28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

108. mál, svifting ofdrykkjumanna lögræði og fjárræði

Forsætisráðherra (JM):

Það er auðvitað útlátalítið fyrir mig að lofa að athuga þetta mál. Hinu get jeg ekki lofað, að bera fram frv. um breytingu, er mjer virðist gersamlega óþörf. Umgetin lög eru samin af einhverjum fremsta lögfræðingi okkar, og þau eru í samræmi við lög nágrannalandanna um þetta efni.

Hvað snertir rjett sveitarstjórna til að fara fram á að svifta menn fjárræði, sem verða að leita sveitarstyrks eða eru í þann veginn að gera það, þá er það efalaust, að þær hafa þann rjett. Það einasta, sem mætti orða, er það, hvort það er af atriði í þessu efni, að orðið „drykkjuskapur“ fjell burt við meðferð málsins á þingi. Það má vel líta svo á að órannsökuðu máli, að það hafi haft þýðingu. En þegar betur er að gætt, er það ekki svo, eftir því sem mjer skilst. Í lögunum stendur: vegna vanheilsu eða vanþroska eða af öðrum ástæðum, svo sem vegna eyðslusemi.