08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get sagt eins og hv. flm. (EÁ), að jeg þarf ekki mikið að segja um þetta mál, enda mun svar mitt vera kunnugt frá tveim undanförnum þingum. Það er satt, að það mun vera nokkuð meiri þörf fyrir Siglfirðinga að losna við vínsöluna en fyrir suma aðra kaupstaðina. Mjer virðist samt ekki unt að sinna þessari beiðni Siglfirðinga, en neita samskonar erindum frá t. a. m. Vestmannaeyingum, enda mun nokkuð líkt með þeim kaupstöðum að þessu leyti.

En það er nú svo, að allir kaupstaðirnir, og Rvík einnig, hafa mótmælt áfengisútsölunni. Allir vilja kaupstaðirnir vera lausir við útsölu vínanna, einnig Rvík. Útsölu Spánarvínanna hefir verið neytt upp á kaupstaðina. Að vísu sáu Vestmanneyingar það vel, að vjer urðum að vinna það til fyrir markaðinn á Spáni að leyfa innflutning vína, og ljetu það álit sitt í ljós hreint og beint í fyrstu, en engu að síður vildu þeir gjarnan nú vera lausir við vínsöluna, ef unt væri. Jeg vildi gjarnan af þjóðhagslegri þörf, að unt væri að taka upp algert áfengisbann aftur, en jeg sje þess engan kost að gera neina verulega breytingu í því efni, eins og nú stendur. Jeg get því ekki tekið þetta erindi til greina nú, fremur en á undanförnum þingum. Hv. þm. (EÁ) veit vel um ástæðurnar fyrir þessu, og get jeg því ekki gefið önnur svör en jeg hefi áður gert.

Jeg vil ekki ámæla fyrverandi stjórn fyrir ákvarðanir hennar í þessu máli. Hún hefir gert það minsta, sem hún áleit fært.

Hv. flm. (EÁ) telur sig eflaust skyldan til að flytja málið fyrir kjósendur, en hann hefir jafnan gert það hóflega. Hann sagði og rjettilega, að tekjuspurningin væri ekkert aðalatriði, enda er ekki um miklar tekjur að ræða fyrir ríkissjóð af vínsölunni á Siglufirði.

Jeg skal svo láta hjer staðar numið og vísa að öðru leyti til fyrri svara minna um þetta mál.