12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (3114)

119. mál, launakjör bæjarfógeta og lögreglustjóra í Reykjavík

Jóhannes Jóhannesson:

Hv. flm. (JJ) fór hjer á hundavaði, svo sem eðlilegt er og hans er vandi. í greinargerð till. sinnar þykist hann eiga við útsvar mitt árið 1925, er hann talar um, að tekjur bæjarfógetaembættisins líti út fyrir að vera litlar sum árin, en nú hefir hann upplýst, að hann átti við tekjuskattinn það ár. Hefi jeg því eðlilega ekki haft ástæðu eða tækifæri til að rannsaka, hvort hann væri þá rjett tilfærður, en býst þó við, að hann sje nærri sanni. — En það er ákaflega eðlilegt, að jeg greiddi lágan tekjuskatt 1925. Því að árið 1924 keypti jeg, svo sem flestum hv. þdm. mun kunnugt, allgamalt timburhús — bygt 1907 — og kostaði miklu fje til viðgerðar á því; var viðgerðarkostnaðurinn að sjálfsögðu dreginn frá skattskyldum tekjum mínum það ár, sem tekjuskatturinn 1925 er talinn af, samkvæmt 11. gr. tekjuskattslaganna. Aftur á móti sýnir útsvarið, 2300 kr., að jeg hefi alls ekki gefið upp svo ýkjalágar tekjur, og fellur þar með sú aðdróttun, sem kann að eiga að felast í orðum hv. flm. (JJ), um að jeg hafi talið rangt fram. Jeg skal geta þess, að ekki eru allar tekjur mínar embættistekjur. Bæði hefi jeg þingfararkaup mitt, og auk þess sit jeg í dansk-íslensku ráðgjafarnefndinni og fæ fyrir það nokkurt fje. Þá hefi jeg og síðasta ár haft töluverðar tekjur af húsi því, er jeg gat um áðan. Það eru því engar sönnur þess, að bæjarfógetaembættið í Reykjavík sje of hátt launað, þótt jeg hafi alt í alt sæmilegar tekjur. — Að endingu vil jeg endurtaka það, sem jeg sagði fyrst, að hv. flm. (JJ) er hjer á hundavaði, eins og fyrri daginn, og furðar þá síst á því, sem þekkja hann og mannskemdarfýsn hans.