11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

84. mál, þjóðaratkvæði um þinghald á Þingvöllum

Magnús Jónsson:

Jeg finn þörf hjá mjer, líkt og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu. Hv. flm. (SvÓ) vitnaði til þess, sem jeg hefi eitt sinn skrifað um þetta efni. Jeg játa, að jeg er alveg sömu skoðunar eins og þegar jeg skrifaði þetta. Margt dregur til þess, að mjer finst Alþingi eiga að vera á Þingvöllum, og jeg er hjer um bil viss um, að það verður einhvern tíma flutt þangað. En það er dálítið annað að samþykkja þessa þáltill. Þó að það sje rjett, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að til sjeu þeir hlutir, sem ekki má nefna kostnað í sambandi við, þá á það ekki við um þetta mál.

Ef þetta mál væri borið undir þjóðina án þess að hún vissi, hvað í sölurnar yrði að leggja, gætu orðið leiðinleg vonbrigði úr öllu saman. Jeg er hræddur um, að málið sje ekki tímabært. Það hefir lítilsháttar verið minst á, hvað kosta mundi að gera þinghald fært á Þingvöllum. Jeg get ímyndað mjer, að kostnaður við byggingar, sem gera þyrfti, mundi nema miljónum. Það dygði ekki að sýna neinn pokaskap í þessu efni. Það yrði að byggja þinghús með heimavistum handa þingmönnum og starfsmönnum. Það yrði að setja þar niður prentsmiðju. Það yrði að byggja yfir allan þann sæg af gestum, sem þingið mundu sækja. Alt þetta mundi kosta geysimikið fje. Alt, sem gera á fyrir 1930, yrði að gera engu síður, og miklu meira. Þeir yrðu ekki færri, sumargestirnir, sem kæmu til Þingvalla 1930, þó Alþingi yrði flutt þangað.

Jeg held, að það sje rjett leið í þessu máli, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) benti á, að fela stjórninni að rannsaka kostnaðarhlið málsins. Það má ekki flana að neinu í svona tilfinningamáli, sem svo kynni að valda óánægju á eftir. Það er í þágu málsins sjálfs að fara varlega.

Það hefir verið minst á, að gera mætti Alþingishúsið hjer að háskóla. Mín skoðun er sú, að þetta hús sje alveg óhæfilegt til þeirra hluta. Jeg gæti hugsað mjer, að það yrði gert að nokkurskonar dómhúsi, og hæstirjettur hefði hjer aðsetur sitt, ef hætta ætti þinghaldi í því. En sem háskóli er húsið alveg óviðunandi. Þessi Nd.-salur til dæmis væri alveg óhæfur hátíðasalur fyrir háskóla. Hann þyrfti að vera miklu stærri. Það hefir sýnt sig hjer við venjulega háskólasetningu, að hjer hefir verið alskipað og salurinn alt of lítill, ef um nokkuð meira hefir verið að gera. Krafan um háskólabyggingu mundi verða alveg jafnhávær eftir þingflutning eins og áður.

Það má ganga út frá því sem sjálfsögðu, ef Alþingi yrði flutt til Þingvalla, að þá yrði að flytja stjórnarráðið þangað líka. Helst yrði það að sitja þar alveg. Það hefir verið bent á þjóðir, sem ekki hefðu þing sín í stærstu borginni, en þær hafa þá stjórnarsetrið alt á sama stað. Annars er nokkuð öðru máli að gegna um þjóðir, sem hafa svo margfalt betri samgöngur en við.

Við verðum að gera okkur ljóst strax í byrjun, hve þetta er miklum örðugleikum bundið. Jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um, þó jeg sjái mörg ljón á veginum nú, að þjóðin flytur þing sitt til Þingvalla einhvern tíma, þegar hún hefir náð nægilegum þroska til þess. Menn mega vara sig á að fara öfuga leið í þessu máli. Enginn verður gerður að skáldi með því einu, að fá honum blek og penna. En skáldið aflar sjer bleks og penna þegar það hefir eitthvað að segja. Þjóðin verður ekki gerð hæf til þess að eiga þing sitt á Þingvelli með því einu, að flytja það þangað. En hún mun flytja það þangað þegar hún er fær til. Eins og hugur minna virðist nú gagnvart þinginu býst jeg við, að fljótlega yrði sagt, ef það væri flutt til Þingvalla, að það væri ekki þeim stað samboðið.

Hæstv. forsrh. mintist á, að ekki væru líkur til, að betra næði fengist þar austur frá til þinghaldsins. Þetta er alveg rjett. Fegurð staðarins og söguleg helgi hefði vafalaust áhrif á suma, og suma ekki, eins og gengur og gerist.

Það er beinlínis vegna málefnisins sjálfs, að jeg get ekki samþykt þessa till. Jeg hygg, að hún gæti auðveldlega spilt fyrir því. Ef málið væri borið undir þjóðina eins órætt og órannsakað og það er nú, gæti vel farið svo, að komið yrði af stað öflugri „agitation“ vegna kostnaðargrýlunnar, og það yrði málinu að falli. Fyrsta sporið og sjálfsagðasta er að rannsaka þetta vel. Búist er við, að Alþingi verði ef til vill sett á Þingvelli árið 1930. Það væri þá hægt að sjá, hve mikilli hrifningu það kæmi af stað, og yrði kanske betra að átta sig á, hvað gera skyldi í þessu efni.

Jeg er raunar ófús á að greiða atkvæði móti svona till., en þar sem málið vantar tilfinnanlega allan undirbúning, leyfi jeg mjer að gera það að till. minni, að því sje vísað til stjórnarinnar.