04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3213)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er alveg rjett, sem hv. þm. Barð. (HK) hefir tekið fram, að hann hefir oft minst á mælingu á þessari siglingaleið, og jeg hefi sagt, að það mundi verða að því undið eins fljótt og ástæður leyfa, og skal jeg geta þess, að skipstjórinn á hinu væntanlega strandvarnarskipi hefir verið beðinn að setja sig inn í mælingar á siglingaleiðum. Jeg hefi ekki heyrt frá honum, hvort hann þykist geta sett sig nægilega inn í það, en jeg býst við, að hann geri hvað hann getur, en þótt við þyrftum að fá sjerfróðan mann til framkvæmdanna, er þó mesti munur, ef við getum sjálfir lagt til skipið, en þar höfum við yfir að ráða strandvarnarskipunum tveimur og vitabátnum. Það eru þau einu skip, sem við höfum yfir að ráða til þess, því að fara að leigja skip, yrði mjög dýrt.

Hvað það snertir, hvernig fara skuli með till., þá finst mjer sjálfsagt, að hún verði samþ., því að mjer finst engin ástæða til að fella hana, og ekki heldur ástæða til að vísa henni til nefndar. Þetta hefir áður verið samþ., eins og hv. þm. Barð. (HK) sagði, svo að þetta er þá aðeins árjetting á því, sem áður hefir verið flutt og samþ.