08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (3151)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Jón Baldvinsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) má eiga það, að hann talar oft trúverðuglega, þó einhver veila sje í röksemdum þeim, er hann ber fram, þegar hann er hikandi í máli og fullyrðingum, þá hlýtur að verða meira en lítill þverbrestur í málstað hans. En svo var nú síðast í ræðu hæstv. ráðh. (JÞ), er hann sagði, að orsök ullartollsins væri samþykt steinolíueinkasölunnar. Hvernig getur nú hæstv. ráðh. leyft sjer að bera þetta fram, án þess að nefna eina einustu ástæðu fyrir því? En sje nú samt svo, þá á Alþingi fulla heimtingu á að fá þær ástæður fram. — Það getur verið, að það sje óheppilegur tími fyrir hæstv. ráðh. (JÞ) að svara þessu strax. Hann þarf kanske að safna að sjer gögnum og upplýsingum. En hann má ekki sleppa við að gera grein fyrir þessu, og því vil jeg skora á hann að skýra frá því við 3. umr. fjárlaganna, hvaða ástæður hann hafi fyrir þeirri fullyrðingu, að ullartollurinn í Bandaríkjunum hafi verið lagður á íslensku ullina af því, að íslenska ríkið tók steinolíuverslunina í sínar hendur.

Jeg álít þetta svo merkilegt atriði, þegar það er borið fram úr ráðherrastóli, að ekki sje hægt að ganga fram hjá því þegjandi. Og þótt áður hafi þessu verið slegið fram, þá er það annað mál, sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sagt um þetta sem þm., því að það mátti bara skoða sem mótspyrnu hans gegn steinolíuversluninni. Og móti henni hefur hann ætíð verið, sem og móti öllum öðrum bjargráðum þjóðarinnar í verslunarmálunum. En jeg álít, að ef hæstv. fjrh. (JÞ) leggur ekki fram fullnægjandi ástæður við 3. umr. fjárlaganna, er hann hefir athugað nánar rök sín eða gögn í þessu máli, þá hafi hann ekki haft neitt fyrir sjer í þessu. Og sje því hjer um blekking að ræða hjá honum. —

Örfá orð til hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hann sagði, að í rökstuddu dagskránni felist alveg hið sama og í þáltill. sjálfri; það sje því jafngott, þó að dagskráin yrði samþ. En þetta er ekki rjett, því að þáltill., sem fyrir liggur, fellur við það, að dagskráin verður samþykt, enda þótt svipuð hugsun felist í henni. Það er alment talið svo, ef dagskrá kemur fram í einhverju máli og nær samþykki, að þá sje það mál þar með fallið. Þess vegna er rjett að samþ. till., en hafna dagskránni.