14.05.1926
Sameinað þing: 7. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (3082)

121. mál, þúsund ára hátíð Alþingis

Árni Jónsson:

Út af orðum hæstv. forsrh. (JM) um, að þingið hefði ekki sint frv. stjórnarinnar um friðun Þingvalla, vil jeg geta þess, fyrir hönd allshn., að þó að seint sje, sendum við í dag í prentsmiðjuna nál. um þetta frv., sem væntanlega kemur hingað á fundinn innan skamms.

Nefndin gat ekki lagt áherslu á, að þetta mál gengi fram nú á þessu þingi, því að aðalatriðið er það, hvort samkomulag næst við ábúandann á Þingvöllum, milli hans og stjórnarinnar, um það, sem gera þarf. í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að samkomulag muni takast um afsal afnotarjettar á þessu svæði, en annars fari fram eignarnám, ef samkomulag næst ekki. En jeg skal taka það fram, að eftir samtali, sem nefndin hefir átt við staðarhaldarann á Þingvöllum, sjera Guðmund Einarsson, gerir hún ráð fyrir, að gott samkomulag náist um þetta atriði, og sjer nefndin því ekki ástæðu til að leggja áherslu á það, að þetta frv. gangi fram nú. Það er síður en svo, að allshn. hafi leitt þetta mál hjá sjer, því að hún fór til Þingvalla og athugaði staðháttu og reyndi að setja sig inn í málið.

Úr því að jeg er nú staðinn upp, álít jeg rjett að segja eitthvað um þetta mál, eins og það nú liggur fyrir. Jeg er alveg sammála hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um það, að það sje ekki rjett að draga það öllu lengur að byrja á undirbúningi undir þjóðhátíðina 1930, en jeg er ekki ánægður með þessa till., sem hjer liggur fyrir. Jeg hefi hjer hjá mjer álit Þingvallanefndarinnar frá 14. jan., og í niðurlagsorðum álitsins getur nefndin þess, að í skipunarbrjefi hennar segi svo: „Þegar nær dregur væntanlegu hátíðahaldi, býst ráðuneytið við því, að nefndinni verði falið að gera annan nauðsynlegan undirbúning undir þau hátíðahöld, að viðbættum mönnum í nefndina“. Mjer skilst, að með þessari till. sje ekki gert ráð fyrir því, að þessi nefnd, sem skipuð var á síðastliðnu ári, starfi áfram, en jeg býst við, að hún hafi verið skipuð samkv. heimild frá þinginu. Jeg hefði betur getað felt mig við þessa till., ef hún hefði gengið í þá átt, að Alþingi bætti mönnum í nefndina, í stað þess að skipa nýja. Mjer þykir rjett að geta þess, að sá maður, sem einna mest mun hafa hugsað um hin væntanlegu hátíðahöld 1930, dr. Guðmundur Finnbogason, kom á fund allshn. og skýrði málið fyrir henni, og eru það sjerstaklega 3 atriði, sem hann leggur áherslu á. Það er í fyrsta lagi útgáfa bókar. Eins og hv. flm. (ÁÁ) tók fram, virðist það auðsætt, að við ættum að nota þennan merkisatburð til þess að vekja athygli annara þjóða á okkur. Dr. Guðmundur leggur til, að rituð sje bók í þessu skyni á íslensku og henni snúið á ensku. Hann benti á, að Norðmenn og Svíar hefðu gefið út slíka bók árið 1900 og haft mikið gagn af því. Dr. G. F. lagði til, að til þessa yrði skipaður sjerstakur maður. Í öðru lagi leggur hann til, að skipaður sje einn maður til þess að sjá um undirbúning sýningar, og mun þegar vera hafinn undirbúningur í þessu skyni. Í þriðja lagi leggur hann til, að skipaður sje maður til að sjá um töku íslenskrar kvikmyndar. Eins og kunnugt er, var hjer sýnd í vetur kvikmynd frá Danmörku, sem sýndi atvinnuhætti þar og fleira, og held jeg, að mörgum hafi þótt sú mynd lærdómsrík. Dr. G. F. heldur því fram, að gera megi íslenska kvikmynd, sem standi þessari að engu leyti að baki, og leggur til, að þegar sje hafinn undirbúningur undir þetta.

Samkvæmt till. hans er ætlast til þess, að þeir, sem valdir verða af hæstv. stjórn eða hinu háa Alþingi í nefnd, starfi með Þingvallanefnd, og að lokum yrði skipuð þriggja manna nefnd, er sjerstaklega hefði með móttökuna að gera — sjá um, hverjum skuli boðið, og vera gestgjafi boðsmanna meðan á hátíðinni stendur.

Jeg áleit rjett, að þetta kæmi fram hjer, þótt það sje að vísu ekki alveg í sambandi við till., er fyrir liggur.