05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

95. mál, lánveitingar úr Fiskveiðasjóði Íslands

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg skal taka það fram, að með till. minni átti jeg ekki við lánið til Akraness, því það er til lendingarbóta og því í samræmi við skipulagsskrá sjóðsins. Hinu held jeg fram, að það sje ekki samkv. tilgangi sjóðsins að veita lán til hafnarbóta, eins og hjer er farið fram á, til að gera uppskipun greiðari og kostnaðarminni. Það, sem átt er við með lendingarbótum, er það, að gert sje fært að lenda, leggja aflann á land. Hitt er sjálfsagt, að gera uppskipun auðvelda, vegna íbúa bæjarins og til þess að fá meiri tekjur af höfninni. Það hefði kanske verið ástæða til að veita lán meðan verið var að byggja ytri höfnina, því það gat skoðast lendingarbót.

Viðvíkjandi láni til Akureyrar vildi jeg segja það, að jeg er algerlega á móti slíku láni þangað, til að gera smábátahöfn, sem notuð væri fyrir vetrarlægi. Mjer er ekki kunnugt um, að frá Akureyri sjeu stundaðar neinar veiðar að vetrinum. Jeg veit ekki betur en að smábátar sjeu dregnir þar á land og standi á landi mánuðum saman. (Atvrh. MG: Það er sjerstök höfn fyrir smábáta þar). Jeg hefi sjeð báta dregna þar upp, sömuleiðis á Hjalteyri og Svalbarðseyri.

Jeg veit vel, að það er á valdi stjórnarinnar að breyta skipulagsskrá sjóðsins, og jeg kynni þá betur við, að það yrði gert, heldur en að veita lán, sem ekki eru í samræmi við skipulagsskrá þá, sem nú gildir. Jeg felst ekki á, að rjett sje að veita Reykjavíkurhöfn lán fyrir það eitt, að góðir vextir sjeu í boði. Jeg vil, að sjóðurinn sje notaður til að styrkja fiskiveiðarnar, en ekki hugsað mest um að afla honum tekna.

Þó lítið hafi verið um lánbeiðnir síðustu árin, af því að lánskjörunum hefir verið breytt og fasteignir heimtaðar að veði auk skipsins, þá mun ekki lengi standa svo. Mjer er kunnugt um, að koma muni lánbeiðnir úr mínu kjördæmi, bæði til íshúsbyggingar og e. t. v. til kaupa á gufuskipum, sem tveir útgerðarmenn hafa útvegað sjer. Það má vel vera, að lán til Akureyrar borgist á skömmum tíma. En hæstv. atvrh. (MG) upplýsti, að lánið til Reykjavíkurhafnar ætti að standa lengi, og það er meiri hl. af því, sem hjer er um að ræða. Annars býst jeg við, að hv. þdm. sje ljóst, hvað hjer er um að ræða, og fer jeg því ekki frekar út í þetta.