05.05.1926
Efri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (3167)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Sigurður Eggerz:

Jeg þakka hæstv. forsrh. (JM) þá yfirlýsingu, sem hann kom með í þá átt, að hann liti eins og jeg á ummæli þau, sem standa í „Nýja sáttmála“ um fullveldi landsins. Hann sagði tvisvar sinnum, að þau væru vítaverð. Fyrir mjer var það aðalatriðið, að kveðinn yrði upp dauðadómur yfir þessum ummælum. Jeg skal ekki fara að endurtaka það, sem jeg sagði í dag, aðeins gera grein fyrir atkvæði mínu. Jeg mun verða á móti þessari dagskrá, sem fram er komin. Jeg sje ekkert samband á milli þess máls, sem hjer er um að ræða, og viðskifta hv. flm. (JJ) við höf. „Nýja sáttmála“, svo að þingið þurfi að taka þau til samanburðar. En jeg mælist til þess við hæstv. forseta, ef dagskráin verður feld, að hann beri þá tillöguna upp í þrennu lagi. Mun jeg þá ekki sjá mjer annað fært en að greiða atkv. með 1. liðnum, vegna hinna þungu ásakana í garð Alþingis.