05.05.1926
Efri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (3163)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal stuttlega láta þess getið, að jeg er í mörgum atriðum um þetta, sem kallað er landráðakaflinn í „Nýja sáttmála“, samdóma hv. 1. landsk. (SE). Jeg álít, að það atriði sje vítavert, hvernig höf. „Nýja sáttmála“ skrifar um það mál, en jeg verð að segja það, að jeg tek það ekki alveg eins hátíðlega og hv. 1. landsk. (SE). Jeg býst við, að það sje, þó að það sje í sjálfu sjer vítavert, ekki mjög þýðingarmikið fyrir sjálfstæðismálið, hvað Sigurður Þórðarson segir í pjesa sínum, að þjóðin skoði það heldur ómerkilegt nöldur. En það verður að segjast, að væri þjóðin vel vakandi og gætandi rjetts þjóðarmetnaðar, þá hefðu kenningar S. Þ. um þetta atriði vakið alm. gremju. En þessu atriði var yfirleitt lítill gaumur gefinn. Það voru ádeilurnar á einstaka menn, skammirnar, sem hafa þótt svo ánægjulegar og vakið mesta eftirtekt. Jeg er auðvitað ekki sömu skoðunar eins og ritstjóri „Varðar“ um þessa bók, og þess ber að gæta, að dómur blaðsins um hana er ekki dómur íhaldsflokksins, heldur persónulegt álit ritstjórans, sem hefir ritað nafn sitt undir ritdóminn, til þess að sýna, að við hann einan er um að eiga. Jeg sje ekki neina ástæðu til að fara að „dementera“ það, sem þessi maður hefir sagt, og vitanlega hefði jeg aldrei getað tekið undir dóminn yfirleitt, vegna árásar pjesans á sjálfan mig. Jeg get ekki látið vera að geta þess, að mjer þykir það furðu gegna, að einmitt hv. 3. landsk. (JJ) skuli verða til þess að áfellast S. Þ. fyrir þær kenningar, sem hv. 1. landsk. átelur einkum, vegna þess að jeg hefi orðið þess var, að hv. 3. landsk. hefir nokkuð svipaðar skoðanir um utanríkismál vor og kemur fram í „Nýja sáttmála“. Hv. þm. (JJ) hefir t. d. haldið því fram á fundi, sem við vorum báðir á, að Ísland væri ekki fullvalda, (JJ: En jeg hefi ekki ráðið þjóðinni til að afsala sjer því sjálfstæði, sem hún hefir), og hv. þm. (JJ) hefir haldið því fram, að önnur þjóð hefði ráðin yfir þeim málum, sem af mörgum eru talin mestu mál hverrar þjóðar, sem sje utanríkismálin, og hann er einn af þeim þingmönnum, sem berst harðast á móti því, að við reynum að gera það, sem hægt er að gera, til þess að sýna það, að vjer höfum yfirráð yfir þessum málum, með því að hafa sendiherra annarsstaðar. Þessi hv. þm. má því síst úr flokki tala.

Hv. þm. segir, að jeg sje mjög ljelegur ræðumaður. Það þurfti hv. þm. (JJ) ekki að segja mjer. Mun jeg manna fúsastur til að viðurkenna það, því að jeg hefi alla mína daga átt örðugt með ræðuhöld og jafnan reynt að gera eins lítið að því og jeg hefi komist af með. Það hefir svo að segja verið ættarfylgja í okkar ætt að eiga örðugt um ræðuhöld. En hv. 3. landsk. (JJ) ferst ekki um að tala, því að eins og jeg hefi sagt hv. þm. (JJ) áður, þá held jeg varla, að nokkur þm. flytji eins óáheyrilegar ræður eins og hv. þm. sjálfur. (JJ: Nema þá hæstv. forsrh.). Já, það skyldi þá vera hæstv. forsrh., því að ræður hv. þm. (JJ) eru nefnilega svo að segja aldrei annað en óáheyrilegur og sundurlaus vaðall.

Ræða hv. 3. landsk. (JJ) var í rauninni lítið annað en upplestur á víð og dreif úr „Nýja sáttmála“, og er hann talar um, að ræða mín hafi verið sundurlaus, dæmir hann sjálfan sig, því að jeg svaraði honum nokkum veginn lið fyrir lið.

Þá fór hv. þm. (JJ) með rangt mál. er hann sagði, að jeg væri varnarlaus gagnvart því, sem stendur í „Nýja sáttmála“, sem hann hefir nú lesið hjer upp að mestu leyti. Jeg hefi altaf haft nógar varnir þar fyrir mig að bera, enda þótt jeg hafi ekki hlaupið með þær í blöðin. En að halda því fram, eins og hv. þm. (JJ) gerði, að „Tíminn“ hafi í fyrstu verið að bíða með dóm sinn eftir því, hvað stjórnarblöðin segðu, er blátt áfram hlægileg og óskamfeilin ósannindi.

Þá var hv. þm. (JJ) enn að tala um þjónustu sýslumannsembættisins í Árnessýslu og sagði, að ólöglærður maður hefði gegnt því í 3 mánuði. Hv. þm. veit, hvernig þá stóð á. Þetta var haustið og framan af vetri 1918, er spanska veikin geisaði hjer á landi. Hinn setti sýslumaður í Ámessýslu tók veikina og lá mjög þungt. Þurfti þá að skipa mann í hans stað, en það var ekki úr mörgum að velja þá,

Þá talaði hv. þm. (JJ) um lögregluþjón þann, er hann sagði að illa hefði verið farið með, er hann var í embættiserindum. Þetta mál hefir nú aldrei komið til minna kasta, og jeg vissi satt að segja ekkert um það fyr en jeg sá þess getið í „Nýja sáttmála“. Og jeg veit ekki heldur til þess, að það hafi komið fyrir dómarann í Reykjavík. Því miður er víst þýðingarlaust að reyna að koma hv. flm. í skilning um þetta mál. Hann hælir sér af því, löggjafinn, að vita ekkert í lögum eða lögfræði.

Dylgjur höf. „Nýja sáttmála“ og hv. flm. (JJ) eru á engum rökum bygðar. Lögregluþjónninn fór í einkamál eftir ráðum lögreglustjóra, sem taldi mjög efasamt, að skilyrði fyrir opinberri málssókn væru hjer fyrir hendi, sökum þess að efasamt þótti, að lögregluþjónninn hefði verið í lögmætu embættiserindi við umrætt tækifæri. Slíkar dylgjur eru afar mannskemmandi fyrir þá, sem með fara.

Jeg held, að jeg nenni þá ekki að eltast við fleiri atriði í seinni ræðu hv. þm. (JJ), því að, eins og jeg hefi áður sagt, var hún ekki annað en endurtekning á því, sem hann hafði sagt áður. En þar sem hann var að tala um straumana í skoðunum manna, og sagði mig bera mikið minna skynbragð á það en sjálfan sig, þá skal jeg ekki hæla mjer af þekking minni, en það verð jeg að segja, að af ræðu hans að dæma, þá er hans þekking á þessum hlutum ótrúlega ljeleg. T. d. var hann að tala um Lombroso og kenningar hans og að hann hefði læknað samtíð sína. Þetta er ekkert annað en hreinasta rugl. Rit og

kenningar Lombrosos vöktu eftirtekt um sinn, en nú eru menn að mestu horfnir frá þeim. Aftur eru aðrir, eins og t. d. v. Liszt, sem hafa haft svo feikimikil áhrif á hegningarlög og framkvæmd hegninga í nútíð.

Annars skal jeg geta þess, í þessu sambandi, að jeg vona, að öll okkar hegningarlöggjöf verði tekin til rækilegrar endurskoðunar og henni komið í mannúðlegra horf.

Þá kemur sú spurningin, er mest er verð að dómi hv. þm. (JJ), hvort Alþingi eigi að fara í mál við höfund bókarinnar. Jeg hefi talað við lögfræðing um þetta, mann, sem er alveg óhlutdrægur og talinn meðal allra færustu lögfræðinga landsins, og hann áleit, að Alþingi gæti ekki einu sinni farið í meiðyrðamál út af þessu.

En hvað sem öðru líður, þá er eitt víst, að hv. þm. (JJ) hefir náð þeim tilgangi sínum með þessari þáltill., að tefja tíma þingsins óforsvaranlega og til einskis gagns annars en þess að skemta sjálfum sjer.