19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í D-deild Alþingistíðinda. (3181)

101. mál, byggingarstíll prestssetursins á Bergþórshvoli

Eggert Pálsson:

Af því að þetta prestssetur er í mínu prófastsdæmi, tel jeg mjer skylt að fara nokkrum orðum um þetta mál.

Það mun víða vera þörf á því að byggja upp eða gera húsabætur á prestssetrum. En hjer stendur alveg sjerstaklega á, eins og jeg hefi getið um í brjefi til fjvn. Nd.

Eins og sakir standa nú með húsakynni á Bergþórshvoli, er alls ekki við þau unandi, því að þau eru í senn bæði lítil, ill og ljót, enda að falli komin.

Aðalatriðið fyrir mjer er því það, að fá bygt upp á Bergþórshvoli, og svo hitt, að það yrði sem hagkvæmast og kostnaðarminst fyrir prestinn. Presturinn er ekki fær um að taka á sig mikinn kostnað við byggingu á prestssetrinu, því að hann er bæði fátækur, ungur maður, sem er nýkominn frá prófborðinu, og sennilega, eins og flestir, með talsverðar skuldir á baki.

Í till. er ekkert getið um þetta, að sjá fyrir kostnaðarhliðinni eða gera prestinum auðveldara fyrir um þetta. Ef svo hefði verið, mundi jeg hafa verið tillögunni fylgjandi, en hún ræðir aðeins um stílinn á byggingunni, en gerir ekkert ráð fyrir, hvernig eigi að gera prestinum mögulegt að standa straum af þessu, og lægi það þó nærri, þegar setja á fastar reglur um fyrirkomulagið.

Það er sem sagt aðeins stíllinn, sem þessi hv. deild á að ákveða, en mjer sýnist ekki, að við höfum góð tök á því, þar sem hjer liggja engin gögn eða teikningar fyrir til að dæma og velja um.

Hjer er aðeins skorað á hæstv. stjórn að láta byggja upp á Bergþórshvoli í sveitabæjastíl, ef sú tilhögun yrði ekki dýrari. Ef nokkur veigur eða alvara ætti að vera í tillögunni, hefði átt að skora á stjórnina að láta byggja hjer upp hús í sveitabæjastíl, jafnvel þótt það yrði eitthvað dýrari bygging en á öðrum prestssetrum. En það hefir hv. flm. (JJ) ekki viljað eða þorað að fara fram á. Og þegar tillögumaður hefir þannig lýst því yfir, að bygging hjer skuli ekki verða dýrari eða kostnaðarsamari en á öðrum prestssetrum, þá finst mjer rjettast að láta hina rjettu aðilja dæma um það, hvaða stíll yrði á byggingunni. Og þar sem jeg sje ekki ástæðu til að taka ráðin af þeim í þessu efni, get jeg ekki greitt atkv. með þessari till.