19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í D-deild Alþingistíðinda. (3178)

101. mál, byggingarstíll prestssetursins á Bergþórshvoli

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál var að vissu leyti til umr. hjer í deildinni í fyrra, þar sem samþ. var till. til þál. þess efnis, að hæstv. stjórn ljeti athuga, hvort ekki væri hægt að byggja upp á fornum sögustöðum, og með því átt við, að byggingamar yrðu þá að einhverju leyti eða öllu gerðar í fornum stíl. Nú hefir komið í ljós, að á tveim þessum fornu sögustöðum, sem nefndir voru í fyrra, sem sje á Hlíðarenda og Bergþórshvoli, eru byggingar mjög slæmar og því sjerstaklega aðkallandi, að bæjarhúsin þar verði reist frá granni. Þetta mál hefir á síðastliðnu sumri verið rannsakað af Þingvallanefndinni, og hefir áliti hennar verið útbýtt meðal hv. þm. Nefndin lítur svo á, að ekki verði hjá því komist að byggja nú þegar á þessu sumri á Bergþórshvoli, því svo slæm sjeu húsin þar, að varla megi búast við, að presturinn geti haldist við í þeim, þegar vetrar. Eigi að vera prestssetur þar áfram, þarf að hraða byggingunni. Og er þá ekki nema um tvent að gera, annaðhvort að prestssetrið yrði bygt sem önnur prestssetur, með styrk af opinbera fje og lánsfje, eða þá að þing og stjórn ljetu málið til sín taka og gerðu sjerstakar ráðstafanir í því efni.

Nú hefir presturinn á Bergþórshvoli gert sjer vonir um, að hæstv. stjórn tæki liðlega í þetta mál. En væri nú að þessu ráði horfið samkv. till. Þingvallanefndar, þá er ekki aðeins um það að ræða að byggja bæjarhúsin upp, heldur telur nefndin fulla þörf á að reisa öll peningshús frá granni, svo öll þessi bygging mundi mun dýrari en tíðkast hefir yfirleitt áður á öðrum prestssetrum. Nú munu gerðar ráðstafanir um að bæta úr byggingarþörf prestsins á Bergþórshvoli með því að byggja þar aðeins íbúðarhús, og þá um venjulegt hús að ræða. En Þingvallanefndin kann því illa, að á þessum fornhelga sögustað verði reist venjulegt kaupstaðarhús, eins og helst lítur út fyrir að verði gert. Enda sagði fornmenjavörður við mig áður en hann fór utan í vetur, að hann legði áherslu á, að ef mögulegt væri án mikils kostnaðar, þá yrði nýi bærinn reistur í þjóðlegri stíl en alment gerist nú um byggingar á öðrum prestssetrum. Hann mun líka hafa í huga að gera allmiklar rannsóknir í sambandi við bygginguna. Er því vitanlegt, að hann verður að hafa þar hönd í bagga og vera með í ráðum, hvar nýja húsið skuli standa. Því vegna rannsóknanna getur vel komið fyrir, að tryggara þyki að flytja bæinn þaðan, sem hann stendur nú. Því verður ekki neitað, að frá sögulegri hlið stendur sjerstaklega á með þennan stað, þegar miðað er við önnur prestssetur.

Eftir að hafa talað við prestinn á Bergþórshvoli og Þingvallanefndina hefi jeg ráðist í að bera fram þessa till. um byggingarstíl, án þess þó að gera frekari grein fyrir kostnaðarauka þeim, sem af því kann að leiða, að breytt verði frá þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið. Það er óhugsandi, að presturinn geti af eigin ramleik lagt fram fje sjerstaklega í þessu efni. Hinsvegar ekki beinlínis ástæða til að setja kostnaðinn svo mjög fyrir sig, enda er breytingin lítil í sjálfu sjer. Eins og húsameistari hugsar sjer þetta nýja hús, þá ætlast hann til, að það verði lægra og mjórra en hin nýju prestssetur, en aðalbreytingin verður þá tveir kvistir móti suðri. Breytingin kostar að líkindum dálítið, en að öðru leyti getur húsið orðið ódýrara, vegna þess að veggir eru lægri, og að sumu leyti þægilegra til íbúðar.

Þessi húsagerð á prestssetrum, sem landið hefir styrkt, hefir stundum verkölluð Skeggjastaðastíll, eftir prestssetri í Norður-Múlasýslu, sem bygt hefir verið samkvæmt till. húsameistara ríkisins, og kirkjustjórnin fallist á, að þessi byggingarstíll væri vel við eigandi. Jeg hefi sjálfur sjeð Skeggjastaðahúsið og þótt það fremur myndarlegt, enda ljet presturinn vel yfir því og var hinn ánægðasti. Þetta er eina steinhúsið í sveitinni, en það er líka til fyrirmyndar.

Þó að þessi till. yrði samþ., er alls ekki víst, að farið yrði eftir henni að öllu leyti, en jeg tel það æskilegt, að þessum sjerfræðingum, húsameistara og fornmenjaverði, sje gefið tækifæri til að leysa þetta byggingarmál á þjóðlegan hátt.