11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

84. mál, þjóðaratkvæði um þinghald á Þingvöllum

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg vil fyrst þakka hv. flm. (SvÓ) forgöngu þessa máls. Mjer er það mikil ánægja, að einn af elstu mönnum þingsins skuli hafa hjer forgönguna.

Um kostnaðaratriðið er það að segja, að ef bygt verður þinghús á Þingvöllum, fær háskólinn það hús, sem nú er notast við. Að öðrum kosti yrði að reisa háskóla hjer í Reykjavík, og yrði það aldrei miklu ódýrara en að reisa þinginu hús á Þingvöllum. En þegar um slíkt er að ræða sem þetta, þá má ekki líta á kostnaðinn einan. Það eru til þeir hlutir, þar sem kostnaðurinn er ekki aðalatriðið. Gildi þessarar till. er ekki fólgið í bættum húsakynnum fyrir þingið. Verðmæti þessarar tillögu verður ekki mælt í fjárlögunum eða skráð í kauphöllum. Gildi þess er fólgið í öðru og skilst ekki öðrum en þeim, sem skilja, hvað þjóðerni, tunga og saga hafa að segja. Gildi þess máls er þannig, að best fer á því að halda öllum kostnaði fyrir utan umræðurnar, en það er, að elsta þing heimsins sje háð á sínum forna stað.

Eins og hv. flm. (SvÓ) tók fram, er þetta mál eitt af hugsjónamálum fyrri hluta 19. aldarinnar. Hv. flm. nefndi Jón Sigurðsson. En hæstv. forsrh. (JM) vildi bera brigður á það, að Jón Sigurðsson hefði getað fylgt till. sem þessari. Það er að vísu rjett, að Jón Sigurðsson barðist fyrir því, að þingið væri háð í Reykjavík. En þó eru til kaflar í ritum hans, sem sýna, að hann hefði glaðst yfir því, ef þjóðin hefði haft þrek til að heimta þing á Þingvöllum. Það er þetta sama, sem við flm. trúum á, að ef þjóðarþrek og þjóðarandi heimtar þinghald á Þingvöllum, þá muni það verða að gagni að flytja þingið. Því berum við fram till. um þjóðaratkvæði. Jeg ætla að leyfa mjer að lesa kafla um þetta efni úr ritgerð eftir Jón Sigurðsson:

„Það er meining mín enn . . . . að jeg vildi ekki segja neinn verra mann, þó hann fjellist ekki á minn skoðunarmáta, og það skyldi hafa glatt mig, ef alþýða hefði orðið við þeirri ósk minni og skorist í málið með nokkru fjöri, hvort það hefði verið með eða móti minni meiningu í þeirri grein, en þegar það varð ekki, þá finst mjer allir þeir, sem óska, að öðru hefði orðið framgengt en varð, megi kenna sjálfum sjer og deyfð sinni, að svo fór, og það því heldur, sem fleiri menn hafa verið á þeirra máli, og þeim þess vegna orðið ljettara að framfylgja því .......... Jeg hefði tekið það sem merki til þjóðaranda og þjóðkjarks, ef alþýða hefði alment tekið sig fram um að beiðast þess, að Alþing væri sett á Þingvelli, og ekki horft í kostnað þann og ómak, sem þar við hefði aukist, svo framarlega sem það hefir verið meining flestra, að svo fari betur, og þeir hefðu ekki mælt fram með því af hugþótta einum, heldur með anda og krafti“.

Það er þetta, sem við viljum að þjóðin sjálf gefi skýrslu um, hvort þjóðarandinn og þjóðkjarkurinn er svo mikill, að óskað verði eftir þingflutningnum.

Án efa verður eytt talsverðu fje í hátíðahöldin miklu 1930. Við höfum þá trú, að betur færi á, að eitthvað af því, sem þá verður gert, yrði varanlegt og sýndi eftirkomendum okkar, að hátíðahöldin hefðu ekki verið eintómur leikur og samát. Við óskum, að þjóðin geri eitthvað, sem stendur um aldir. Á þúsund ára hátíðinni 1874 var löggjafarvaldið flutt inn í landið. Okkur þætti vel fallið, að á þúsund ára afmæli Alþingis væri það flutt til Þingvalla. Þetta mál skýrist ekki við langar umræður. En það eru margir þeirrar skoðunar, að eins sjálfsagt sje að hafa Alþingi á Þingvöllum eins og páfann í Róm. Þingvellir eru einstakur staður, og jeg skil ekki þá þjóð, sem ekki vill notfæra sjer þá fágætu eign til þess að halda erfikenningunum í þingmálum og stjórnmálum betur vakandi en nú. Þessi krafa skapaðist á fyrri hluta 19. aldar, og í sambandi við hana varð til sumt af því besta í bókmentum okkar frá þeim tíma, og nægir að minna á kvæðið „Ísland, farsælda frón“. Nú virðist aftur skáldgyðjan hafa yfirgefið stjórnmálin, og þarf ekki að vænta hennar þangað aftur meðan því er haldið fram, að ekki megi flytja Alþingi til Þingvalla vegna þess, að því fylgi enginn spámaður. Það er sagan, sem heimtar, að Alþ. verði háð á Þingvöllum, og þúsund ára minningin er til þess best fallin að hrinda flutningnum í framkvæmd.