08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3137)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 3. landsk. (JJ) nefndi enn á ný Gunnar Egilsson sem dæmi upp á óheyrilega sendimenn og sagði, að hann stæði í óbættum sökum við ríkissjóð. En nú hefir hann gert samning um skuldina, og meðan hann stendur við samninginn, er ekki hægt að segja, að hann standi í óbættum sökum.

Annars er vert að geta þess, að skuld þessi er þannig til komin, að maður þessi eyddi umfram laun sín, þá er hann var sendur til Ameríku í þágu landsins. Sje jeg svo ekki ástæðu til að tala frekar um þetta.

Háttv. 3. landsk. (JJ) beindi broddunum að mjer út af vali sendimannsins til Bandaríkjanna s. l. haust, og spurði, hvers vegna hann hefði hætt við förina. Þar til er því að svara, að hann, af ástæðum, sem jeg hirði ekki að greina, bað mig í Khöfn um að losa sig við þessa för, og gerði jeg það gegn því, að hann endurgreiddi áfallinn kostnað. Um ástæðurnar fyrir því, að maður þessi hætti við ferðina, má 3. landsk. (JJ) tala eins og hann vill og gera sjer enn meira til minkunar, ef unt er, en hann þegar hefir gert. Þegar jeg svo kom heim úr utanför, rjeði jeg Svein Björnsson til þess að fara þessa ferð til Ameríku. Hafði jeg farið fram á það við hann áður, en þá gat hann það ekki vegna starfs síns í bankamálanefndinni. Þegar svo að því kom, að hann átti að fara, kom fregn um, að líkur væru til, að úr ullartollsmálinu greiddist. Var förinni því frestað, og nú er komin fregn um happasæla lausn málsins.

Þó að hv. 3. landsk. (JJ) lasti mig fyrir valið á manninum, eins og honum er lagið, læt jeg mjer það í ljettu rúmi liggja. Jeg er ánægður yfir því, að málið hefir fengið góð úrslit, og jeg sef rólega, þótt hv. 3. landsk. (JJ) álíti, að mjer sje það að engu leyti að þakka. Mjer er fyrir mestu góður endir ullartollsmálsins, og hv. 3. landsk. (JJ) má mín vegna naga um hryggjarliði þeirra, sem við málið hafa verið riðnir, ef hann hefir ekki annað þarflegra að sýsla eða sem betur á við hans skap.

Að öðru leyti hefi jeg ekki ástæðu til að gefa skýrslu um málið. En sje hv. 3. landsk. (JJ) ekki ánægður með þetta, getur hann komið fram með fyrirspurn á þinglegan hátt.