19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

101. mál, byggingarstíll prestssetursins á Bergþórshvoli

Sigurður Eggerz:

Það, sem jeg hefði óskað að fá ákveðið fram við þessar umræður og jeg hefði viljað heyra frá hæstv. stjórn um, er það, hvort ekki þætti ástæða til að leggja fram meira fje til húsabóta á þessum stað, vegna þess, að þetta er einhver frægasti sögustaður hjer á landi. En jeg skil það, að til þess að veita slíkt fje þyrfti stjórnin sjerstaka heimild. Jeg hefði viljað, að það kæmi fram, hvort þingið vildi ekki meta þennan fræga sögustað svo mikils. Á þennan stað koma margir erlendir menn og munu koma í framtíðinni. (EP: Ef þeir komast yfir Þverá). Já, en það er nú líklegt, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að svo megi verða. Og það mundi verða til hins mesta sóma fyrir þetta land að leggja þá rækt við þennan fræga sögustað, að kosta einhverju til húsabóta á honum. Þetta vildi jeg, að hæstv. stjórn tæki til athugunar, og óska jeg, að hæstv. forsrh. segi álit sitt um það.