28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (3205)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg veit ekki betur en fyrir liggi frá eldri tíma áskorun til stjórnarinnar um mælingu á Gilsfirði. En þessi mæling er mjög dýr. Jeg hefi oft hugsað um, hvaða ráð ætti að hafa til þess að fá þetta verk unnið, án mjög mikils kostnaðar. Mjer hefir hugkvæmst, að ef til vill gæti strandvarnarskipið nýja sint þessu í frítímum sínum, án verulegs kostnaðar. Jeg hefi skrifað væntanlegum skipstjóra þess skips um þetta efni, en ekki fengið svar enn. Ef svo væri, að hann gæti sett sig inn í þetta starf, meðan hann bíður eftir skipinu, þá væri talsvert unnið. En þó að fá þyrfti útlendan sjerfræðing til að vera á skipinu eitt ár eða svo, væri það kleifur kostnaður, ef við gætum sjálfir lagt til skipið. Það hefir líka komið til orða að nota vitabátinn til þessa starfs, en það strandar á því, að þar er enginn maður, sem kann til starfsins.

Út af því, sem hv. þm. (JJ) nefndi Snæbjörn í Hergilsey, skal jeg minna á, að hann ræður ekki til að láta stór skip koma þarna, vegna þess að sjaldan sje lygnt og búast megi við töfum. Inn á Gilsfjörð eiga skip að geta komið, ef kunnugur maður er með. Það er víða nauðsyn á svona mælingum. Liggja fyrir gamlar áskoranir um það efni. Jeg hefði kunnað betur við, að hv. flm. hefði nefnt fleiri staði. Undan Ströndum, á innanverðum Húnaflóa og víðar eru svæði, sem nauðsynlega þarf að mæla upp.

Jeg vona, að hv. flm. kalli ekki, að þessu máli sje illa tekið, þó jeg segi, að jeg geti ekki ákveðið að svo stöddu, hvenær hægt verður að framkvæma þetta verk. Málinu verður haldið vakandi og byrjað á framkvæmdum svo fljótt sem fært þykir. Það er í mörg horn að líta, og ekki útlit fyrir, að afgreiðsla fjárlaganna verði þannig, að úr miklum afgangi verði að spila.