengið útlendum manni. Jeg býst ekki við, að jeg geti greitt þessari till. atkvæði nema jeg fái upplýsingar um, að eitthvað komi fyrir, svo að þessi Íslendingur geti ekki tekið próf á þeim tíma, sem ætlað var. Mjer sýnist líka upphæðin, sem áætluð er til ferðakostnaðar þessum erl. vísindamanni, nokkuð lág. Gjaldkeri Búnaðarfjelagsins hefir sagt mjer, að ferðakostnaðurinn í fyrra hafi orðið á 6. þúsund krónur, og þá munu 3000 kr. hrökkva skamt.