04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Flm. (Jónas Jónsson):

Um áramótin síðustu kom út bók hjer í bænum, sem vakti allmikla eftirtekt. Þessi bók er eftir gamlan mann, uppgjafaembættismann, sem mun hafa rækt allvel embætti sitt, en er að öðru leyti lítt kunnur utan síns hjeraðs, nema ef vera kynni af pjesa einum, sem hann ljet prenta árið 1916, og var það allskörp ádeila á þáverandi landsstjórn út af því, að hann þóttist hafa verið harðrjetti beittur af henni. — Í þessari bók, sem heitir „Nýi sáttmáli“, eru tvö aðalefni. Í fyrsta lagi er þar rætt um stjórnfarslega stöðu Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum, með þeim hætti, að einn þektasti lögfræðingur hjer á Alþingi, sem þrisvar hefir verið ráðherra, hefir kallað bókina „landráðapjesa“. Aðalefni þessa kafla bókarinnar, sem þetta nafn á við, er það, að höfundurinn ræður okkur til að ganga undir útlent vald og beinlínis ýtir undir eina erlenda þjóð að vinna að því að ná valdi yfir okkur, og mun jeg víkja að því síðar. Hinn hluti bókarinnar er óvenjulega harðorð „krítik“ um Alþingi og landsstjórn síðustu ára, og allmikill kafli er „krítik“ á dómsmálameðferð hjeraðsdómarans í Reykjavík. Auk þessa er í bókinni vikið að einstökum þm., svo sem þm. Dal. (BJ), og er þar um venjulega pólitíska ádeilu að ræða. Bók þessi vakti mjög mikla eftirtekt, og það er líklega eina bókin á síðari dögum, að undanteknum „Brjefum til Láru“, sem hefir verið prentuð upp nærri strax. Það er eftirtektarvert, þar sem hjer er um ádeilurit að ræða, hve mikla athygli bókin vakti, og bendir það á, að íslenska þjóðin muni í verki unna friðnum minna en af er látið. Jeg hefi lýst því að nokkru, hvernig almenningur tók bók þessari, og skal jeg til viðbótar nefna eitt dæmi. Í Morgunblaðinu frá 8. jan. er sagt frá bæjarstjórnarfundi hjer í bænum, og segir þar svo, að bæjarfulltrúarnir muni aldrei hafa verið eins mælskir eins og þegar þeir ræddu um bók þessa. Af frásögninni má ráða, að rætt hafi verið um bókina bæði á fundinum og á undan fundi. Blöðin hafa líka látið til sín taka um bók þessa. Það blað, sem jeg skrifa dálítið í, skifti efni bókarinnar í tvent og fordæmdi algerlega þá hliðina, sem veit að málum vorum út á við, en ljet hinsvegar í ljós, að töluvert af hinni miklu gagnrýni á opinberu lífi heima fyrir mundi því miður hafa við rök að styðjast. Hinsvegar hefir bókinni verið tekið öðruvísi í stjórnarherbúðunum. Þar hefir henni verið tekið furðulega vel, þegar litið er á efnið.

Þannig segir annað aðalblað Íhaldsflokksins, Morgunblaðið:

„. . . . Við því var ekki að búast, að dauðaþögn mundi hvíla yfir ádeiluriti Sigurðar Þórðarsonar, svo mörg voru kýlin sem hann stakk á, og svo margir merkir nútíðarmenn fengu þar sinn skerf óskarðan. Framtíð okkar unga ríkis veltur fyrst og fremst á því, hvort okkur tekst að sýna heiminum, að við sjeum færir um að gæta rjettaröryggis okkar eigin þegna“.

Krítik stjórnarblaðsins sýnist lúta meir að seinni lið málsins, sem sje meðferð dómsmálanna, og sýnist blaðið ganga að meira eða minna leyti inn á hugsunarleið höf.

Kaflinn um að afhenda landið erlendri þjóð var lofaður á þann hátt í blaði stjórnarinnar, að höf. var hælt beinlínis fyrir sterka ættjarðarást. En þó mun á síðari tímum fátt hafa verið sagt á prenti, sem brýtur jafngreinilega í bág við það, sem nefnt er föðurlandsást. Og það veit jeg, að í öllum nálægum löndum mundi vera hegnt harðlega fyrir slíkt. En það er ekki hægt að sjá, að þetta skraf blaðsins hafi vakið verulega óánægju í flokknum. Rjett er þó að geta þess, að einstöku maður, eins og t. d. hv. þm. Dal. (BJ), mun, þó veikur væri, hafa sagt blaðinu upp með eigin hendi, svo hefir honum ofboðið. Og það er sagt, að hæstv. forsrh. (JM) hafi gert eitthvað í þá átt að sýna vanþóknun, og er það ekki ólíklegt, að hann hafi fundið sig knúðan til þess stöðu sinnar vegna.

Eitt er einkennilegt við þessa bók Sigurðar Þórðarsonar, að þó þar sje tekin einstök atriði í stjórnarfari landsins og gagnrýnt, þá eru feld undan ýms alvarlegustu mál. Jeg geri ráð fyrir því, að þeir, sem vilja fordæma stjórnarráðskvistinn, sjeu ekki heldur neitt hrifnir af Krossanesi eða mótekjunni í Reykjavík. En það er eftirtektarvert, að höf. sveigir ekkert að hæstv. atvrh. og hæstv. fjrh. Og af ýmsum atriðum í bókinni virðist mega ráða það, að höf. hafi mikla trú á þessum mönnum og forgöngu þeirra fyrir flokknum. En aftur á móti minni mætur á hæstv. forsrh. og ýmsum þeim mönnum, sem staðið hafa nærri honum alllengi.

Þegar annað stjórnarblaðið var búið að hæla höf. fyrir ættjarðarást hans, sem fram kæmi í bókinni, skrifaði jeg dálitla krítík um þetta atriði i blað hjer í bænum. Jeg býst við því, að allir góðir Íslendingar finni, að það á ekki að þolast, að verið sje að ýta undir erlenda þjóð um afskifti hjer á landi, og krítik mín var eingöngu miðuð við þetta. En út af þessu skrifar svo höf. Nýja sáttmála grein í stjórnarblaðið, sem stingur mjög í stúf við fyrri skrif hans. Bók hans er skrifuð af mikilli natni og gerðar alvarlegar tilraunir til þess að rökstyðja, þó skiftar kunni að vera skoðanirnar um það, hvernig það hafi tekist. En þegar honum er bent á þetta mikla brot gagnvart þjóðinni, þá kemur sú truflun yfir geðsmuni hans, sem verður þess valdandi, að hann skrifar út af landráðunum með tómum gífuryrðum og fúkyrðum, nálega sem brjálaður maður væri. Jeg veit ekki, hvort þessi truflun er varanleg, en jeg hygg, að dómur Alþingis um þetta mál fari að miklu leyti eftir því, hvort truflun höf. er varanleg, svo að óviðurkvæmilegt þyki að láta hann bera ábyrgð orða sinna. En af „Nýja sáttmála“ má sjá, að höf. var þá sæmilega rólegur. Þar er að vísu ýmsu haldið fram, sem er rangt. En það er ekki um sýnilegan veikleika að ræða. Bókin er mjög lítið frábrugðin pjesanum frá 1916 um tvo eða þrjá ráðherra, sem skifti höfðu haft af dómsmáli nokkru, er hann var við riðinn.

Þegar hv. 1. landsk. (SE) hafði svarað allítarlega þeim kafla bókarinnar, sem snertir mál vor út á við, og sýnt hve alt var þar í alla staði fordæmanlegt, þá kom höf. ekki með neinar varnir. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) svaraði ofurlitlu gagnrýning þeirri á embættisrekstri hans sem bæjarfógeta í Rvík, sem í pjesanum stendur, og af svari höf. má ráða, að hann álítur, að bæjarfógeti hafi verið að ógna sjer með sakamálshöfðun. Jeg bið menn að athuga það, að þó einstöku maður hafi látið í veðri vaka, að óþarfi væri að hreyfa þessu hjer á þingi, þá hafa tveir þektir lögfræðingar, sem báðir eiga sæti í þessari hv. deild, látið í ljós, annar, að hjer sje um landráð að ræða, en hinn, að það sje í raun og veru skylda stjórnarinnar að höfða sakamál. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) bætir því við, að ástæðan til þess, að hann krefjist þess ekki af stjórninni, að hún láti höfða mál, sje sú, að maðurinn sje gamall og muni ekki þola þá hrakninga, er af því leiði. Og þó sú ástæða geti undir vissum kringumstæðum verið góð og gild, þá þarf þingið samt ekki að sætta sig við hana. Ef staðhæfing hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) er rjett, þá á þjóðin heimting á því, að gengið verði úr skugga um það, hvort dómsmálameðferðin hjer í Rvík er svo spilt eins og höf. lýsir henni. Blöð stjórnarinnar hafa krafist þess, að jeg færi í mál við höf. út af hinum fráleitu og órökstuddu gífuryrðum um mig, eftir það að jeg hafði bent á hættulegasta kafla bókarinnar. En árásin á stjórnina og Alþingi er gerð af ráðnum hug og að athuguðu máli. Jeg fæ því ekki skilið, hvers vegna blöð stjórnarinnar óskuðu, að jeg höfðaði mál út af rakalausum fúkyrðum, sem engin tilraun er gerð til að rökstyðja. Það kemur úr hörðustu átt, þar sem jafnframt er ekki ætlast til, að neitt sje gert að undirlagi stjórnarinnar til þess að hefja málaferli út af því, sem veruleg ástæða er til að hreyfa, sem er hin rökstudda árás höf. á Alþingi og bæjarfógetann í Rvík. Ummæli hans um hið íslenska ríki út á við eru alveg sjerstaklega athugaverð. En sú krítik á Alþingi, sem þar kemur fram, er þó einkum þess eðlis, að annaðhvort verður þingið að taka við öllu, sem að því er rjett, eða það verður að athuga alvarlega, hvernig það fái varið sóma sinn. Því ummælin eru þess eðlis, að slíks munu engin dæmi hjer á landi. Jeg get því sagt það, að það sje stjórnarblöðunum að þakka, að þessu máli er hreyft hjer.

Jeg gerði fyrst ráð fyrir því, að hægt mundi vera að útkljá það í þessari hv. deild. En jeg hefi orðið þess var frá nokkrum hv. þm. í Nd., að þeir telja þetta sameiginlegt mál alls þingsins, og þess vegna hefi jeg flutt brtt. um, að það verði útkljáð af öllu Alþingi. Sakarefni eru nóg, og ef Alþingi óskar, að forsetar fari í mál fyrir þess hönd, þá er enginn vafi á því, að höf. verður dæmdur fyrir ummæli sín. Og jeg geri fastlega ráð fyrir því, að ef hæstv. forsrh. (JM) og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) taka sín mál fyrir, þá muni fara á sömu leið, nema ef málstaður þeirra er svo miklu lakari en málstaður Alþingis. Í sjálfu sjer getur höf. ekkert við því sagt, þó mál sje höfðað gegn honum, því hann hefir sjálfur 1916 heimtað málshöfðun út af mjög meinlausu símskeyti, er sent var af Akranesi til stjórnarráðsins 1914, þar sem með hóglátum orðum var lítillega vikið að embættisfærslu hans. Jeg nefni þetta til þess að sýna það, að höf. „Nýja sáttmála“ hefir verið nokkuð fús til vígaferlanna, þegar hann ætlaðist til þess, að höfðað yrði mál út af slíku smáræði. Það getur borið vott um persónulega sáttfýsi hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), er hann vill sýna miskunnsemi gömlum manni. En slíkt nær ekki til þingsins, ef sómi þess er í veði.

Þar sem till. mín er í þremur liðum, þá má gera ráð fyrir því, þegar málið hefir verið rakið hjer í deildinni, einkum eftir að hæstv. forsrh. (JM) og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hafa sagt frá aðstöðu þeirra, að þá muni ef til vill þurfa að breyta orðalagi till. eitthvað, og mun jeg teygja mig langt til samkomulags um alt, sem snertir formsatriði málsins.

En áður en jeg byrja að rekja árásirnar á Alþingi, hæstv. forsrh. og hv. þm. Seyðf. vil jeg minna á það, að í slíkum efnum sem þessum eru í raun og veru tveir dómstólar. Annar er almannadómstóllinn eða almenningsálitið, en hitt eru þeir júridisku dómstólar. Í raun og veru er almenningsálitið miklu meira notað og miklu sterkara en hinir dómstólamir, og fyrir dómstóli þess er úr miklu fleiri málum skorið. Af praktiskum ástæðum hefir sú venja skapast, að fyrir almannadómstóli eru sótt öll þau mál, sem hægt er að útkljá þar. En það geta auðvitað verið til þau mál fyrir utan bein fjármál, sem ekki er hægt að beita almannadómstólnum og vísa verður til júridiskra dómstóla. Þetta verða menn að gera sjer ljóst, því það gæti hugsast, að hv. deild kæmist að þeirri niðurstöðu, að eitthvað af þessu máli heyri undir almannadómstól, en ekki undir júridiskan dómstól. Til þess að gera mönnum ljósan þennan mun, skal jeg taka það fram, að flestir stjórnmálamenn og flestir blaðamenn nota eingöngu almannadómstól til þess að útkljá mál sín, og það er ákaflega sjaldgæft, að slíkir menn leiti lagarjettarins. Það var meir gert fyrrum hjer á landi, en er nú að mestu lagt niður, sem stafar af því, að það er álitið, að almenningsálitið sje í raun og veru hæstirjettur í þeim efnum. Jeg get sagt fyrir mig, að það væri auðvelt fyrir mig að stefna ritstjórum stjórnarblaðanna fyrir meiðandi ummæli, einni stefnu fyrir hvern af 365 dögum ársins, og vera viss um að fá þá dæmda í þeim öllum. En þó jeg gæti fundið efni í 20–30 meiðyrðamál í einu blaði, þá eru þau þess eðlis, að jeg sem stjórnmálamaður mundi telja mig litlu bættari, þótt jeg fengi dæmdar sektir og ómerking ummælanna. Jeg get skýrt þetta nokkuð með dæmum úr minni eigin reynslu. Á landsmálafundum þeim, sem jeg hjelt síðastliðið sumar, kom það fyrir á nokkrum stöðum, að einstakir menn gripu fram í fyrir mjer með orðbragði, sem var endurtekning á blaðadylgjum úr málgögnum stjórnarinnar. Jeg gerði mjer hægt um vik og óskaði, að þessir menn kæmu í ræðustólinn á eftir og rökstyddu stóryrði sín, en þeir gengu allir þegjandi út. Þeir höfðu lesið órökstuddar árásir í blöðum andstæðinganna og hlupu með þær, en lögðu niður skottið, þegar þeir áttu að standa við orð sín, af því þeir höfðu hlaupið með staðlausa stafi. Og allir fundarmenn fundu, að þessar árásir fjellu máttlausar niður. Annað dæmi er síldarmálið svonefnda. Fyrir nokkrum árum keyptu þrír þingmenn síld, er þeir seldu síðan kjósendum sínum, en nokkuð dýrt. Að þessu var fundið í blaði einu, og a. m. k. einn þessara manna fór í mál við blaðið og fjekk það dæmt í sektir. En almannadómstóllinn leit þannig á, að hver svo sem yrði niðurstaðan fyrir dómstóli hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), þá væri það ekki heppilegt nje viðeigandi, að þingmenn notuðu stöðu sína á þann hátt, sem hjer var gert. Og niðurstaðan varð svo sú, að einn þessara manna, vinsæll maður og mjög vel hæfur að ýmsu leyti, fjell við kosningar fyrir ritstjóra þess blaðs, sem verið hafði dæmdur fyrir meiðyrði út af síldarkrítikinni. Annar þótti eftir þetta ekki hæfur á landskjörslista flokksins, en sá þriðji berst í bökkum að halda kjörfylgi sínu. Þetta sýnir, hvernig nú er litið á slík mál. Í síldarmálinu var nokkuð auðvelt að gera sjer grein fyrir því rjetta, eftir þeim gögnum, sem lágu fyrir hinum júridiska dómstóli. Almenningur var fullfær um að dæma um, hvað rjett var í því. Sá dómur, sem hv. þm. Seyðf. feldi, heldur áfram að standa í dómasafninu. En dómur almenningsálitsins gekk í aðra átt, og það er hann, sem gildir í hugum manna, þótt hvergi sje hann skrifaður. Nú er spurningin þessi: Fyrir hvorn þennan dómstól á að stefna þessu máli? Á því hygg jeg að byggist atkvgr. hjer.

En þar sem stjórnarblöðunum finst ástæða til, að jeg fari í mál við manninn, er ekki nema eðlilegt, að það komi fram fyrst, hvort stjórnarflokkurinn vill sætta sig við að nota í þessu tilefni hinn dómstólinn, almenningsálitið. Hvað snertir síðari lið till., mál núv. forsrh. og hjeraðsdómarans í Reykjavík, held jeg, að erfitt verði að stefna þeim fyrir hinn almenna dómstól. Enda hefir hjeraðsdómarinn gefið það í skyn í Morgunblaðinu, þar sem hann segist kenna í brjósti um manninn sakir aldurs hans, og muni því hlífa honum, en dylgjar þó um sakamálsrannsókn. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka það fram, að ef árásir þessar hefðu verið gerðar á þá sem prívatmenn, þá hefði ekki komið til mála að hreyfa þessu í þinginu. En hjer er ráðist á þá sem starfsmenn þjóðarinnar, og horfir málið því öðruvísi við.

Ef Alþingi fellir þessa tillögu, getur það ekki verið nema af þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi af þeirri ástæðu, sem þm. Seyðf. tók fram í Morgunblaðinu, að það kendi í brjósti um manninn og sýndi honum því miskunn.

Í öðru lagi af því, að það teldi manninn svo lítilsverðan, að ekki tæki að gera veður út af þessu.

Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að jeg hafði hugsað mjer að hreyfa hjer líka þeirri hlið bókarinnar, sem veit út á við, en jeg sá ekki ástæðu til að gera það, fyr en jeg var búinn að ganga úr skugga um, hvort Alþingi vildi taka mark á orðum hans.

Þriðja ástæðan til að fella tillöguna getur þá ekki verið önnur en sú, að sakir höfundarins á hendur Alþingi og þessum mönnum væru sannar og þingið kæmist að þeirri niðurstöðu, að best væri að gefa ekki höf. tækifæri til að sanna sakarefni sín fyrir dómi.

Annars býst jeg við, að höfundurinn hafi ritað bók þessa í þeirri trú, að ádeilur hans væru sannar og rjettmætar. En út í það ætla jeg ekki að fara. Skal aðeins taka fram viðvíkjandi dómunum um Alþingi, að mjer virðast þeir ósannir og ekki á rökum bygðir.

Þá kem jeg að fyrsta lið þessa máls, ummælum Sigurðar Þórðarsonar um Alþingi. Jeg hefi tekið þau í þeirri röð, sem þau standa í bókinni, og vil biðja hæstv. forseta leyfis um að mega lesa upp allmargar tilvitnanir.

Á bls. 4 segir hann, að það minsta, sem verði heimtað af stjórnendum landsins, sje, að þeir segi satt, og jafnframt segir hann, að Alþingi hafi valið „gyllingaraðferðina“. Á sömu blaðsíðu stendur þessi klausa um þingið: „Það auglýsir, að fengnu samkomulagi við Dani, að landið sje óháð og fullvalda ríki“. Og niðurstaðan verður sú hjá höf., að það sjeu ekki aðeins „meinlausar ýkjur, heldur skaðleg ósannindi“. Hjer kemur því fram sú kenning, að ef Íslendingar segi, að þeir sjeu fullvalda ríki, þá sje það ekki satt, heldur hættuleg ósannindi. Hann áfellir því þingið út af sjálfstæðismálinu fyrir ósannindi og blekkingar.

Litlu síðar vill hann láta skrifa um meðferð fjárlaganna á Alþingi í útlend blöð, „því að það væri sama og að setja Alþingi og landsstjórnir þess í gapastokk“. Í þessu liggur, að meðferð Alþingis á fjármálum sje glæpsamleg, og þeir, sem að þeim vinna, eru þá hálfgerðir glæpamenn.

Á bls. 9 kemur svo, að ráðherrarnir viti sig óhulta um skammarstrik sín, því að þeir vita „með óbifanlegri vissu, að þeir eiga jafnan þingið í heild sinni að bakhjalli. Þó að afbrotið sje augljóst og þó að hlutaðeigandi stjórnarherra beiti hjegóma einum og heimsku til varnar sjer, þá fer þingið ekki að gera honum neitt fyrir það. Verði hann að sleppa stjórnartaumunum, þá er ekki afglöpunum um að kenna, heldur því, að öll stjórnarskifti eru komin undir verslun þingmanna að tjaldabaki. Við næstu stjórnarskifti eru afglöpin því ekki til fyrirstöðu, að afglapasmiðurinn komist að aftur, ef verslunarhorfurnar hafa þá tekið einhverri breytingu“. Og svo heldur hann áfram um þingið og segir, að það þegi í heild sinni. Um það farast honum þannig orð: „Og það er að vonum, því að hjá Alþingi hefir spillingin upptök sín, og þar þróast hún og magnast ár frá ári. En þaðan læsir hún sig einnig út í ystu æsar þessa litla þjóðlíkama“.

Þetta eru stór orð. Ráðherrarnir vita sig óhulta fyrir hverskonar skammastrikum, sem þeir gera. Alt er komið undir verslun þingmanna að tjaldabaki. Og með verslun í þessu sambandi getur ekki verið átt við annað en mútur, þó að það sje ekki beint sagt. Hjer er því um þungar ásakanir að ræða.

Ráðherrarnir eru afbrotamenn; en hversu vondir sem þeir eru, þá er Alþingi þó verra, því að þar hefir spillingin upptök sín, og þaðan læsir hún sig út í ystu æsar þjóðarlíkamans.

Á bls. 10 segir hann, að þingmálafundimir eigi „að krefja ábyrgðarlaust og spilt fulltrúaþing reikningsskapar fyrir gerðir sínar“. Þetta er miklu drengilegra en láta skrifa um þingið í erlendum blöðum.

En svo batnar ekki, þegar kemur að þingflokkunum sjálfum. Hann kallar þá „þingflokkanefnurnar“ og kemst svo að orði um þá, að þeir sjeu „samtaka um að þegja hver yfir annars misgerðum, því að það er það kaups kaups, sem þær byggja á tilveru sína“.

Hjer er þá búið að taka ráðherrana, —- þingið og þingflokkana, og alstaðar finnur höf. spillingu á háu stigi. En þá er eftir kýlið sjálft, þingræðið, „sem ætlar að reynast Íslendingum meira skaðræði en eldur og ís“. Eða með örfáum orðum, sjálfsforræðið á að vera okkur hættulegra en hinar hættulegustu og verstu plágur náttúrunnar, sem yfir okkar land hafa gengið. Á bls. 11 segir hann, að þingræðið hjer geti á skömmum tíma kaffært þjóðina svo, að hún eigi sjer ekki uppreisnar von. Og ennfremur segir hann á sömu bls., að dómur allra um stjórnarfarið sje sá, að það leiði „hraðfara til efnalegs og stjórnarlegs sjálfstæðistjóns og siðferðilegs niðurdreps“.

Á bls. 12 segir hann: „En um Alþingi er nú fullreynt, að hversu vel sem þingkosning þykir hafa tekist, hverfa þó nýir þingmenn án undantekningar inn undir þau álög sjerplægninnar, sem þingið er“.

Eftir þessu batnar ekki, þó að kosið sje og nýir menn bætist við. Þingið er svo rotin stofnun, að hver einasti nýr maður, sem kemur inn á það, lendir í sömu botnlausu spillingunni.

Á bls. 13 vill hann enn láta skrifa skammir um þingið í útlend blöð. Þar kemst hann svo að orði: „Það verður að gefa hinum mentaða heimi hlífðarlaust sanna lýsingu á stjórnarástandinu hjer“.

Jeg sje ekki, að hjer geti verið átt við annað en siga á okkur útlendu valdi, því að á bls. 14 segir hann: „þá er nú orðið eina ráðið að fara með það til annara þjóða og fá það gert að umræðuefni þar“. En honum finst, að Íslendingar ytra geti gert þetta, en þó muni þeir kinoka sjer við „að minnast á sálarmorðið, sem hjer er verið að fremja ár eftir ár“.

Á bls. 21–22 segir hann, að fegurstu sveitir landsins verði dvalarstaður hálfútlendra auðkýfinga, sem skemti sjer við: „að stafa sig fram úr . . . alþingistíðindunum, klappandi því riti, um leið og þeir legðu það frá sjer, með þakklátum hug til þeirra manna, sem með skammsýni sinni og eigingirni hefðu hjálpað til að búa svo í haginn fyrir þá“.

Alþingistíðindin eiga þá að vera aðeins þess verð, að þessi hálfútlendi óþjóðalýður geri gys að minningu þingsins með því að vera að klappa bókinni.

Á bls. 22 er hann auðsjáanlega að tala um þingið, þar sem hann segir: „Í slíku ræningjabæli, sem Ísland er nú orðið, þar sem öll kepnin virðist miða að því að vera sem dýrseldastur og landsmálaáhuginn lýsir sjer í því einu að vilja bera sem mest úr býtum af hvalfjöru þeirri, sem nefnist landssjóður“.

Hjer getur enginn vafi leikið á, að þetta er um þingið, og að ræningjarnir sjeu þingmennirnir.

Á sömu bls. stendur: „Ásareið illra og óhreinna hvata, sem nú fer yfir landið með stjórnendur og þjóðfulltrúa í fararbroddi“. Hjer er höf. dálítið skáldlegur. Hann sjer í anda Ásuna ríða um himinhvelfingarnar. En hjer eru það ráðherrarnir, sem eru riddararnir í broddi fylkingar, með alt þingið á eftir.

Þá segir hann um þingspillinguna, að önnur náttúra nútíðarþingmanna sje freistingin til að nota þingmenskuna í hagnaðarskyni fyrir sig.

Á bls. 26 segir hann um þingmennina: „líklega seinir til að lögleiða takmarkanir á því „frelsi“, sem þeir, óhindraðir og ábyrgðarlausir, hafa til að láta greipar sópa um þann sjóð, sem þeim er trúað fyrir“.

Hjer er hann beinlínis að tala um, að þm. steli úr sjálfs sín hendi af sjóði þeim, sem þeim er trúað fyrir, og að þeir muni ekki takmarka frelsi það, sem þeir hafi til að stela.

Á bls. 28 talar hann um vald þingsins og telur það vera það vopn, sem Íslendingar skaði sig á til óbóta. Og á bls. 29–30 segir hann um þingið: „því hneykslanlegra athæfi, sem hjer er framið ár eftir ár, að 42 menn . . . skuli mánuð eftir mánuð hanga yfir tjaldabaksreipdrætti um það, hvort sá maður eigi að heita Jón eða Sigurður, sem á að hafa forustuna á því ferðalagi niður á við, sem hvert einasta Alþingi hefir verið á nú í mörg ár, í öllu tilliti“.

Það er enginn efi á, að hjer er átt við tímabilið, sem hæstv. núverandi forsrh. (JM) og hv. 1. landsk. (SE) hafa stjórnað þjóðarskútunni. Hann telur þm. vera að bræða það með sjer, hvorn þessara tveggja þeir eigi að láta stýra skútunni á ferðinni niður á við til almennrar eyðileggingar. Þessi glötun er svo ekki aðeins í einu tilliti, heldur öllu, því að á bls. 31 segir hann, að þingræðið sje orðið þinginu sú hneykslunarhella, sem það geti ekki undir risið. Um það farast honum þannig orð: „Fjárráðin hafa orðið þingfulltrúum nútíðarinnar sú hneykslunarhella, sem hefir komið þeim til að halda þvert úr leið“.

Um hrossakaupin á þingi segir hann, að einhverjar prósentur af þeirri verslun væri alt það kaup, sem þingmenn tækju fyrir þingsetu sína. Honum finst sómasamlegt þó, að kaupið sje ekki nema dálítill hundraðshluti af versluninni. Hann hugsar sjer því þingmenn hjer eins og hótelþjóna, sem fá ekkert kaup, aðeins drykkjupeninga. Arðurinn af hrossakaupunum á að vera nóg þóknun.

Á bls. 38 talar hann um tilgang þingmanna að ganga í flokka og telur hann vera, að þeir viti, að enginn sje settur hjá í neinu. En hið sameiginlega markmið allra væri sjóður sá, sem hjeti landssjóður. Sama hugsunin kemur og fram í þeim orðum um þingið og landssjóðinn, að þeir legðust „á eitt um að gæða á því sjer og vandamönnum sínum, vinum og kunningjum“. Ennfremur segir hann á bls. 38, að ef einhver heiðarlegur maður komi inn í þingið, þá geri hann sig þó samsekan hinum með því „að láta klæki þeirra óátalda“. Enn þá segir hann á bls. 38: „eru þá nær eingöngu bófar á Alþingi?“ Og niðurstaðan verður sú, að þar er varla nokkur undanskilinn (nema ef vera skyldi sá, sem fór til Krossaness, og sá, sem tók upp móinn fyrir Reykjavík forðum).

Á bls. 41 lýsir hann því, hvernig þingflokkarnir myndist. Um það kemst hann svo að orði: „Kepnin um fjárráðin, löngunin til að bragða á rjettunum, sem farið er með, þó að ekki megi það, síðan að nærast á þeim, þar eftir að fylla sig á þeim, og síðast að fá aldrei nægju sína á þeim, hún er það, sem skapar íslenska þingflokka“. Hjer er mjög átakanlega lýst, hvernig þingmenn eiga að ganga kringum landssjóðinn eins og hungraðir úlfar. Ennfremur segir hann um þingið á bls. 41: „En reynslan hefir sýnt nógsamlega, að þrír ráðherrar duga til þess að tryggja þingmönnum það, sem þeim er fyrir öllu: að hafa matfrið hver fyrir öðrum“. Hjer fá þó ráðherrarnir sinn hlut. Þeir eru taldir yfirhúsbændur í klækjunum. En á bls. 42 telur hann þetta um að kenna „taumleysi því og kæruleysi, sem nú drotnar í þinginu“.

Þá gerir hann, á bls. 43, samanburð á þinginu fyr og nú og kemst svo að orði m. a.: „Síður hefir það líklega komið fyrir framan af, að þingmenn hafi sóst eftir ávinningi beint fyrir sjálfa sig persónulega .... svo tekur það tíma fyrir þingin að spillast svo“.

Á bls. 44 líkir hann þingmönnum við fugla, óseðjandi ránfugla, og kemst svo að orði: „heldur en „fuglum“ (þ. e. ránfuglum) nútímans með græðgi þeirra, sem er óseðjandi“. Og litlu síðar segir hann ennfremur: „fuglarnir“ eru hættir að láta hrekja sig frá ætinu“.

Hjer eru þingmenn orðnir hræfuglar, sem liggja við ætið, þ. e. landssjóðinn.

Á bls. 46 lýsir hann mjög vel, hvernig þm. kaupi hverjir aðra fram til stórræðanna og verði öllum þessum hneykslum valdandi.

Á bls. 48 talar hann um það atvik, sem hann hefir einna mesta ótrú á þinginu fyrir, en það er, að ungur þingmaður, sem dó um þingtímann, var jarðaður á ríkisins kostnað. Um það segir hann: „Hann var jarðaður á kostnað landssjóðs. Næsta sporið á þeirri braut verður, að þingmenn láta heygja eitthvað af landssjóðnum með sjer“. Hjer held jeg, að hámarkinu sje náð. Í viðbót við rán og allskonar baktjaldaverslun enda þingmenn með því að taka landssjóðinn með sjer ofan í jörðina.

Á bls. 60 segir hann, að það megi ekki vera „ráð allra . . . að þegja að eilífu við hverri óhæfu, sem þjóðþingið fremur“. Og ekki megi vera meiningin að draga þingið niður í „hrossakaupafenið“.

Á bls. 61 segir hann, að fje það, sem Alþingi dregur saman með ótakmarkaðri heimild, sje í hers höndum, en ekki trúrra ráðsmanna.

Þetta er í samræmi við það, sem hann er áður búinn að segja, að landssjóðurinn sje í ræningjahöndum, þar sem þingið er.

Þá segir hann á bls. 84 um þingið: „Svo sem kunnugt er, eru stjórnarskifti hjer á landi nú orðið eingöngu komin undir verslun þingmanna að tjaldabaki“.

Út af þessum síðustu orðum fyndist mjer æskilegt, ef hæstv. forsrh. (JM), sem lengst hefir verið forsrh. hjer af núlifandi mönnum, vildi upplýsa þetta, því sje þetta rjett, hefir hann sennilega orðið að láta úti allmikið fje í hvert sinn og hann hefir myndað stjórn.

Á bls. 91 segir hann: „þingið . . . er í reyndinni orðið að vátryggingarstofnun, sem tryggir ráðherrunum vítaleysi fyrir afbrot þeirra“.

Það er enginn vafi á, hvaða skoðun höf. hefir á ráðherrunum.

Jeg hefi þá rakið gagnrýnina í áðurnefndri bók um Alþingi og ætla að bíða með að draga eðlilega ályktun af henni þar til jeg hefi tekið hina liðina. Kem jeg nú að dómsmálastjórninni eða þeim lið, sem horfir að forsrh., og má geta nærri, að sá dómur er harður. Sumt sýnist vera miðað við landsstjórnina alla og ýmsa ráðh., sem verið hafa, en stundum er nafn hæstv. forsrh. (JM) beinlínis nefnt.

Á bls. 7 er sagt: „Þeir vita af fenginni reynslu, að því lengur sem einhver klappar steininn til óþurftar landi og lýð, hafi hann aðeins orðin ríki og föðurland á vörunum á hentugum stað og stundu, því vísari eru honum öll þau trúrra þjóna verðlaun, sem hjer eru fáanleg, landskjör, fálkakross, rífleg afkoma“ o. s. frv. Hjer getur ekki verið átt við neinn nema hæstv. ráðh. (JM). Um þessa menn er sagt, að því lengur, sem þeir klappi steininn til óþurftar, hafi orðin ríki og föðurland á vörunum, því betur vegni þeim fyrir sjálfa sig.

Á næstu bls. er sagt, hvernig hilmað sje yfir hneykslin með þögn: „Þessi friðaði reitur eru afglöpin í stjórnarfari og rjettarfari“.

Á bls. 28 er talað um stjórnarfarið nú á tímum sem „þann óskapnað, sem nú er að kæfa undir sjer alt rjettlæti og velsæmi í landinu“.

Hver er það, sem getur kæft undir sjer alt rjettlæti í landinu? Dómarar landsins og dómsmálaráðherra.

Á bls. 29 er talað um eiginleika ráðherra á þessa leið: „Á því er lítill vafi, að sumar af misfellum þeim í stjórnarfari, sem hjer hafa orðið á seinni árum og eiga rót sína í siðferðisleni hjá stjórnöndunum, algerðum skorti á nokkurri hugsjón . . . og sífeldri viðleitni þeirra á að reka sig ekki á neinn“.

Það eru að vísu ekki nefnd nein nöfn, en þetta er tekið í sambandi við dómsmálameðferðina, svo að það hlýtur að vera átt við dómsmálaráðherra. En á bls. 71 er talað um stjórnarráðskvistinn og skeytum beint allhvast að dómsmálaráðh. Segir þar, að þingið hafi leyft að brúka 28500 kr., en alls hafi farið 90 þús. til verksins. Hafi þá endurskoðunarmenn landsreikninganna rekist í þessu og þótt munurinn mikill. Hafi þá ráðherra, sem er núverandi dómsmálaráðh., svarað því til, að smiðurinn, sem umsjón hafði með verkinu, hafi verið trúnaðarmaður sinn og hafi hann borið ábyrgð á verkinu. Svo hafi iðnaðarmaður í Reykjavík heimtað rannsókn, en ekki stjórnin. Þá er sagt, að settur hafi verið dómari til að rannsaka málið og hafi sú rannsókn staðið yfir árum saman. Svo segir höf. á bls. 73: „Og þegar rannsókninni var um síðir lokið, tók dómsmálaráðherrann sjer það vald að gera út um málið með úrskurði“.

Það er auðsjeð á meðferð málsins í „Nýja sáttmála“, að höf. ætlast til þess, að stjórnin geri skilagrein fyrir þessum peningum. Það vita allir, hve kvisturinn og útihúsið eru lítilfjörlegar byggingar. Og það er hreinasta ráðgáta, hvernig stendur á því, að svona óheppilega er farið með fje landsins. Tugir þúsunda hafa farið í súginn fyrir hreinan klaufaskap. Og það er auðsætt af því, að stjórnin kallar yfirsmiðinn trúnaðarmann sinn. Af „Nýja sáttmála“ sjest, að enga rannsókn hefir átt að gera í málinu. En nú eru sögur komnar út til almennings um þetta, og setur þá stjórnin dómara. Svo líður langur tími, sem hann hefir málið með höndum, og loks er hlutaðeigandi maður látinn borga 4000 kr. eftir úrskurði ráðh. Þetta er svo lítil upphæð, að lítið munar um hana, þar sem byggingin fer meira en 200% fram úr áætlun. Hjer getur ekki verið um annað en ótrúmensku og óráðvendni að ræða, því að þessi endurgreiðsla, 4000 kr., er sönnun þess, að hlutaðeigandi maður hafi farið illa að ráði sínu. Er þá tvent til: Því er þessum manni, sem tekið hefir 4000 kr. í heimildarleysi, ekki hegnt? Því er málið ekki rekið sem dómsmál og dómi svo fullnægt? Bætir höf. svo við á bls. 73, að úrskurðurinn hafi hvergi verið birtur og þingið enga skýrslu fengið. Endar svo höf. þannig, að ekki sjáist, „að á þetta illræmda mál hafi verið minst framar, hvorki af stjórn nje þingi“. í þessum orðum: „þetta illræmda mál“, liggur þung ásökun til stjórnarinnar fyrir þessa óvenjulegu aðferð, sem hún hafi haft, með því að sættast við þennan mann með þessum úrskurði. Það geta eflaust verið einhverjar afsakanir hjá stjórninni, að hún hafi ekki getað varað sig á því að verða blekt af trúnaðarmönnum sínum. En þetta er hyrningarsteinninn í ásökunum höf. Svo bætir hann við: „stjórnin hefir ekki hrundið af sjer ámæli þingsins fyrir að hafa með eftirlitsleysi bakað landinu fjártjón“. Jeg geri ráð fyrir því, að hæstv. dómsmálaráðh. (JM) geti gefið skýringar á þessu, og ef það er rjett, að aldrei hafi verið gefin skýrsla um þetta, þá er það greiði við hann að gefa honum færi á að bæta úr þeirri gleymsku.

Þá kemur kafli í bókinni um það, að dómsmálaráðh. hafi fundið upp nýja reglu viðvíkjandi því að flytja sýslumenn úr einu embœtti í annað. Hann hafi flutt einn ákveðinn mann úr og í embætti, sjer til fjáröflunar, og sá maður, sem kom í hans stað í hitt embættið, hafi ekki verið á hans ábyrgð. Hafi umhyggja fyrir þessum sýslumanni ráðið setningu staðgengils. „En slíkt er vitanleg óhæfa“. Segir höf. svo á bls. 75: „En hjer er embættismanni lofað úr sínu eigin embætti yfir í annað embætti til þess að græða fje fyrir sjálfan sig og þar á ofan brotið á móti öllum reglum“. Ennfremur: „Einkarjettinn að þessari nýbreytni á Jón Magnússon“.

Að dómi höf. er þetta óvenjuleg aðferð. Og ef hæstv. dómsmálaráðh. er hjer hafður fyrir rangri sök, þá gefst honum nú tækifæri til þess að skýra þetta nánar.

Þá kemur höf. að meðferð dómsmálaráðh. á sýslumannsembættinu í Árnessýslu. Á bls. 79 segir hann: „en alls telst til, að 15 eða 16 manns hafi þjónað Ámessýslu hið umrædda tímabil“.

Nú vita allir, að þetta er ákaflega óþægilegt fyrir Árnesinga, og margt hefir ilt stafað af þessu fyrir þá, því að höf. vitnar í það, að á þingi 1919 hafi hæstv. núverandi forsrh. (JM) varið þessar setningar og mannaskifti með því, að hann hyggi embættisþjónustuna hafa verið forsvaranlega „nema ef vera skyldi frá því í september 1918 til 1. jan. 1919“. Hann viðurkennir þó, að hún hafi ekki verið forsvaranleg heilan ársfjórðung. Út af fyrir sig verður maður að játa, að það er mjög óheppilegt fyrir sýslubúa, þegar dómsmálastjórnin skiftir 15–16 sinnum um sýslumenn þennan stutta tíma.

Síðan segir höf. á bls. 81 um mann, sem dómsmálastjórnin hafi gefið frí til að hvíla sig: „embættismaður legði stjórnina svo fyrir fætur sjer. . .

Svo er sagt um stjórnina viðvíkjandi skýrslunni, sem hún gaf um þennan embættismann: „og gefur þar á ofan opinberlega ranga skýrslu um málavöxtu“.

Hjer er sagt um dómsmálaráðh., að undirmaður hans hafi lagt hann fyrir fætur sjer og að stjórnin hafi gefið ranga skýrslu, þ. e. falsaða. Þetta er þungur dómur, ef hann er rjettur.

Síðar, þar sem höf. minnist á Guðjónsmálið, segir hann: „Ef það skyldi t. d. koma fyrir, að sterkur grunur leiki á því, að maður hafi verið myrtur og að rannsóknardómari og dómsmálastjórn hafi ekki gert alt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að koma því upp, heldur látið rannsókn niður falla“. Af pjesanum er auðsjeð, að þetta á við Guðjónsmálið, og er í því fólgin dylgja um, að ekki sje alt gert til þess að láta hið sanna koma í ljós, heldur sje það þagað í hel. Hjer er þá örvum beint að núv. bæjarfógeta í Reykjavík (JóhJóh) og núv. dómsmálaráðh. (JM), þótt engin ákveðin nöfn sjeu nefnd. Á næstu bls. segir svo: „að valdhafarnir skoði hegninguna sem leifar úreltrar mannfjelagsskipunar“.

Og á bls. 99, í sambandi við kvistinn: „hvort sakarefni er látið koma til dóms eða því er stútað uppi í stjórnarráði“.

Sakarefni heyra undir dómsmálaráðherra, og hjer er sagt, að þau sjeu vísvitandi drepin af æðstu dómsmálastjórn landsins, auðvitað til að hlynna að sökudólgunum. Höf. segir, að valdhafarnir skoði refsinguna sem leifar úreltrar mannfjelagsskipunar, og um konu, sem myrt hafi bróður sinn og verið náðuð, segir hann svo á bls. 99–100: „Þegar svo stórum óbótamanni er svo óvenjufljótt slept lausum“.

Síðan kemur niðurlagið á þessum kafla bókarinnar, um Guðjónsmálið, er bæjarfógeti sendir málið til stjórnarinnar. Höf. segir á bls. 119, að „því aðeins hafi bæjarfógetinn lagt upp að bjóða landsstjórninni svo ófullkomna rannsókn í slíku stórmáli og ætlast til, að hún ljeti sjer hana lynda, að hann hafi áður reynt stjórnina að lítilþægni um meðferð opinberra mála“. Þetta er ákveðið sagt um Guðjónsmálið. Hjer er átt við viðskifti bæjarfógeta og dómsmálaráðh. Á öðrum stöðum er talað um þessa rannsókn sem málamyndakák.

Á bls. 131, þar sem höf. minnist á kvistinn, segir hann, að dómsmálaráðh. hafi þá sest sjálfur í dómarasæti. En slíkt er óheimilt, því að dómsmálaráðh. er ekki dómari. En þetta bendir til þess, að ráðh. hafi farið út fyrir valdsvið sitt, því að á sömu bls. er sagt frá því, að um sama leyti og rannsókn fór fram, hafi hann náðað 3 innbrotsþjófa.

Á bls. 133 stendur: „Nú verður hver opinber starfsmaður á fætur öðrum sekur um sjóðþurð, sumir í allstórum stíl, einn að sögn um 70–80 þús. . . . án þess að landsstjórnin snerti hár á höfði hinna seku“.

Ef þetta er rjett, að svona miklar sjóðþurðir verði, og ef það er rjett, sem höf. segir, að stjórnin snerti ekki hár á höfði hinna seku, þá er vissulega eitthvað bogið við rjettarfarið. Í þessu eru fólgnar aðdróttanir um misfellur á hæsta stigi. Og þótt stjórnin geti ekki haft auga með því, að hver einstakur dómari felli ekki niður dómstarf sitt, þá hlýtur hún þó altaf að vita um það, þegar almannafje hverfur svo, að um munar.

Á bls. 133 ráðleggur höf. íhaldsmönnum að losa sig við suma úr flokknum. Hann stendur áreiðanlega nærri honum eða nokkrum hluta hans, sem er með hæstv. fjrh. og atvrh., og gerir ráð fyrir að geta komið einhverju tauti við þá, en það sje þó komið undir því, „að hann (Íhaldsfl.) haldi ekki áfram að sigla með þá menn innanborðs, sem með atferli sínu eru að vinna að því að þurka út muninn á sekum og saklausum í þjóðfjelaginu“.

Það er ekki sagt beinlínis, hverjir það sjeu, en ef rannsakað er niður í kjölinn, þá hlýtur að vera átt við hæstv. forsrh. (JM) og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh). Og þótt fleiri eigi sammerkt í þessu, þá er þetta harður dómur um þá, að þeir sjeu að þurka út muninn á sekum og saklausum. Er þá atferli þeirra í því fólgið að hlífa hinum seku, því að þeir saklausu verða ekki gerðir betri. Getur maður þá sjeð, hversu höf. hefir tekið þetta samviskusamlega, því að þegar hann svarar hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) í Morgunbl. 21. jan., segir hann: „Fanst mjer það stappa nærri fullu æruleysi að vera ár eftir ár sjónarvottur að ýmsri óreiðu og óhæfu og hafa grun um miklu fleira og sitja hjá“.

Þar sem höf. svarar bæjarfógetanum út af Guðjónsmálinu, þá stendur þessi óreiða í sambandi við dómgæsluna og einkum framkomu hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) og hæstv. forsrh. (JM). Síðan segir hann í sambandi við sama málið, að verði það mál ekki tekið upp aftur, þá sje „tilgangslaust að vera að ljósta upp hneykslum í opinberu lífi“. Ennfremur: „Þó að jeg hefði heyrt sitt af hverju um rannsókn opinberra mála hjer, hefði jeg þó að ósjeðu fortekið, að nokkur maður, kunnugur málavöxtum, gæti látið slíkt málamyndakák, sem þessi rannsókn var, verða síðasta orð í málinu“.

Það er þá gefið, af þessari tilvitnun viðvíkjandi Guðjónsmálinu og kvistinum, að þetta eru þær tvær ásakanir, sem höf. leggur mikla vinnu í að rökstyðja. En þá er enginn vafi á, hverjir það eru, sem þessar ásakanir beinast að, því hann segir, að enginn, sem þekki málavexti, hefði átt að láta þetta málamyndakák verða síðasta orð í málinu. Á þetta ekki síður við hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) en æðsta valdsmanninn í landinu, dómsmálaráðherrann.

Jeg hefi þá lokið þeim þætti, sem snýr að því að gefa hv. deild hugmynd um, hvað sagt er um Alþingi og hæstv. forsrh. Er jeg þá kominn að síðasta þættinum, ásökunum þeim, sem beint er að hjeraðsdómaranum í Rvík. Jeg byrja á bls. 20, þar sem talað er um brask stríðsáranna, sem „í sambandi við niðurlægingu þá, sem rjettarástandið er komið í, hefir haft í för með sjer meiri og almennari; sviksemi og kæruleysi í viðskiftum en dæmi voru til áður“.

Hjer er að vísu ekki nefndur ákveðinn maður, en það hlýtur að vera átt við dómarana í landinu — og þá einnig hjeraðsdómarann í Rvík, því það er talað um, að rjettarfarið hafi haft í för með sjer sviksemi og kæruleysi. En á bls. 96 er ótvírætt átt við hjeraðsdómarann í Rvík, enda hefir hann tekið það að sjer, eins og sjá má af Morgunblaðinu. Þar stendur: „Það er faraldurinn í opinberu málunum í Reykjavík. Það þykja verða vanhöld á þeim. Það þykir sem óvættur liggi úti á leið þeirra og grandi þeim“.

Hjer er verið að tala um nútímaástandið í Rvík. Það er talað um faraldur, um óvætt, sem grandi málunum. Hver er þessi óvættur? Það hlýtur að vera meira en lítið bogið við starf dómarans í Rvík, ef hjer er ekki farið með herfileg ósannindi.

Á næstu bls. er farið nánar út í þetta og vikið að starfsmönnum hjeraðsdómarans. Þar stendur: „Um nokkurt árabil hefir rannsókn opinberra mála í Reykjavík verið nær eingöngu í höndunum á ungum kandidötum, fulltrúum bæjarfógetans“.

Og ennfremur: „fyrir kemur það, að bæjarfógetinn tekur sig til og heldur sjálfur rannsókn í málum, og virðist það helst vera bannlagabrot, sem njóta þeirrar sjerlegu hylli hans“.

Það kemur raunar ekki málinu við, en má þó benda á, að höf. talar með fyrirlitningu um, að bannlögunum sje framfylgt, og telur misráðið af bæjarfógetanum að skifta sjer af slíkum brotum.

Höf. tekur svo til orða, að um nokkurt árabil hafi rannsókn opinberra mála verið í höndum ungra manna. Það er ljóst af skjölum Guðjónsmálsins, að það hefir verið í höndum ungs manns, og þó ekki sje það tekið fram í bókinni, held jeg, að sá sami maður hafi þá verið ritstjóri eins stjórnarblaðsins. Þessi sami maður hefir skýrt frá því í blaði, sem hann nú gefur út, að hann hafi boðið vín útlendum manni, sem hann var nýbúinn að dæma, og er slík dómsmálameðferð síðan kölluð „stauparjettur“. Það er ekki sagt frá þessu í bókinni, en mjer finst viðeigandi að bæjarfógetinn noti nú tækifærið um leið og hann skýrir frá sinni skoðun um, hversu þjóðin eigi að líta á þessa árás á hann, og segi frá því um leið, hvers vegna hann hafi ekki farið fram á, að önnur skipun væri gerð á embætti hans, honum fenginn fastur hjálparmaður eða á annan hátt sjeð fyrir því, að hann þyrfti ekki að nota viðvaninga við rannsókn stórmála.

Höf. segir, að það komi fyrir, að bæjarfógetinn taki sig til og haldi rannsókn. Ef þetta er rjett, verður að skilja það svo, að umsvif bæjarfógetans sjeu svo mikil að öðru leyti, að það bara „komi fyrir“, að hann gegni aðalverki síns ákveðna starfs. Hjer eru þrennskonar ásakanir: Að opinber mál hverfi í Rvík, að unglingar, og þeir ekki ætíð sjerlega efnilegir, sjeu látnir fást við rannsókn opinberra mála og að aðaldómarinn dæmi helst um bannlagabrot. Þetta er ekki rökstutt í bókinni með öðru en Guðjónsmálinu, og er það því á ábyrgð höf., hve mikið er rjett í þessu.

Á bls. 107 er eitthvert leiðinlegasta dæmið í bókinni, sem minst er á. Það er um áflog í sprúttknæpu á Laugaveginum, þar sem aðalmaðurinn er fyrverandi sýslumaður úr Árnessýslu. Lögregluþjónn er kallaður til hjálpar, en þessi fyrv. sýslum. ræðst á hann „með ærumeiðandi illyrðum og móðgandi atferli. Kallaði hann þjóf og lygara og kvað sjer auðvelt að koma honum í tugthúsið, vísaði honum á dyr og hrækti framan í hann og áminti hann um að gæta þess að hafa ekkert á brott úr húsum sínum“.

Það getur auðvitað altaf komið fyrir, að lögregluþjónn sje móðgaður af þeim, sem hann á að halda í skefjum. En höf. segir, að ekki hafi verið farið í opinbert mál út af þessu. Tekur þó fram, að maðurinn hafi verið í einkennisbúningi, að hann hafi verið beðinn að koma og verið illa leikinn. Maðurinn varð sjálfur að fara í mál og fjekk sjer dæmdar. 200 kr. Frá leikmannssjónarmiði virðist þetta lítil sekt, þegar tekið er til samanburðar, að blað eitt er af undirdómi dæmt í 1000 króna sekt fyrir að segja, að maður sje óhæfur til að starfa fyrir kaupfjelög, eftir að hann hefir á þrem stöðum fengist við slík störf og alstaðar orðið að hröklast frá þeim. Jeg vildi óska, að hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) skýrði fyrir deildinni, hvort ekki varðar meiri hegningu en þetta að kalla lögregluþjón þjóf, lygara, hrækja á hann og vísa honum á dyr.

Höf. bætir því við, að lögreglustjórinn hafi ráðið lögregluþjóninum til að fara þessa leið. Hann segir á bls. 108: „Lögreglustjórinn veit því allra manna best, hve mörg spor liggja inn til þessara samverkamanna (JM og JóhJóh), og hve mörg þau eru, sem liggja út frá þeim aftur. Og vilji menn komast hjá að áfellast lögreglustjóra fyrir framkomu hans gagnvart lögregluþjóninum, þá er ekki annars kostur en að leggja hana svo út, að sporin hafi hrætt hann og að hann hafi hugsað sem svo, að ef lögregluþjónninn ætti að vera viss um að fá einhverja sæmilega rjettingu sinna mála, þá yrði hann að fara í mál sjálfur, en að borin von væri á því, ef málið væri látið fara sakamálsleiðina“.

Hvað þýðir nú þetta? Það er ekki sagt, að bæjarfógetinn hafi ráðið manninum frá þessu, heldur lögreglustjórinn. En höf. gefur í skyn, að það hafi varla getað verið hans vilji. Hvað liggur í þessu, að sporin hræði? Höf. segir, að lögreglustjórinn viti best, hve mörg spor liggja inn til dómarans og hve mörg út. Hann gefur í skyn, að málin stöðvist. Það er ljóst af sambandinu, hvað átt er við. Sporin hræða því aðeins, að færri liggi út en inn. Það er undirstrikað í bókinni, að ef lögregluþjónninn eigi að vera viss um að fá rjetting mála sinna, þá verði hann að fara í mál sjálfur.

Þá kem jeg að því, sem höf. virðist sjálfur álíta höfuðkjarnann í bók sinni. Það er Guðjónsmálið. Jeg fer ekki út í hinar löngu og ítarlegu lýsingar, heldur segi með sem fæstum orðum frá hvarfi Guðjóns. Guðjón Finnsson var maður um sjötugt. Hann hverfur að kvöldi þess 26. okt. 1923 og finst ekki fyr en löngu síðar, að líkið rekur, skaddað mjög. Hann hafði verið ölvaður og haft á sjer nokkuð af peningum. Höf. leiðir rök að því, að með honum hafi verið tveir menn um kvöldið, Aðalsteinn Jónsson og Tómas Skúlason, og ef til vill þriðji, maður, Guðmundur nokkur. 30. okt. kemur Aðalsteinn fyrir dómarann, fulltrúa bæjarfógetans. Vitnaleiðslan gengur svo, að Aðalsteinn verður margsaga, og stundum þykist hann ekkert muna. Ásökun höf. á dómarann er sú, að hann hafi haft of lint tak á þessum manni; hann hafi vitað meira en hann ljet uppi. Höf. segir á bls. 118–119: Aðalsteinn „getur enga grein gert fyrir þessari breytingu á framburði sínum, aðra en þá, að það hafi verið gert af hugsunarleysi!“ — „Honum var nú slept úr varðhaldi“.

Þetta virðist því skýring, sem dómarinn lætur sjer nægja. Á sömu bls. segir ennfremur: „ Aðalsteinn Jónsson veit meira um afdrif Guðjóns Finnssonar en hann hefir látið uppi“.

Í þessari undirstrikuðu setningu er fólgin ásökun til dómarans fyrir að hafa tekið of linlega á manninum.(JóhJóh: Fyrir að hafa ekki pínt hann til sagna!). Jeg læt bókina tala.

Á sömu bls. stendur enn: „mánuði síðar lætur bæjarfógetinn málið frá sjer fara til stjórnarráðsins með þeim ummælum, að hann álíti tilgangslaust að eiga meira við það“.

Hjer fær höf. ásökunarefni á dómarann fyrir að gefa málið frá sjer. Aftur á móti fær hæstv. dómsmálaráðh. nokkurt verðskuldað hrós, því hann tekur þetta ekki fyrir góða og gilda vöru, en fyrirskipar meiri rannsókn. Í þessu sambandi getur höf. þess, að bæjarfógeti mundi ekki hafa boðið upp á þessa rannsókn, ef hann hefði ekki vitað, að stjórnin væri lítilþæg um rjettarfarið. Nú segir höf. að líði þrír mánuðir, en þá finst líkið. Það mætti kanske segja, að bæjarfógeti hefði verið að bíða eftir því. En auðvitað var það hrein tilviljun, að líkið fanst.

Á bls. 121 segir Tómas, að árangursleysi málsins sje að kenna „hinum venjulega heigulskap dómstólanna“.

Á bls. 123 segir: „Það liggur við, að ástæða sje til að dást að stillingu bæjarfógetans, að hann skyldi standa af sjer þá freistni að taka í taumana . . . og hlaupa undir bagga með fulltrúa sínum með því að yfirheyra Tómas sjálfur“.

Þetta háð um stillingu bæjarfógetans getur ekki skilist öðruvísi en ásökun.

Nú verður Aðalsteinn allmjög margsaga við yfirheyrslumar, og höf. dæmir hart, hvað dómarinn hafi tekið hann vægum tökum.

Á bls. 126–127 segir: „Óskiljanlegt má það virðast, að bæjarfógetinn skyldi ekki taka fram í þetta ósvífnisþvaður“. — En bæjarfógeti ljet það ógert, og þetta síðasta próf yfir Aðalsteini endar svo með því, að hann „sver og sárt við leggur, að hann geti ekki gefið frekari upplýsingar í málinu en hann hefir þegar ,gefið“. Að svo mæltu var honum slept úr varðhaldi í annað sinn.

Eftir gögnum þeim og skýrslum, sem fram eru færð í „Nýja sáttmála“, er auðvitað óhugsandi fyrir mig og aðra leikmenn að dæma um það, sem þessum tveim svokölluðu sjerfræðingum í lögum ber á milli. Annar heldur því fram, að málið hafi verið slælega rannsakað, en hinn heldur því fram, að hann hafi gert skyldu sína. Niðurstaða höf. er á bls. 129: „Á þessu stigi stendur geta þeirra manna .... sem hafa það hlutverk á hendi að komast fyrir sannleikann í opinberum málum. Eitthvað í meira lagi hlýtur að vera bogið við rannsóknarvjel, sem verður að gefast upp við svona lagað verkefni. Bæjarfógetinn sjálfur, maður sem gefur sjer tíma til að sitja þrjá mánuði ársins á Alþingi, til þess að ferðast til útlanda í þarfir dansk-íslenskrar ráðgjafarnefndar .... þykist verða að meta annað meira en rannsókn í máli, sem frá upphafi hefir öll einkenni morðmáls, og felur hana ungum og óreyndum manni, sem engu hefir vanist og ekkert sjeð fyrir sjer“.

Hjer er bætt nýju ásökunarefni á bæjarfógetann, að hann taki að sjer annarleg störf, sem honum ber engin skylda til. Það er skiljanlegt, að á þetta sje minst, þegar verið er að leita að veikum hliðum í embættisfærslu hans, og átalið, að ungir og óreyndir menn skuli vera látnir rannsaka mál og kveða upp dóma. Jeg skal geta þess, að það er talið, að sami maður, sem rannsakaði Guðjónsmálið, hafi kveðið upp sýknudóminn í Kveldúlfsmálinu, sem hæstirjettur ónýtti. Þetta er auðvitað gert á ábyrgð bæjarfógeta, en það getur verið nokkuð erfitt fyrir hann að bera ábyrgð á dómum, sem aðrir dæma, og það e. t. v. í fjarveru hans.

Á bls. 129 talar höf. um rannsóknaraðferðina: „Og hún er eftir öðru. Í stað þess að láta manninn ekki hafa frið í því vígi, sem hann hafði hrúgað upp í kringum sig af augljósum, ósvífnum lygum, sögðum upp í opið geðið á dómaranum og fjölda vitna, af tvísögli, margsögli og fyrirslætti um minnisleysi .... eru haldin yfir honum strjál og stutt próf, og er ekki af því, sem bókað hefir verið, hægt að sjá, að annað hafi þar verið gert en að taka á móti| afneitunum hans á vitnaskýrslunum og upptuggum hans á sömu fjarstæðunum“.

Hjer er ásökununum áreiðanlega beint að dómaranum sjálfum, því hann framkvæmdi síðari rannsóknina sjálfur. Það er sagt, að sakborningur sje látinn hrúga upp lygum og margsögli og ekki gert annað en taka á móti afsökunum hans. Höf. segir, að honum hafi hlotið að finnast rannsóknin gerð til málamynda. En það er mjög alvarlegt, ef sakborningur heldur, að verið sje að leika sjer með málið.

Ennfremur segir höf. á bls. 130 um þá rannsókn, sem bæjarfógetimn gerði sjálfur, að því hafi farið fjarri, „að framhaldsrannsóknin tæki hinni fyrri fram, að bæjarfógetinn bókar mótmælalaust og án nokkurrar athugasemdar tvent í senn: ítrekaðar lygar hins yfirheyrða um, að hann hafi verið svo drukkinn, að hann muni ekkert, og fullyrðingar hans um, að hann muni þó sumt“.

Með þessu þykist höf. sanna, hvað dómarinn hafi haldið lint á málinu, að hann hafi sjálfur í seinni rannsókninni, sem stjórnarráðið fyrirskipaði, bókað eða látið bóka mótmælalaust þessa tvísögu. Þetta verður svo undirbyggingin fyrir þeim lokadómi höf. um dómarann í Reykjavík, sem kemur fram á bls. 131: „Og þetta bókar bæjarfógetinn umyrðalaust, rjett eins og hann væri skrifari sakbornings og annað ekki“.

Ef nokkuð er þung ákæra á nokkurn dómara og verð þess, ef röng er, að henni sje hrundið, þá er það þetta, að dómarinn sje svo lítilsigldur, að hann sje ekki nema skrifari hjá sakbomingi. Mun jeg síðar víkja að því, hvað mikið liggur í þessari ásökun.

Nú segir höf. seinna það, sem mestri furðu gegnir: „samböndum manna sje hjer svo háttað, að rannsókn þessi öll saman fái að vera óafmáður blettur á íslensku rjettarfari“.

Jeg býst við, að bæði dómsmálaráðh. og bæjarfóg. sje hjer gefin sneið sameiginlega. Höf. segir, að samböndum sje svo háttað. Hvaða samböndum? Er það vinátta þessara tveggja manna?

Jeg hefi lokið við síðasta hluta máls þessa. Þá er ekki annað eftir en að draga saman þetta efni í sem stystu máli og sýna fram á, hvað í þessu felst.

Höf. gefur allsherjarlýsingu á Alþingi, ráðherrum og bæjarfógetanum í Rvík, og tilfærir dæmi, sem þungar ákærur felast í. Jeg held, að það geti varla hafa farið hjá því, að áheyrendur hjer í hv. deild — og þeir eru óvanalega margir í dag — hafi orðið fyrir áhrifum, sterkari en þeir bjuggust við, af því, hvað ásakanir þessar eru þungar, því að um sumar af þeim a. m. k. er gerð alvarleg tilraun til rökstuðnings. Nú hefir þessu ekkert verið svarað fyrir Alþingis hönd, og ekki heldur af hæstv. dómsmálaráðh. (JM), en ofurlítið af bæjarfóg. í Rvík. En í þeim viðskiftum kom það í ljós, að hann telur, að legið gæti mjög nærri sakamálsrannsókn fyrir ummæli höf. Svipað hefir hæstv. dómsmálaráðh. (JM) sagt. En bæjarfógeti ljet svo um mælt, að ef hann væri eins skapi farinn og sá, sem skrifaði pjesann, væri enginn vafi á, að hann hefði heimtað sakamálsrannsókn eftir hegningarlögunum.

Jeg hefi áður tekið fram, að jeg leiddi það hjá mjer að þessu sinni, sem frá mínu sjónarmiði er langalvarlegasti parturinn af bókinni, en það eru tilraunirnar, sem gerðar eru þar til þess að koma þjóðinni á þá trú, að við eigum að ofurselja landið annari þjóð, og reynt að koma þeirri trú inn hjá annari þjóð, að hún eigi að sækjast eftir að ná valdi yfir Íslandi. En nú hafa blöð stjórnarinnar, sem standa henni mjög nærri, er óhætt að segja, þar sem meðal annars ritstjóri annars þeirra er stuðningsmaður hæstv. stjórnar á þingi, þau hafa talað um höf. pjesans sem sjerstakan föðurlandsvin og hælt honum í háum tónum. Og þessi blöð segja svo, að nauðsynlegt sje að hefja málaferli við þennan mann. Það er hægt að sjá á Morgunblaðinu, að þjóðin hefir tekið eftir þessum árásum. Nú verður Alþingi, stjórnin og dómarinn í Rvík að fara að afráða, hvað eigi að gera gagnvart þessum kröfum. Get jeg mint á það, sem jeg áður vitnaði til, að bæjarstjórnin í Rvík gat ekki, eftir því sem Morgunblaðið segir, um annað talað á bæjarstjórnarfundi. Margt ber vott um það, að þjóðin hefir fylgst vel með. Og þessu hefir ekki verið svarað einu orði, nema lítilfjörlega af bæjarfógeta. Af tilfærðu dæmi úr stjórnarblaðinu Morgunblaðinu, er hægt að sjá, að því hefir líkað vel við pjesann. Þar er tekin inn athugasemdalaust 21. jan. hörð ádeila, þar sem Sigurður Þórðarson svarar bæjarfógeta. Í dag skrifar gamall bóndi austan yfir heiði grein um járnbraut, þar sem hann heldur fram annari skoðun en blaðið, og blaðið tekur það skýrt fram, að ekki megi taka þetta sem sína skoðun. En þar sem blaðið hefir ekki viðvíkjandi þessari ádeilu á dómsmálaráðh. og bæjarfógeta tekið neitt slíkt fram, þá er í raun og veru ekki hægt annað að sjá en að blaðið hafi mikla samúð með efni pjesans. Annað stjórnarblaðið dáist að því, hve mikil föðurlandsást komi fram hjá þessum manni.

Jeg hefi nú lagt þetta mál fram. Jeg býst við, að engir af þeim, sem hafa hlustað á hjer í dag, hafi gert sjer grein fyrir því, hvað ásakanir höf. eru svartar og þungar, fyr en þeir heyrðu þær samandregnar. Nú kemur að því fyrir þessa hv. deild að afráða, hvernig á að líta á þetta. Er málið þess eðlis, að því verði stefnt fyrir almenningsdómstól, eða sumir þættir þess þess eðlis, að þeir eigi að vera dómstólamál? Jeg efast ekki um, að a. m. k. ásakanirnar á Alþingi yrðu fyrir hvaða dómstóli sem er — líklega jafnvel stauparjetti — dæmdar dauðar og ómerkar. Um ásakanir til hinna aðiljanna, sem nefndir hafa verið, get jeg ekki sagt, því að þar vantar mig gögn til að geta felt endanlegan dóm.

Jeg hefi áður tekið fram, að hver einasti stjórnmálamaður og flestir blaðamenn hjer í Reykjavík nota altaf almenningsdómstólinn til þess að skera úr misklíð sín á milli, og hjer um bil aldrei „juridiskan“ dómstól, nema ef úr einhverju verður ekki skorið öðru vísi. Jeg hefi því í öðru sambandi farið um þá stjórnmálamenn lítilsvirðingarorðum, sem fara í meiðyrðamál út af smáatriðum. Það er ógnarlítill sigur fyrir menn, sem hafa góðan málstað að öðru leyti, þó að þeir fái mann dæmdan í 50–100 kr. sekt fyrir orð, sem eru gleymd um leið og þau eru lesin.

Jeg geri ráð fyrir, að ýmsir álíti, að þessar þungu ásakanir og árásir, sem hjer er um að ræða, sjeu að mjög miklu leyti alveg órjettmætar. Og þá er auðvelt að fá manninn dæmdan til allþungrar hegningar. Er það þá viðunandi að láta sjer nægja hegningu almenningsálitsins og fara ekki lengra? Jeg verð að líta svo á, að eftir þeirri skilagrein, sem jeg hefi gert, þá geti þetta ekki náð til tveggja tilfellanna. Það verður aldrei skýrt fyrir almenningsdómstóli, hvort hæstv. dómsmálaráðh. er saklaus eða sekur í kvistmálinu, eða út af hrakningum lögreglunnar. Hvort hann hafi gert rjett í því að kveða upp þennan úrskurð um 4000 kr., verður í raun og veru aldrei sannað til fulls, nema með „juridiskri“ rannsókn. Jeg býst við, að sama sje um Guðjónsmálið og afskifti bæjarfógeta af því. Mjer virðist það bera vott um mikinn sljóleika að láta óútkljáð þessi deilumál.

Jeg hefi tekið þá leiðina að gera ráð fyrir því, að menn kynnu að taka þetta alvarlega, að staðið hafi fullkomlega heilbrigður maður bak við pjesann. En það getur vel verið, að þingið komist að þeirri niðurstöðu, að eitthvað það sje að þessum manni, að hann verði ekki álitinn fullgildur maður, og þá geri jeg ráð fyrir, að samþ. verði hjer að láta alt þetta niður falla. Það, hvernig málið er tekið, fer alt eftir því, hvernig álit þingið hefir á þessum manni, sem ber kærurnar fram. Jeg er hinsvegar sannfærður um það, að svo framarlega sem á að taka þennan mann alvarlega, þá eru kæruatriði hans ákaflega þung. Og sannleikurinn er sá, að það gæti kanske verið ástæða til þess í eitt skifti á 20 árum, að Alþingi færi í mál. Allir menn og allar stofnanir verða fyrir misjöfnum dómum. Og það vita allir, að engin stofnun hjer á landi verður fyrir eins ómildum dómum og Alþingi. En jeg hygg, að á engum einum stað sje saman komið á prenti jafnmikið af ásökunum í garð starfsmanna í almannaþjónustu eins og jeg hefi nú lesið úr þessari bók viðvíkjandi Alþingi. Ef þingið á nokkurntíma að láta rannsaka árásir á virðing sína, þá er nú rjetta tækifærið. En jeg hefi áður tekið það fram, sem mælir með því, og það, sem mælir móti því, að þessi leið sje farin.

Að síðustu vil jeg benda á það, að jeg er nálega sá eini maður, að frátöldum hv. 1. landsk. (SE), sem hefir opinberlega gagnrýnt eftir verðleikum það, sem jeg hefi álitið hættulegast í bók þessari, og hefi sem afleiðing af því fengið nokkru opnari augu fyrir því, að það væri rjett að meta það, hvað mikið væri á dómum höf. að byggja, og þess vegna hefi jeg komið með þessa tillögu. Ætlast jeg til, að hún geti gengið gegnum báðar deildir. Hún er í þremur liðum. Er hugsanlegt að samþ. einn eða tvo og fella hina, eftir því sem málavextir eru til. Nú geta náttúrlega komið fram, sumpart frá hæstv. dómsmálaráðh. (JM) eða hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) eða öðrum hv. deildarmönnum, nýjar hliðar á málinu, nýjar tillögur um, hvernig eigi að taka á þessu einkennilega vandamáli. Þá hefi jeg hugsað mjer að laga mig eftir því eins og jeg gæti, því að þetta er ekki mitt mál sjerstaklega, nema að því leyti, sem jeg er einn af þeim 42, sem er ámælt fyrir spillingu, heldur mál alls Alþingis og allrar þjóðarinnar. Þess vegna mun jeg taka tíma til þess að athuga það, þegar jeg hefi heyrt ræður annara hv. deildarmanna og álit um það, á hvern hátt sje formlegast og best að taka á þessu máli, til þess að sæmd þings og stjórnar og áliti dómstólanna í landinu sje sem best borgið.