05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í D-deild Alþingistíðinda. (3236)

95. mál, lánveitingar úr Fiskveiðasjóði Íslands

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er eiginlega til þess að gefa hæstv. atvrh. (MG) stuðning, að jeg flyt þessa till. Mjer hefir verið tjáð, og er það rjett, að í ráði sje að lána því nær alla peninga Fiskiveiðasjóðsins til hafnarbóta í Reykjavík og Akureyri. En jeg tel, að verði í þetta ráðist, þá fari það í bága við tilgang sjóðsins, og að ekki megi nota hann til annars en tekið er fram í skipulagsskrá hans og lögum. Jeg veit að vísu, að áður hefir verið lánuð allhá upphæð úr sjóðnum til hafnargerðar í Reykjavík, en jeg álít það hafa farið í bága við tilgang sjóðsins, og að ekki sje rjett eða sæmandi að brúka fje hans á þennan hátt.

Það er tekið fram í skipulagsskrá sjóðsins, að lán skuli veitt úr honum til þess að kaupa skip og veiðarfæri, til þess að efla framfarir á sviði sjávarútvegsins og veita verðlaun fyrir þær, til þess að gera betri aðstöðu þeirra, sem veiðar stunda og verka afla, til þess að styrkja fiskverkunartilraunir, byggja íshús, til þess að gera lendingarbætur fyrir fiskiflotann og svo loks til þess að koma upp „Slipp“ eða viðgerðastöð Til annars á ekki að lána fje úr sjóðnum. Og ef hv. sjútvn. hefir mælt með því að lána starfsfje sjóðsins til þeirra framkvæmda, sem jeg gat um áðan, þá vil jeg leyfa mjer að fullyrða, að það sje þvert á móti tilgangi sjóðsins.

Jeg veit til þess, að hæstv. atvrh. (MG) hefir látið sjer ant um þennan sjóð og að hann hefir ekki viljað veita þessi lán. Var þá farin hin leiðin, að fá samþykki sjútvn. til þess, og það tel jeg alls ekki nægilegt. Jeg tel með þessu vera gengið út fyrir þann ramma, sem settur er. Jeg tel, að til þess, sem hjer er farið fram á, þurfi ákvæði löggjafarvaldsins, nema atvrh. eða sá maður, sem fer með stjórn sjóðsins, taki á sig ábyrgð á því. Það eru að vísu til fordæmi fyrir því, að lánað hafi verið úr sjóðnum í svipuðum tilgangi og hjer er farið fram á, eins og t. d. þegar lánað var til hafnargerðarinnar í Reykjavík. En mjer er kunnugt um, að víða er þörf fyrir að fá lán úr þessum sjóði. Fjölyrði jeg svo ekki meira um þessa till., en vænti þess, að hv. deild samþ. hana.