08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (3139)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Þórarinn Jónsson:

Aðeins örfá orð, af því að jeg varð fyrir þeim heiðri, að hv. 3. landsk. (JJ) mintist mín í sambandi við þessa tillögu, út af tillögu, sem kom fram á þingmálafundi í Vestur-Húnavatnssýslu. Úr því að farið var að draga þetta inn í þessar umræður, finst mjer rjettast að geta þess, hvernig á stóð.

Það var nýkomin fregn hjeðan að sunnan um það, að ráðist hefði verið á sendimann stjórnarinnar í ullartollsmálinu af hv. 3. landsk. (JJ). Þetta var breitt mjög lævíslega út og komst víðar en nokkrum datt í hug, á örstuttum tíma. Orsökin mun hafa verið sú, að þingmálafundir stóðu fyrir dyrum, og því hefir þótt tryggilegast að koma þessu sem víðast.

Jeg hjelt því strax fram, þegar um þetta var deilt, að á fregn þessa mætti engan trúnað leggja, ekki eingöngu fyrir þá sök, að hún kom frá hv. 3. landsk. (JJ), heldur og sakir þess, að slíkum sögum er sjaldan trúandi, a. m. k. ekki fyr en að hafa heyrt þær frá báðum hliðum. Hvernig tillagan, sem fram kom á fundinum á Melstað út af þessum sendimanni, var orðuð fyrst, man jeg ekki fyrir víst, en mjer þótti hún óhæfilega harðorð. Annars reyndi jeg hvorki að verja stjórnina nje ásaka út af þessu máli, en jeg sagði aðeins þarna á fundinum, að hefði jeg átt að ráða manninum, myndi jeg hafa álitið annan mann hæfari til fararinnar, og það var Garðar Gíslason stórkaupmaður, þar sem hann hefir frekar en aðrir kynt sjer þetta mál. Að jeg taldi þennan mann heppilegri, var án þess að jeg tryði sögunum um þann, sem sendur var.

Annars held jeg, að á þessum fundi hafi verið tiltölulega fáir, sem trúðu sögunni eins og hún var sögð, enda ýmsir farnir af fundi, þegar síðustu tillögurnar voru bornar upp, eins og fundarstjóri vottar á fundargerðina.

Hvort það hefir verið tilviljun eða ekki, þá voru á þessum Melstaðarfundi mættir miklu fleiri andstæðingar mínir en stuðningsmenn, og mjer var sagt, að margt af þeim væru fjelagar úr ungmennafjelagi, sem hv. 3. landsk. (JJ) hefði haldið fyrirlestur hjá s. 1. sumar. En eigi að síður voru allar tillögur mínar samþyktar á fundi þessum, og enginn hreyfði sjerstökum mótmælum. Að vísu bar þarna á góma mál eins og t. d. ríkislögregluna. En þegar jeg spurði tillöguflytjanda, hvort hann hefði lesið þingtíðindin, kvað hann nei við. Sýndist mjer þá algert óráð að eiga orðastað við þennan mann um málið.

Hv. 3. landsk. (JJ) hefir margt misjafnt um mig talað og ritað. Sumt hefir hann orðið að jeta ofan í sig í fjölda manna viðurvist, svo jeg kippi mjer ekki upp við nýja áreitni og veit, að enn fer á sömu leið fyrir þm. (JJ: Eins og hvað?). T. d. þegar hann sagði, að taka hefði þurft enska lánið til þess að fullnægja eyðslukröfum Þórarins á Hjaltabakka. Þetta dró hann af því, að jeg hafði verið framsögumaður í launamálinu á þinginu 1919 og talaði þar fyrir munn allra flokka. Þegar hann svo talaði við bændur, sagði hann út af þessu, að jeg hossaði embættismönnunum, en við embættismenn, að þetta hefði verið sjálfsögð launahækkun.

Þegar maður nú hugsar um tilgang hv. 3. landsk. (JJ) með till. þessari, þá hlýtur maður að sjá, að hann er aðeins sá, að sverta einn ákveðinn mann, og kemur þar fram hin venjulega mannskemdalöngun hv. þm. Vitanlega má öllum standa á sama um slík ummæli þessa þm. (JJ), svo alþektur er hann orðinn hjá þjóðinni, og ekki síst eftir það, að hann hefir fengið þá nýju nafnbót í opinberu blaði. Hvað mig snertir hafa engin áhrif á mig ummæli þessa hv. þm. Jeg hefi kynst ósannindamönnum og veit um afdrif þeirra. Jeg hefi sjeð þá minka dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, uns þeir hverfa af því sviði, sem nokkur maður tekur eftir þeim eða metur þá neins.