04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í D-deild Alþingistíðinda. (3219)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Þórarinn Jónsson:

Jeg hafði skrifað hjer upp brtt., vegna þess að jeg hjelt kanske, að það mundi gleymast, sem komið hafði til tals hjer áður, en þó að svo verði ekki, þá gerir ekkert til, þó að þessi brtt. mín komi hjer til umr. síðar.

Það kom til tals á þinginu 1922 að fá uppmælingu fyrir Hornströndum og kringum Þaralátursfjörð, og flutti jeg þá ásamt hæstv. fjrh. (JÞ) till. um að mæla upp siglingaleið meðfram Vatnsnesi vestanverðu og inn til Hvammstanga. Þessi brtt. komst ekki að fyrir það, að þáltill. sjálfri var vísað frá vegna formgalla. Hún var sem sje borin fram í Sþ., en átti að fara gegnum báðar deildir, með því að hún fór fram á útgjöld úr ríkissjóði. Nú vil jeg leyfa mjer, úr því að mál þetta er aftur komið hjer á dagskrá, að fara nokkrum orðum um þörfina á sjómælingu á þessum slóðum. Svo hagar til norður þar, að sjómenn telja þessa leið miklu skemri en hina venjulegu leið, og svo er það líka, að á þessari vestari leið er mjög sjaldan þoka, en getur aftur legið dögum saman á hinni venjulegu siglingaleið. Svo er annað atriði líka, sem þarna kemur til greina. Það hefir nýlega verið löggilt höfn á Hindisvík, en siglingaleiðin þangað hefir ekki verið mæld upp, en það er nauðsynlegt fyrir skip, sem koma þangað, því að þótt skipstjórarnir telji fært, að skipin fari þangað, þá þykir þó ekki rjett að leggja þau í það, og vátryggingarfjelögin neita að vátryggja þau þangað, nema því aðeins, að leiðin sje mæld. Jeg býst við að koma fram með brtt., sem fer í þá átt, að þessi leið verði mæld upp, og þarf jeg þá ekki að tala neitt fyrir henni þegar hún kemur til síðari umr., úr því að jeg hefi gripið tækifærið nú. Það kemur iðuglega fyrir, að skip verða að liggja dögum saman á Húnaflóa vegna þoku, en þessa þoku leggur mest vestan að, og er þá oft skemri leiðin fær, þótt hin leiðin sje ófær vegna þoku. Þannig hefir Goðafoss oft orðið að liggja þar, teptur af þoku, og hefir þá skipstjórinn talið þessa skemri leið færa.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni, en vona, að hæstv. stjórn taki þessa athugasemd mína til greina.