29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er sem frsm. samgmn. að jeg vil segja nokkur orð. Eins og sjá má af nál., hefi jeg sem frsm. og form. nefndarinnar rannsakað lítillega strandferðir og aðrar skipagöngur eins og þær hafa verið og eru nú. Það var nokkur deila um það innan deildarinnar nú fyrir skemstu, hvort skipaferðir sjeu lakari nú eða jafngóðar og áður var. Margir þdm. hafa haldið því fram, að samgöngur á sjó væru nú mun lakari heldur en þegar best var, t. d. árið 1908 og 1912. Jeg hefi búið til skýrslu um þetta, og þó að hún sje ekki prentuð í nál., þá eru þó aðalniðurstöðurnar þar, og af þeim má sjá það, að nú eru mun fleiri viðkomur heldur en þegar best var áður. Þeir, sem hafa haldið fram gagnstæðri skoðun, hafa bygt hana á því, að skipin voru fleiri áður, þegar bestar voru samgöngur, og sömuleiðis á því, að áður voru 2 strandferðaskip, en nú aðeins 1. En þó að það sje rjett, að skipakosturinn til strandferða sje minni, — þ. e. færri skip — þá er það engan veginn þar með sagt, að samgöngurnar sjeu lakari, því að það er öllum vitanlegt, að strandferðaskipið „Esja“ er langbesta strandferðaskipið, sem gengið hefir í kringum landið, og þegar áætlun hennar er athuguð, þá sjáum við, að hún er miklum mun fljótari að fara í kringum landið, og koma þó við á 30–35 höfnum, heldur en „Skálholt“ og „Hólar“ eða „Austri“ og „Vestri“ voru að fara hjeðan úr Reykjavík norður á Akureyri og til baka aftur. Þessi samanburður sýnir, að það er meira komið undir gæðum, stærð, ganghraða og útbúnaði skipa en fjölda þeirra. „Esja“ hefir farrými fyrir 165 farþega, en „Austri“ og „Vestri“ höfðu til samans farrými fyrir 120. Niðurstöðurnar, sem jeg hefi komist að við rannsókn ferðaáætlana fyr og nú, eru þessar: Árið 1908 hafa viðkomur skipa verið alls 832, árið 1912 voru viðkomur strandferðaskipa, þar með taldar 4 hringferðir, sem „Austri“ fór á árinu, og kom við á 5 höfnum í hverri hringferð, 656, viðkomur milliferðaskipanna 330, verður alls 986, en samkvæmt áætluninni í ár, þá eru viðkomur „Esju“ 594, þannig um 60 viðkomum færri en 1912, en milliferðaskipanna 593, eða um 260 viðkomum fleiri en árið 1912 og um 400 fleiri en árið 1908. Auk þess eru nú mun meiri ferðir með flóabátum á ýmsum stöðum kringum landið heldur en þá var. Nú er það öllum vitanlegt, að árin 1908 og 1912–'14 voru samgöngur á sjó hestar á landi hjer fram til 1924; þess vegna hefi jeg tekið einmitt þessi ár til samanburðar. Í skýrslunni fyrir árið 1908 eru ekki taldar með tvær aukaferðir, sem 1 skip Sameinaða fjelagsins fór til Vesturlandsins, og í skýrslunni fyrir árið 1912 eru heldur ekki taldar þær ferðir, sem „Pervie“ fór austur um land til Fáskrúðsfjarðar og Seyðisfjarðar, því þær ferðir munu ekki gera meira en samsvara ferðum Skaftfellings og Hornafjarðarbáts, sem nú eru. Það ár (1912) komu skipin við á 23 höfnum, sem þau koma nú ekki við á, en flestar þessar hafnir hafa fallið úr annaðhvort vegna þess, að nú þarf ekki að láta strandferðaskipin koma á þær, sumpart vegna þess, að flóabátar annast þær samgöngur, og í sumum tilfellum vegna þess, að það er alls ekki nauðsynlegt og ekki hægt að láta sigla á þessar hafnir. Hafnarfjörð talar maður ekki lengur um sem sjerstakan viðkomustað, vegna þess að hann hefir svo góðar samgöngur við Reykjavík. Akranes er komið í samband við flóabátinn til Borgarness. Þá eru Búðir, Stapi og Grundarfjörður; á þessa staði gengur flóabátur Breiðfirðinga, Skarðsstöð, Bakkabót, Haukadalur; til þessara hafna er nú hætt að sigla, vegna breyttrar aðstöðu. Verslanir þar lagðar niður, Álftafjörður, Aðalvík, Höfn; þessar hafnir annast flóabátur Ísfirðinga. Lambhagavík og Selvík er ekkert að gera á fyrir strandferðaskip. Hrísey, Hjalteyri og Svalbarðseyri munu kjósa annað fremur en viðkomur strandferðaskipa. Loðmundarfjörður, Unaós, Gunnólfsvík, Fjallahöfn, Grenivík, Berufjörður; á þessar hafnir komu strandferðaskipin áður, en nú er samgöngunum svo háttað innan hjeraða, að mótorbátar ganga um suma þessa staði, ríkissjóði að kostnaðarlausu og með eins miklum þægindum fyrir íbúana, svo að nú er engin nauðsyn að sigla strandferðaskipum á þessa staði. Árið 1912 hafa þessir strandferðabátar haft um 37 viðkomur í Eyjafirði, þar sem nú er aðeins Dalvík ein með 4 viðkomur. Jeg hygg, að t. d. Eyfirðingum sje mun hentugra að fá bættar samgöngur innan hjeraðs og tíðar ferðir milli Akureyrar og hinna einstöku hafna hjeraðsins en hafa svo og svo margar viðkomur strandferðaskipa. Jeg hefi rjett í þessu heyrt, að hjeraðsbúar hafi í huga að skora á Alþingi að styrkja flóabátaferðir um Eyjafjörð.

Á hafnir þær, sem jeg nú hefi talið, hafa verið 140 viðkomnr árið 1912. Í skýrslunni í ár eru ekki teknar með 5 ferðir aukaskips Eimskipafjelagsins nú í sumar, og eigi heldur viðkomur þess skips, sem stjórnin hefir nú fengið heimild til að lejgja til strandferða fjögra mánaða tíma í haust.

Jeg skal þá gefa skýrslu um viðkomur í hinum ýmsu landshlutum á árunum 1908, 1912 og 1926. Við hana ber þess að gæta, að til Vestmannaeyja eru aðeins taldar ferðir strandferðaskipsins árin 1908 og 1912, en ekki ferðir millilandaskipa, en þau komu þar ávalt við, þegar nægur flutningur bauðst.

Skýrslan er þannig:

1908

1912

1926

Vestmannaeyjar .........

14

14

104

Austur-Skaftafellssýsla ..

12

6

6

Suður-Múlasýsla ........

119

159

229

Norður-Múlasýsla ........

58

60

53

Seyðisfjörður ...........

30

47

54

Norður-Þingeyjarsýsla ...

29

33

61

Suður-Þingeyjarsýsla ....

50

62

47

Akureyri ...............

36

51

56

Eyjafjörður og Siglufjörður ...................

49

57

68

Skagafjörður ...........

46

53

57

Húnavatnssýsla .........

58

75

74

Strandasýsla ............

59

69

81

Norður-Ísafjarðarsýsla ...

14

16

9

Ísafjörður ..............

33

45

81

Vestur-Ísafjarðarsýsla ....

38

46

57

Barðastrandarsýsla ......

74

89

80

Dalasýsla ...............

10

10

6

Snæfellsnessýsla .........

59

77

64

Af þessari skýrslu sjest, að öll hjeruð, nema Suður-Þingeyjarsýsla og Norður-Múlasýsla, hafa fengið auknar samgöngur.

Þá ber og að gæta þess, að skip þau, sem nú eru hjer í siglingum, eru 1. flokks farþegaskip og að öllu leyti vel út búin. En áður var meiri hluti skipanna mjög ljelegur og sum þeirra aðeins flutningaskip, er ekkert farþegarúm höfðu. Núna eru skipin líka að miklum mun ganghraðari en áður var, eða sigla með 11–13 mílna hraða, í stað þess að áður þótti gott, ef þau fóru 9 mílur. Þá má og enn telja það, sem allir vita að skip Eimskipafjelags Íslands koma nú við á miklu fleiri höfnum heldur en á áætlun eru. Þannig kom „Goðafoss“ t. d. á 16 aukahafnir í einni utanferð sinni norðan um land, og það er nálega engin ferð svo, að ekki sje komið á fleiri aukahafnir. Af því að nú eru stór og að öllu leyti vel útbúin skip, kemur það aðeins örsjaldan fyrir, að ekki komist með allur flutningur og farþegar.

En eins og menn muna, þá varð viðkoman áður ýmsum höfnum næsta gagnslítil. Skipin komu margoft við aðeins til þess að gera afsöknn sína og taka póst, en að öðru leyti höfðu hjeraðsbúar lítið gagn af ferðunum.

Þau hjeruð, sem hafa mesta þörf fyrir strandferðirnar og aðallega njóta þeirra, eru Snæfellsnes, Vestur-Barðastrandarsýsla, Vestur-Ísafjarðarsýsla, Strandasýsla, Húnavatnssýsla, Skagafjarðarsýsla, Þingeyjarsýslur og Múlasýslur. Í þessum hjeruðum eru um 30 þús. íbúar, eða tæplega það. En hin hjeruðin, sem hafa mesta þörf fyrir flóabáta og hafa sama og ekkert gagn af strandferðnm, eru: Borgarfjarðarsýsla, Mýrasýsla, Hnappadalssýsla, Dalasýsla, Austur-Barðastrandarsýsla, Norður-Ísafjarðarsýsla, Skaftafellssýslur og Rangárvallasýsla, og Gullbringu- og Kjósarsýsla að nokkru leyti. Í þessum hjeruðum eru rúmlega 30 þús. íbúar. Til þessa flokks mætti og telja Eyjafjarðarsýslu, sem nú mun fara fram á að fá styrk til flóabáts.

Það er ekki nema eðlilegt, að talsverðar umkvartanir heyrist frá þeim hjeruðum, sem eiga að búa því nær eingöngu við flóabátasamgöngur, en í hinum hjeruðunum eru samgöngurnar nú miklu betri en áður, að undantekinni Suður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu, en um SuðurÞingeyjarsýslu verður að athuga, að áður voru 11 viðkomur í Grenivík og 9 á Svalbarðseyri, en þessir staðir eru eins vel settir með bátaferðum. Fækkun viðkoma í sýslunni stafar af því, að þessum höfnum hefir verið slept. Þá ber og að geta þess, að nálega í öllum hjeruðum er nú fjöldi mótorbáta, sem annast flutninga án styrks, en er þó til stórbóta samgöngunum.

Flóabátar: Svo sem jeg gat um, hafa komið áskoranir um aukna styrki til flóabátanna og kvartanir um, að þær samgöngur væru ekki eins miklar og góðar og skyldi. Og þegar litið er til þess, að nær 1/3 hluti þjóðarinnar býr við samgönguleysi á sjó, að öðru en því, sem flóabátar afkasta, þá verður mönnum að skiljast, að miklu fje verður að verja úr ríkissjóði til þess að halda uppi þessum bátaferðum.

Skaftfellingur. Það er óhugsanlegt, að strandferðaskip komi þeim, sem búa á Suðausturlandi, að nokkru verulegu gagni; því veldur veðráttan og hafnleysið. Það verður því eina ráðið að kosta handa þeim hjeruðum sæmilega flóabáta. Árnessýslubúar óska nú sjerstaklega eftir ferðum frá Reykjavík til Eyrarbakka og Stokkseyrar. Nefndin sá sjer ekki fært að leggja það til, að nýr bátur væri fenginn til þess að halda uppi ferðum þessum, en taldi, að „Skaftfellingur“ gæti komið að liði. Leggur hún því til, að styrkur til hans verði hækkaður um 3000 krónur. Þessi bátur hefir stórt hafnleysissvæði til yfirferðar.

Breiðafjarðarbátur. Það hefir áður vakað fyrir nefndinni að geta sameinað Breiðafjarðar- og Borgarnesferðirnar, en það hefir ekki tekist nema að litlu leyti. Nú í ár hefir nefndin og hæstv. atvrh. (MG) samið við „Suðurland“ um 7 ferðir til Breiðafjarðar, en þeirra ferða hafa ekki not 4 hreppar við vestanverðan flóann — Austur-Barðstrendingar. Annars er í ráði, að samgöngur þar innan fjarðar verði með vjelbáti frá Flatey, og þá aðallega til hafnanna í Austur-Barðastrandarsýslu. Þetta fyrirkomulag heldur nefndin, að geti haldist næsta ár, en þegar akvegur er kominn milli Suður- og Norðurlands, fær „Suðurland“ nóg að gera að annast Borgarnesferðirnar. Þá munu flestir fara landleiðina milli Suður- og Norðurlands og með skipinu milli Reykjavíkur og Borgarness, og þurfa því að vera stöðugar ferðir þar á milli. Það er eigi aðeins, að ódýrara verði að ferðast landveg milli Norður- og Suðurlands, þegar akbrautin er komin, heldur er það miklu fljótari ferð heldur en með skipi, því að þó það hafi ekki nema fáa viðkomustaði, tekur ferðin frá Akureyri til Reykjavíkur altaf 3–4 daga.

Djúpbáturinn. Eins og allir vita, þá er landslagi svo háttað í Norður-Ísafjarðarsýslu, að samgöngur eru þar engar, svo teljandi sje, nema á sjó. Á landi er ekki hægt að ferðast nema rjett hreppa á milli; það gera hinar miklu vegalengdir og vegleysur. Nú háttar svo til þar, að póststjórnin verður að halda uppi bátaferðum um Djúpið milli Ísafjarðar og Arngerðareyrar. Þær ferðir hafa orðið mjög dýrar. Hefir verið óhugsandi að fá bát til ferðanna fyrir minna en 8–10 þús. krónur. Með þeim styrk, sem báturinn fær nú, kemst ríkissjóður ljett út af samgöngum í Norður-Ísafjarðarsýslu. En sýslubúar hafa ekki komist ljett út af þessum samgöngum, þar sem þeir hafa kostað til þeirra um 60 þús. kr. á síðustu 8 árum.

Hornafjarðarbátur. Þá er Hornafjarðarbáturinn. Höfn er þar svo ljeleg, að ekki er hægt að fá stór skip þangað inn að hausti eða vetri, nema fyrir aukið gjald, og þá svo hátt, að frágangasök má telja. Þarf því að halda uppi sjerstökum bátaferðum milli Hornafjarðar og Austfjarða, og þá helst Fáskrúðsfjarðar, sjerstaklega að hausti og vetri til. Nefndin heldur, að eigi sje hægt að fá bát til þessa fyrir minna en 6000–7000 kr. Áður hefir styrkurinn verið 4000–5000 kr. og stundum enginn. Nú í ár er hann 800 kr., en það er af sjerstökum ástæðum.

Vöruflutningaskip til Skaftaf.- og Rangárvallasýslna. Nefndin leggur til, að styrkur til vöruflutninga við Suðurlandsundirlendið verði 4000 kr. og verði honum varið til þess að fá millilandaskip til þess að flytja vörur beint frá útlöndum til Skaftfellinga og Rangæinga. Nefndin bjóst fyrst við því, að ekki mundi þurfa nema 3000 kr. til þessa, en Eimskipafjélagið vildi ekki ábyrgjast flutningaferð frá útlöndum til þessara staða fyrir minna en 4000 krónur.

Smærri bátar. Þá eru ýmsir smærri bátar, svo sem Rangársandsbátur. En þar dugir ekki einn bátur til flutninganna, því að sjaldan er hægt að taka þar land. Rangæingar hafa því leigt 5–6 báta í einu þegar gott hefir verið veður til flutninga frá Vestmannaeyjum til lands. Hefir verið borgað fyrir það eftir flutningsmagni, og hefir flutningurinn orðið svo dýr, að sanngjarnt er, að þeir fái nokkurn styrk.

Hvalfjarðarbáturinn flytur megnið af öllum vörum til Hvalfjarðarbúa og fleiri, alls 4 hreppa eða nálega það. Þessum bát eru aðeins ætlaðar 1000 kr., en því er ekki hægt að neita, að þarna er mikil flutningaþörf. Og þeir, sem hafa haft umsjón með bátsferðunum, hafa gefið góðar skýrslur um það, hvernig styrknum hafi verið varið, sent bæði áætlanir og skýrslur, og sjest á þeim, að styrkurinn mætti vera hærri en nefndin leggur til að hann sje.

Þá er Grímseyjarbátur. Nefndinni er ekki kunnugt um, hvort ferðum er nú haldið uppi milli Grímseyjar og lands, því að engar skýrslur hafa fengist um það. Mætti búast við, að styrkurinn yrði alveg feldur niður, ef ekki kæmu skýrslur um bátaferðir þessar.

Rauðasandsbát eru ætlaðar 400 kr. eins og áður. Sömu upphæð hefir nefndin ætlað Mýrarmönnum. Þar eru tveir hreppar, sem eru mjög illa staddir með aðflutninga á landi, og telur nefndin, að ekki verði hjá því komist að styrkja þá til að fá nokkrar ferðir milli Reykjavíkur og Mýra.

Lagarfljótsbáturinn hefir haft 400–600 krónur, en engar skýrslur hafa komið um það, hvernig þeim styrk er varið. Nefndin hefir heyrt, að engum ferðum hafi verið haldið þar uppi síðastl. ár. (HStef: Það er ekki rjett). Það er gott, ef háttv. þm. gæti gefið nánari upplýsingar um þessar ferðir. Nefndinni hefir nú borist erindi frá fjelagi, sem vill halda uppi samgöngum á fljótinu, og leggur til, að því verði veittur 800 kr. styrkur. Þetta má þó ekki skoðast svo, sem það eigi að fá sömu upphæð áfram, því að 300 kr. af þessu er styrkur til þess að kaupa bát á fljótið.

Jeg vil í þessu sambandi undirstrika það fyrir nefndarinnar hönd, að hún telur óhæft, að þeir, sem styrks verða aðnjótandi, sendi eigi skýrslur um það, hvernig styrknum er varið. Jeg vil biðja þá hv. þdm., sem eru þingmenn fyrir þessi hjeruð, að sjá um það, að skýrslur komi eftirleiðis. Menn geta kent sjálfum sjér um, ef þeir fá ónógan eða engan styrk, þegar þeir vanrækja að senda Alþingi skýrslur.

Þá er það eitt nýmæli, sem nefndin ber fram, en það er, að veittur verði styrkur til bátakaupa og vjelakaupa til þriggja flóabátafjelaga. Nefndinni barst frá atvinnumálaráðuneytinu brjef h/f „Skaftfellings“, þar sem skorað er á stjórnina að útvega styrk til þess að kaupa nýja vjel í skipið. Skipið hefir altaf verið vjelvana, eigi síst nú, eftir að vjélin fór að slitna, og það er ekki forsvaranlegt að láta það halda uppi svona hættulegum ferðum nema það fái betri vjel. Fjelagið hefir samið við vjelaverksmiðju og getur þar fengið nýja og aflmeiri vjel, og vill verksmiðjan að einhverju leyti taka hina gömlu sem borgun upp í hana. Allur kostnaðurinn við þetta er um 24 þús. kr., og er það sem næst þriðjungur kostnaðar, sem nefndin leggur til að veitt verði.

Einnig liggur erindi frá Djúpbátsstjórninni fyrir nefndinni. Hafði fjelagið farið þess á leit við atvinnumálaráðherra að fá 10 þús. kr. styrk til bátskaupa. Fjelagið varð fyrir því óhappi að missa mjög góðan bát sinn á síðastliðnu ári. Það á sama sem ekkert til; hlutafjeð að mestu tapað. Sýslunefndin vill ganga í ábyrgð fyrir fjelagið og óskar eftir, að það verði styrkt til þess að halda uppi bátsferðum um Djúpið. Álítur hún, að þeir menn, er standa fyrir fjelaginu, hafi svo mikla þekkingu á mann- og vöruflutningum í Norður-Ísafjarðarsýslu, að betra sje, að þeir fái fje til að halda uppi ferðunum en sýslunefndin sjálf annist þetta. Það má fullyrða, að aðstandendur fjelagsins, stjórn þess og formaður Djúpbátsnefndarinnar hafi aldrei fengið einn eyri greiddan fyrir öll sín ómök og vinnu við þetta mjög svo nýta fyrirtæki. Er álit allra, sem til þekkja, að ef fjelagið gæti rjett við og fengið sæmilegan farkost, muni rekstur Djúpbátsins verða miklu ódýrari en ef hnigið væri að öðru ráði.

Þá kem jeg að Flateyjarbátnum. Þar vantar nú einnig bát, og er sótt um 10 þús. kr. styrk til þess að halda uppi ferðum um austursýsluna. Nefndin sá sjer þó ekki fært að mæla með svo háum styrk, en leggur til, að veitt verði sem svarar ¼ eða 1/5, hluta af bátsverðinu, gegn því, að árlegur styrkur úr ríkissjóði verði ekki yfir 4500 kr.

Má segja, að hjer sje gengið inn á nýja braut, þar sem lagt er til að styrkja flóabátafjelög til bátakaupa. Sje betur að gætt, þá er hjer ekki um neitt nýtt fordæmi að ræða. Breiðafjarðarbáturinn „Svanur“ var styrktur með 18 þús. kr. til skuldaafborgana. Nefndin álítur rjettara að styrkja þessi fjelög, sem geta starfað áfram að þörf almennings. Nefndin lítur ennfremur svo á, að sanngjarnt sje að styrkja að nokkru þessi hjeruð, sem varhluta fara af strandferðaskipunum. Önnur hjeruð, sem njóta „Esju“ferða, þurfa engu til þeirra samgangna að kosta. Vænti jeg allrar rjettsýni hjá háttv. þdm. í þessu máli.

Jeg skal geta þess, að samgmn. Ed. mælir eindregið með þessum tillögum nefndarinnar.