14.05.1926
Efri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (3124)

124. mál, sýslumenn og bæjarfógetar megi ekki eiga sæti á þingi

Flm. (Jónas Jónsson):

Það var sagt í spaugi milli hæstv. forsrh. (JM) og mín, að þessi síðasta till. væri eftirmaturinn. Jeg býst við, að það verði lítill eftirmatur, því að þar sem nú er komið að þingslitum og þetta er aðeins lítill liður í stærra kerfi, ætla jeg að vera mjög stuttorður.

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. stjórn muni leggja til breytingu á stjórnarskránni fyrir næsta þing, af því að að minsta kosti einn og jafnvel tveir þingflokkar beittu sjer fyrir því við síðustu kosningar. Vil jeg í þessu sambandi víkja að nokkrum breytingum, sem jeg býst við, að meginið af hugsandi mönnum æski eftir, en það er, að reynt verði að finna eitthvert það form á vinnu þingsins, sem geri það að verkum, að þingtíminn styttist. Ef stjórnin legði til stjórnarskrárbreytingu, væri mjög æskilegt, að hún um leið gerði ráðstafanir til að stytta þingtímann. Jeg ætla að nefna tillögu eins hv. þm. í Nd., sem er á þá leið, að stytta mætti til stórra muna vinnu við afgreiðslu fjárlaganna, með því að ræða þau aðeins í sameinuðu þingi. Það er öllum ljóst, að þriggja mánaða þingseta er ekki nauðsynleg og er aðeins vegna þingskapanna. Við vitum öll, að eftir þetta þing liggur ekki mikið af merkilegum lagabálkum og að stærstu málin eru óútrædd. Það eru aðallega fjárlögin, sem eftir þingið liggja, og þau hefði mátt afgreiða á miklu skemmri tíma en gert var. Jeg geri ráð fyrir, án þess að jeg ætli að fara að segja stjórninni fyrir, að hún muni legga til einhverjar breytingar þessu viðvíkjandi. En jeg vil leggja til, að dómarar ættu ekki sæti á þingi. Jeg ætla ekki að rökstyðja þetta ítarlega nú, því að það leiðir af þeim rökum, sem eru fyrir því, að dómarar ættu að vera sem mest utan við landsmálabaráttuna. Hjer í fámenninu, þar sem návígi er venjulega biturt, hefir þetta marga og mikla kosti. Jeg álít ýmsar breytingar á dómaraskipuninni nauðsynlegar, en einkum vil jeg vekja eftirtekt á þessu vegna væntanlegrar breytingar á stjórnarskránni. Fáir menn mundu bíða af því nokkurt tjón. Ef til vill 2–3 sýslumenn, sem flestir hafa nægilega miklu að sinna þar að auki.

Ef einhver breyting verður gerð, væri og æskilegt, að tekið yrði til athugunar, að þingstaðurinn væri ekki með lögum bundinn við Reykjavík. 1000 ára þing á að halda á Þingvelli, en vafasamt er, hvort hægt er að halda það þar, nema með breytingu á stjórnarskránni. Jeg veit, að sumir menn, eins og t. d. hv. 1. landsk. (SE), vilja enga breytingu á stjórnarskránni, en hinir hygg jeg að sjeu miklu fleiri, sem telja nokkrar breytingar mjög æskilegar.