04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi nú ekki margt að segja um þessa till. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er hún ekki flutt af mjer, heldur einum hv. þm. úr Ed., hinum mesta heiðursmanni. Jeg má því vera honum að nokkru leyti þakklátur fyrir flutninginn. Fyrir nokkrum árum flutti jeg till. um líkt efni, en það var af fjárhagslegum ástæðum, að hún náði ekki fram að ganga. En í fyrra átti jeg tal um þetta við hæstv. atvrh. (MG), og undirtektir hans voru á þann veg, að hann taldi sjer ljúft að gera það, sem hægt væri, svo fljótt sem föng væru á. Hæstv. atvrh. er hjer viðstaddur nú, og vænti jeg þess, að hann segi til, ef jeg fer ekki hjer með rjett mál. Þessi till. er nú fyllri en mín. Hún ætlast til, að mæld sje upp öll leiðin frá Hagabót inn að Gilsfirði. Jeg býst nú við, að hv. tillögumaður viti ekki, að það er búið að mæla upp nokkuð af Gilsfirði, svo það yrði þá núna mælt frá Siglunesi inn með Barðaströndinni.

Þegar skip kemur vestan að, er heppilegra að fara inn með ströndinni heldur en fyrst til Flateyjar, enda nægt dýpi fyrir skip til að sigla þar inn með, ef veður leyfir.

Jeg skal taka það fram, að jeg álít þetta nauðsynjamál, og vænti jeg, að hæstv. atvrh. (MG) ljái því sitt mikilsverða fylgi, og í sambandi við ræðu, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) flutti hjer nýlega í deildinni, viðvíkjandi byggingu fyrirhugaðs strandferðaskips, vil jeg segja, að þetta mál er þess eðlis, að svo fremi sem það er brýn nauðsyn að byggja það skip, þá hlýtur þetta atriði að ganga á undan, því að jeg sem kunnugur maður á þessum slóðum fullyrði, að ekkert skip á stærð við „Esju“ myndi fást til að fara þarna um, nema því aðeins, að uppmæling á siglingaleiðinni hefði verið framkvæmd áður.

Jeg veit það vel, að það mun ekki vera hægt að sigla hverju skipi þarna inn, nema ef vera skyldi inn á Þorskafjörð, því að það mun naumast talin hæf siglingaleið, nema þá undir stjórn vel kunnugs manns, en um þessa leið inn með Barðaströndinni veit jeg, að ekki mun mikill farartálmi hvað dýpi snertir. Jeg skal benda á nauðsynina fyrir þessu, að meðal margs annars er einmitt á yfirstandandi sumri gert ráð fyrir, að fluttir verða símastaurar til hinnar svokölluðu Barðastrandarsímalínu, en einmitt af því, að þessi leið hefir ekki verið mæld upp, hafa ekki náðst samningar um, að skipið fari lengra með staurana en inn að Haga, og býst jeg við, að af því, hvernig á stendur, verði mjög mikill kostnaðarauki að landsetning þeirra í Flatey, sem ekki hefði fyrir komið, ef þessi leið hefði verið mæld.

Það mætti nú ætla, að sýslubúar mínir teldu, að einmitt framkoma þessarar till. mundi gera það að verkum, að uppmælingunni yrði hraðað, en jeg slæ því aftur föstu, að þrátt fyrir tilraun hv. flm. (JJ) til að styðja mig og sýslubúa mína, mundi þessi uppmæling komast jafnfljótt í framkvæmd án þess. En úr því að þessi till. er fram komin, vænti jeg þess, að hún verði látin ganga til síðari umr., en annars skiftir það mig engu máli, hvernig með hana verður farið, því að það, sem jeg læt mig skifta, eru undirtektir hæstv. atvrh. (MG), og jeg býst við, að það verði sömu hagstæðu undirtektirnar sem jeg hefi áður fengið að heyra frá hans hendi.