08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (3145)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Þórarinn Jónsson:

Nú held jeg, að hv. 3. landsk. (JJ) þyki gaman að lifa, því að það er eins með hann eins og púkann á fjósbásnum forðum, að aldrei líður honum betur en í illindunum og erjunum. Það er bókstaflega eins og það svali hans insta eðli. — Hann var að líkja mjer við einhverja „ósannindaverksmiðju“, og þótti sumum koma úr undarlegri átt. Því að það er svo með suma menn, að þeim finst alt vera ósannindi og blekkingar hjá öðrum, þegar þeir vita ekki lengur, hvað þeir sjálfir segja, hvort það er satt eða logið. Þótt leitt sje til þess að vita, þá er eins og sljóvgist hjá þeim skilningsvitin, en því æfari verða þeir gegn ímynduðum ósannindum annara.

Hv. þm. (JJ) talaði enn um þennan fund í Húnavatnssýslu, þar sem samþ. var till. út af sendimanni stjórnarinnar. Hann mótmælti því, að eintómar lausafregnir hafi verið komnar til hjeraðsins um sendiförina, því að þar hafi verið komin „ein prentuð grein“. — En eftir hvern var þessi prentaða grein? Eftir hv. 3. landsk. (JJ). Og það er með mig eins og svo marga aðra, að mjer finst alt vera lausafregnir, sem þessi hv. þm. segir. Og jeg minnist ekki að hafa komið þar, sem orð hans eru talin áreiðanleg. (JJ: Hvers vegna samþ. þeir þá tillöguna á fundi, þar sem hv. þm. þykist hafa ráðið öllu?). Jeg kem að því. — Jeg þykist víst hafa ráðið öllu á fundinum! Jeg tók það einmitt fram, að þar hafi meiri hlutinn verið pólitískir andstæðingar mínir, en samt hafi þeir samþykt allar þær till., sem jeg bar fram. Auðvitað samþ. þeir nokkrar till. aðrar. En það fer stundum svona fyrir þessum hv. þm., þegar hann vill niðra mjer, að þá gerir hann úr mjer miklu meiri mann heldur en jeg á skilið. T. d. vill hann núna halda fram, að jeg hafi ráðið öllu á fundi, þar sem var meiri hluti af hans fylgifiskum. Hvílíkur mun jeg þá á fundum, þar sem jeg hefi meiri hluta með mjer? Nei, það getur ekki gengið fyrir hv. 3. landsk. (JJ) að gera mig altaf að meiri manni, þegar hann vill álasa mjer. — Það er rjett, að það var komin grein um málið eftir þennan háttv. þm.; og þótt þessi grein væri ekki geðsleg, þá var þó enn ljótara munnfleiprið hjá mönnum. Hvort það hefir komist gegnum símann frá hv. 3. landsk., skal jeg ekki ábyrgjast. En margt hefir fyrir komið, sem ólíklegra virðist.

Þessum hv. þm. (JJ) er altaf gjarnt að blanda öðru inn í umr., eins og núna, er hann fann hvöt hjá sjer til að fara að tala um þær samþyktir, sem gerðar hafa verið í gengismálinu á fundum í Vestur-Húnavatnssýslu. Þrátt fyrir þetta raus sitt ætti hv. þm. að vita, að allar till., sem samþ. voru, gengu í þá átt, að krónan skyldi hækka. Það er leiðinlegt að sjá þessi óheilindi í öllu, sem hv. 3. landsk. segir og gerir. Hann má spyrja alla, sem á fundunum voru, hvernig þeir hafi skilið mig. Svörin hljóta öll að verða þau, að framkoma mín hafi verið fyllilega samkvæm.

Hv. þm. (JJ) fór að tala um ríkislögreglu og áskoranir, sem fram hafi komið út af henni. En hvernig eru þessar áskoranir til komnar? Ætli hv. 3. landsk. (JJ) sje ekki kunnugt um faðernið að þeim? Það mál er eitthvert það allra vitlausasta, sem komist hefir af stað hjer á landi. (JJ: Var stjfrv. svo vitlaust?). Nei, það var ekki stjfrv., sem var vitlaust, heldur eru það lætin út af því og allar fundarsamþyktirnar, sem eru vitlausar. Því að hv. 3. landsk. og hans nótar hafa gert sig að sannkölluðum fíflum, til að fá þessar yfirlýsingar. Þeir hafa afbakað málið alt og snúið út úr því, svo að ósköp hafa verið að heyra. En mikið skal til mikils vinna. Það var einn af lærisveinum hv. 3. landsk., sem fór að tala um þetta mál á einum fundinum hjá mjer með miklum ofsa og rembingi. Hann vissi auðsæilega ekkert um málið, svo að jeg spurði hann aðeins, hvort hann hefði lesið um málið í Alþt. En það hafði hann ekki gert, svo að jeg sá ekki til neins að karpa um það við hann. Jeg held, að hv. 3. landsk. lifi ekki lengi á látunum út af því máli.

Þá fór hv. 3. landsk. enn að tala um „eyðsluloforð“ mín, sem þingið hafi neyðst til að efna. Og hver voru nú þessi eyðsluloforð? Jú, hv. þm. (JJ) spurði, hvort jeg hafi ekki altaf verið að vitna í „samkomulag við starfsmannafjelag ríkisins“ í framsöguræðu minni um launalögin. Það er svo sem ekki vafi á því, að jeg orsakaði allar launahækkanir með „samkomulagi mínu“(!) við starfsmannafjelag ríkisins. Því að menn verða að muna, að hv. 3. landsk. (JJ) er altaf sjálfum sjer samkvæmur um matið á mjer. Hann segir eitthvað á þessa leið: Það er aumi skaðræðismaðurinn þessi þm. V.-Húnv. Hann ræður bókstaflega öllu, bæði á þingi og utan þings. Það er aumi maðurinn! — En þó að hv. 3. landsk. (JJ) þyki gott að hampa þessu og þvílíku framan í bændur og aðra, sem lítt þekkja til, mundi hann þá vilja standa við það frammi fyrir starfsmönnum hins opinbera, að laun þeirra væra alment of há? — Nei, það er ekki nóg fyrir þennan hv. þm., þótt hann hafi góðan vilja á að ófrægja mig. Hann verður að gera það með einhverri skynsemi. Því að hann verður að líta á það, að það getur ekki verið neinn smáræðismaður, sem ræður alveg yfir fjvn., stjórninni og öllum þingmönnum. — Hv. 3. landsk. (JJ) talaði allgleitt um það, að jeg hefði farið með þrotlausan róg um hann í kjördæmi mínu. En jeg get staðið við hvert orð, sem jeg hefi sagt um hann, og í kaupbæti vísað þessum orðum hans heim aftur, með þeim ummælum, að það, sem sjálfur hann hefir skrifað og sagt um mig, er endalaust rugl og klaufaleg illmælgi. — En það skal jeg játa, að jeg hefi haldið því fram á fundum, að hann væri kommúnisti. Og um þessa skoðun sannfærist jeg betur með hverjum degi, og jeg veit það, að eftir því, sem hv. 3. landsk. (JJ) lifir lengur, komast fleiri á þá skoðun.

Þá bar hv. þm. (JJ) mjer það á brýn, að jeg ætti eftir að botna grein til hans í Verði. Það er hárrjett athugað, að greinarnar eru óbotnaðar enn, en jeg gerði hlje á, til þess að hann fengi tækifæri til að hreinsa sig í tveim atriðum, þar sem hann var lýstur ósannindamaður. — Hv. þm. segir raunar, að það sje ekki siður hjer í bæ að reka það af sjer í málaferlum, þótt maður sje lýstur ósannindamaður. Jeg veit nú ekki, hvern greiða hann gerir Reykvíkingum með þessari yfirlýsingu. Ekki hafa þeir mikinn sóma af því, enda er það eflaust gert í sama góða tilgangi eins og talið um Grimsbymenninguna o. s. frv.

Jeg nefndi það víst í fyrri ræðu minni, að einn Reykvíkingur hafi lýst hv. 3. landsk. (JJ) ærulausan lygara og rógbera. Nú segir hv. þm., að þessi maður sje geðveikur. Jeg vil skora á hann að lýsa þessu yfir utan þings, svo að maðurinn fái færi á að verja sig. En raunar hefir það nú verið að heyra á blaði því, sem hv. 3. landsk. (JJ) er talinn við riðinn, og á ritstjóra þess, að það sje ekki svo lítið að marka, hvað þessi maður segir — þegar það „passar í kramið“.

Í lok ræðu sinnar sagði hv. 3. landsk. (JJ), að jeg væri mesti ósannindamaður á Íslandi. — Jeg læt mjer nú fátt um finnast, og það því fremur, sem svo var að skilja rjett áður, að hann kvartaði undan því, hve lítill jeg væri í þeirri verksmiðju, þar sem hann er verksmiðjustjóri. En jeg skal engan heiður ásælast, sem honum ber, og fúslega viðurkenna, að þar sje hann ekki aðeins verksmiðjustjóri, heldur og ötulasti verkamaðurinn.