12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (3118)

119. mál, launakjör bæjarfógeta og lögreglustjóra í Reykjavík

Jóhannes Jóhannesson:

Það sýnir meðal annars fákunnáttu hv. flm. (JJ) á þeim málum, sem hann þó leyfir sjer að bera fram og blaðra um í það óendanlega á Alþingi, að hann skuli nú til að mynda ekki vita, að tekjuskattslögin gera greinarmun á því fje, sem varið er til viðhalds á eldri húsum, og á því fje, sem varið er til nýbygginga. Það, sem varið er til viðhalds, á eftir lögunum að draga frá skattskyldum tekjum, og gerir skattanefndin eða skattstjórinn það, en ekki gjaldþegninn sjálfur. Aftur á móti er engin heimild til þess í lögunum að draga frá skattskyldum tekjum fje það, sem varið er til nýbygginga.

Sú skoðun hv. þm., að tekjuskattslögin hafi verið skýrð sjerstaklega mjer í hag, er tekjuskattur minn árið 1925 var ákveðinn, byggist því eingöngu á fáfræði hans.

Þá virðist hv. flm. (JJ) heldur ekki hafa hugmynd um það, að draga á frá skattskyldum tekjum útsvar það og tekjuskatt, vexti af skuldum o. fl., sem gjaldþegninn hefir greitt næsta ár á undan.

Í leigu fyrir bæjarfógetaskrifstofurnar í húsi mínu er greidd nákvæmlega sú upphæð, sem tveir menn, dómkvaddir af þar til af dómsmálaráðuneytinu sjerstaklega skipuðum dómara, hafa metið húsaleiguna fyrir herbergin.

Þá skal jeg loks taka það fram, að ríkissjóður hefir aldrei greitt einn einasta eyri fyrir rekstur embættis míns, þegar jeg hefi verið fjarverandi frá því sem þingmaður eða í eigin erindum, ekki einu sinni árið 1906, er jeg heilsu minnar vegna varð að sigla og dvelja 3 mánuði í heilsuhæli erlendis.