08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í D-deild Alþingistíðinda. (3141)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Flm. (Jónas Jónsson):

Hæstv. stjórn hefir nú á sinn hátt viðurkent, að þáltill. sje ekki óþörf, og get jeg verið ánægður með það. Það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um, að sendimaðurinn hefði verið leystur af hólmi, var nokkuð í sama dúr og hin frjálslegu orð hans og stjettarbróður hans á fundinum í Borgarnesi. Þar töluðu þeir um þessa heppilegu sendiferð og röggsemi stjórnarinnar í því að sjá hag bænda borgið og fá ullartollinum í Bandaríkjunum af ljett.

Hið næsta, sem gerist í málinu, er svo það, að sendimaðurinn kemst aldrei lengra en til Khafnar, og fær þá lausn í náð og er sendur heim.

Síðan hefir verið látið reka á reiðanum, þangað til nú í apríl, að endanlegt svar Bandaríkjastjórnar kemur um lækkun á tollinum, og er það ekki hinni ísl. stjórn að þakka, að þannig fór.

Ekki batnaði fyrir hæstv. forsrh. (JM), er hann fór að útlista fullveldi okkar í annað sinn. Jeg hafði bent á það, að konsúlamálið norska varð að sambandsslitum milli Norðmanna og Svía, og sagði, að nokkuð svipað gæti komið fyrir okkur. Íslenska stjórnin gerði einu sinni út „legáta“ eða sendiherra til Genúa, en þar settu Danir okkur stólinn fyrir dyrnar, og hann varð að hröklast heim aftur. Og þetta kom þá harðast niður á hæstv. forsrh. (JM), sem þá rak sig á, að Danir vildu ekki, að Íslendingar hefðu neina sendimenn í öðrum löndum. Jeg vísa því þess vegna heim til föðurhúsanna, sem hæstv. ráðh. sagði um fáfræði mína í þessum efnum. Hitt er verra fyrir hann, að þekkja ekki efni þess samnings, sem hann hefir sjálfur gert.

Það er altaf gaman að hv. þm. V.- Húnv. (ÞórJ). Hann er eins og stór ósannindaverksmiðja, eða eins og sagt hefir verið um hann af merkismanni í kjördæmi hans, að honum væri aldrei ljett um að tala, nema þegar hann segði ósatt.

Við skulum nú athuga þingmálafundargerðimar, sem minnast á þetta mál, og þá getur hann ekki neitað því, að úr hans kjördæmi hafa komið einna skarpastar ávítur á stjórnina fyrir valið á sendimanni til Bandaríkjanna.

Hv. þm. (ÞórJ) ætlaði í fyrstu að vera með hæstv. fjrh. (JÞ) og fylgdi honum á fyrsta fundinum í gengismálinu, en eftir því sem vestar dró í sýsluna rann upp fyrir honum æðra ljós, og var það áberandi á seinustu fundunum. Þessu getur hann ekki neitað, því að það sjest á fundargerðunum.

Á einum fundinum sagðist hann heldur vilja, að sendur hefði verið stórkaupmaður nokkur hjer í Reykjavík til Bandaríkjanna heldur en sá maður, er hæstv. stjórn valdi til þess. Sjást á þessu brjóstheilindi hv. þm. (ÞórJ), að þrátt fyrir fylgi hans við stjórnina nú skorti hann kjark til þess að fylgja henni, þegar hann vissi hug kjósenda sinna á fundunum ganga í aðra átt, alveg eins og þegar hann ljet þá kúga sig í gengismálinu.

Hv. þm. (ÞórJ) vill afsaka sig með því, að engar ábyggilegar fregnir um sendiförina hefðu verið komnar norður í kjördæmi hans, þegar fyrsti þingmálafundurinn var haldinn. Það var þó komin grein um málið og blaðið komið norður um sveitir, og mun hann hafa sjeð það, en þorir ekki að kannast við það. En afleiðingin varð sú fyrir hann, að stjórnin beið ósigur í núverandi íhaldskjördæmi Vestur-Húnavatnssýslu.

Annars hefi jeg hlífst við því að lesa þessar fundarályktanir hjer, en jeg skora á hv. þm. sjálfan að gera það.

Af því að við tölum svo sjaldan saman, hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) og jeg, langar mig til að tala svolítið við hann um framkomu hans í ríkislögreglumálinu. Hann hefir sagt, að kjósendur hafi lítið kynt sjer það mál, en hingað hefir þó í vetur komið áskorun frá 270 kjósendum í einu íhaldskjördæminu, þar sem þeir skora á þingið að samþykkja ekki lög um ríkislögreglu. (Forseti JóhJóh: Það væri æskilegt, að hv. flm. (JJ) hjeldi sjer við efnið). Já, þótt þetta sje ekki til umr. hjer, gaf hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) tilefni til þessa.

Þá átti sami hv. þm. (ÞórJ) sinn þátt í því að koma enska láninu í lóg, með leynimakki sínu við starfsmenn landsins, er hann sat í launanefnd 1919, en af þeirri eyðslu leiddi aftur fjáraukalögin miklu.

Og þegar nú öll hans pólitíska saga er þannig, ætti hann síst að fara að lepja upp vísvitandi rógmælgi úr sorpblöðum. Hann hefir borið út þrotlausan róg um mig, þar sem jeg var hvergi nærri, en þorði svo ekki við neitt að kannast, er jeg kom til skjalanna norður þar. (ÞórJ: Er áframhald hjer af Sveinsstaðafundinum?). (Forseti JóhJóh (hringir): Jeg vil alvarlega biðja hv. flm. (JJ) að halda sjer við efnið). Jeg hefi ekki vikið frá efninu, nema að því leyti, sem ræða hv. þm. (ÞórJ) gaf tilefni til. Þar sem hv. þm. (ÞórJ) er að fetta fingur út í það, að í till. minni skuli ekki minst á neinn vissan mann, en segir þó, að jeg sje með þessu að áfella ákveðinn mann — þá er hann þar á öndverðum meið við yfirboðara sinn. Hæstv. forsrh. (JM) skildi það vel, hvers vegna jeg var svo kurteis að nefna ekki nein nöfn, og hann kvartaði einmitt um það, að jeg hefði ekki sagt nóg. Hann virðist hafa vitað um nógar sakir.

Þá var hv. flm. (ÞórJ) að minnast á grein eftir geðbilaðan mann, sem liggur undir einskonar kæru fyrir landráð, frá fyrverandi dómsmálaráðherra. Sú grein kom í blaði stjórnarinnar. Hv. þm. V.-Húnv. fann mjer það til foráttu, að hafa ekki farið í mál við þennan mann. En því hafa ekki forsætisráðherra og bæjarfógetinn í Rvík höfðað mál á þennan mann, sem hefir borið þá þungum sökum og reynt að rökstyðja brigsl sín? Er það af því að þeir vilji, eins og við aðrir Reykvíkingar, fremur útkljá slík mál fyrir dómi almennings heldur en fyrir einhverjum stauparjetti?