08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í D-deild Alþingistíðinda. (3256)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Ingvar Pálmason:

Viðvíkjandi ræðu hæstv. forsrh. (JM) hefi jeg ekki neitt sjerlegt að athuga Hann svaraði því sama núna eins og hann svaraði þessu máli á síðasta þingi, þ. e. að hann gæti engu á orkað. Þetta er í fullu samræmi við fyrri afstöðu hans til þessa máls, og er í rauninni ekkert við það að athuga. Jeg er þess fullviss, að hæstv. forsrh. er banninu ekki óvinveittur, þrátt fyrir þetta. Jeg sje sömuleiðis litlar ástæður til að deila við hann um afskifti hans af þessu máli. Hann játar það, að hann sje fús til að draga eitthvað úr eða minka söluna á þessum stöðum. Gallinn er bara sá, að jeg veit ekki til, að hann hafi gert eða einu sinni reynt til þess að gera nokkuð í þá átt.

Jeg er sammála hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) í flestum atriðum þessa máls, en þó ekki öllum. Hann sagði, að Siglufjörður hefði sjerstöðu meðal kaupstaðanna á landinu, og er það satt. Það er mjög óeðlilegt að hafa tvo vínsölustaði innan sömu sýslu, og það liggur því beint við, að ef breyta á til í þessu einhversstaðar, þá er það þarna. (Forsrh. JM: Hvað er um Hafnarfjörð?). Þetta er dagsanna. Það ætti að bera niður á öðrum hvorum þessara staða eða báðum. Jeg efast um, að Spánverjar viti af því, að þessir bæir eru til hjer, og því síður þyrftu þeir að vita um það, þó þessi tilbreytni yrði gerð með þá. Nema Spánverjum hafi formlega verið tilkynt, hverjir útsölustaðirnir væru hjer á landi?

Hitt er eðlilegt, þó að fleiri kaupstaðir kæmu á eftir og vildu fá sömu hlunnindi og Siglufjörður, ef hann yrði losaður við vínið, og jeg er ekkert hræddur við afleiðingamar af því. Jeg hefi heyrt þessa grýlu nefnda æði oft, að Spánverjar mundu neyta þess sem átyllu til að segja upp verslunarsamningnum við okkur. Jeg efast um, að þeir yfir höfuð mundu spyrja það, þó útsölustöðum yrði fækkað að mun hjer á landi. Jeg ímynda mjer og, að þó við legðum niður allar vínveitingar, sem að vísu munu ekki vera leyfðar nema hjer í Reykjavík, mundu Spánverjar litla hugmynd hafa um það. Vínveitingarnar hjer í Rvík eru tæplega leyfðar vegna þess, að Spánverjar hafi krafist þess.

Hv. 1. landsk. (SE) byrjaði ræðu sína með því að lýsa því yfir, að hann væri bannmaður, og skal jeg ekki efa, að svo sje, enda hefir hann lýst þessu áður. Hann sagði og frá því, að þegar hann hjer um árið fór utan til þess að binda enda á samningana við Spánverja, hafi það verið hans fasti ásetningur að hafa aðeins einn útsölustað á öllu landinu, þ. e. í Rvík. En þegar hann var búinn að ráðfæra sig ytra við sína menn, bilaði þessi góði ásetningur hans, og þá sveik hann hugsjónir bannsins, sem hann var svo mjög fylgjandi, að sjálfs sín sögn. Hann sagði, að tvær hugsæisstefnur hefðu borist í huga sínum, að vernda bannið og að vernda fjárhagslegt sjálfstæði landsins. Jeg veit, að þetta er satt, að þetta tvent fylgist mjög að. Bannið eflir fjárhagslegt sjálfstæði landsmanna. En jeg veit líka hitt, að í utanferð sinni skifti þessi hv. þm. (SE), sem þá var forsrh., um stefnu í þessu máli. Hann kveðst hafa farið mjög eftir tillögum sendimanna þeirra, sem við sendum suður til Spánar til samningaumleitana. Um þetta skal jeg ekkert segja með vissu, því það verður ekki vitað, hvað þeir hafa ráðlagt honum. En nýlega las hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) upp hjer í deildinni kafla úr yfirlýsingu frá hr. Einari Kvaran, þar sem hann tekur alveg af skarið um það, að Spánverjar hafa aldrei gert kröfur til ákveðinna útsölustaða. Jeg efast ekki um, að hr. E. Kvaran hafi farið rjett með þetta. Þess vegna tel jeg ósannað, að Spánverjar skifti sjer af því, þó breytt verði til um útsölustaðina hjer á landi. Jeg verð því að krefjast frekari sönnunargagna af hv. 1. landsk. (SE) í þessu máli. Geti hann ekki lagt fram sannanir fyrir þessum kröfum Spánverja, getur hann ekki losað sig við þann grun, sem á hann er fallinn, að hann sje farinn að verða linur bannmaður. Hann linaðist talsvert mikið í utanförinni. Hafi Spánverjar gert kröfur í þá átt að hlutast til um, hve margir útsölustaðir vína yrðu ákveðnir, ætti að vera auðvelt að sanna þær. En jeg efast um, að hv. 1. landsk. (SE) geti fært nokkrar sannanir fram. Jeg hygg, að hann sanni þetta aldrei, vegna þess, að Spánverjar hafi alls ekki krafist þessa.

Því hefir áður verið haldið fram, að niðurlagning útsölunnar á Siglufirði mundi verða orsök til samningsslita við Spánverja. Um þetta skal jeg ekkert fullyrða, en ósennilegt tel jeg það þó. Jeg tel það æði ósennilegt, að Spánverjar fari að hlutast til um innanlandsmál okkar. Ef þeir hefðu ætlað sjer að gera það, hefðu þeir þegar í upphafi krafist útsölustaða í hverjum bæ á landinu, en þeir hafa mjer vitanlega aldrei gert það.

Hv. 1. landsk. (SE) gat þess í síðari ræðu sinni áðan, að úr því, sem komið væri, mundi vera ráðlegast að falla frá kröfunum um niðurlagning útsölunnar á Siglufirði. Þetta kann að vera, en um leið og þetta er gert, er fallið frá öllum aðalhugsjónum bannmanna, og þá er betra að kannast hreinskilnislega við það og játa, að við sjeum algerlega fallnir frá bannstefnunni. Nei, það er áreiðanlega ekki á hans valdi að skipa fyrir um þetta. Jeg er líka sannfærður um, að kröfunum um þetta verður haldið áfram, þangað til allar útsölur og veitingar hafa verið lagðar niður og algert bann kemst á aftur. Þetta ætti hv. 1. landsk. (SE) að vita. Það getur að sjálfsögðu farið svo, að langan tíma þurfi til að ná þessu marki, en fráfall hans hefir enga þýðingu í þessu máli.

Áður en jeg sest niður vil jeg nota tækifærið til að leggja áherslu á það, að jeg tel sjálfsagt að leggja niður þessa vínútsölu á Siglufirði, og reynist það svo, er frá líður, að það hafi engin óþægindi haft í för með sjer, þá á hiklaust að leggja þær alstaðar niður. Mjer þykir mjög undarlegt, hversu harðvítuglega því er haldið fram, að ekki hafi verið hægt að komast hjá því að ákveða þessa útsölustaði svo marga, en þó er ekki færð fram ein einasta sönnun þess, að Spánverjar hafi krafist þeirra. Hitt gæti verið skiljanlegt, ef danskir vínsalar hefðu talið sjer hagstæðara að fá sem flesta útsölustaði hjer á landi. Þeir hafa auðvitað ekkert haft á móti því, að útsölustaður væri í hverjum kaupstað landsins. Það er og eitthvað undarlegt við það, að tveir útsölustaðir skyldu vera ákveðnir í einni og sömu sýslu á Norðurlandi. Á öllu Austurlandi er aðeins einn einasti útsölustaður, og ekki hefir heyrst annað en að Spánverjar gerðu sig ánægða með það. Þá gegnir og sama um Hafnarfjörð. Það var engin þörf á útsölu þar, svona nálægt Rvík. Nei, hjer hafa einhverjir annarlegir og huldir kraftar verið að verki, þegar þessu var ráðið til lykta. Það verður aldrei hrakið, að það hafa verið aðrir en Spánverjar, sem hafa ráðið úrslitum þessa máls, og er það ásökunarvert, að það virðist að óþörfu gert. Jeg hefði getað skilið það, að Spánverjar hefðu krafist t. d. eins útsölustaðar í hverjum landsfjórðungi, en þessu hefir aldrei verið haldið fram, að svo hafi verið. Þvert á móti hefir einn samningsnefndarmanna lýst því yfir, að Spánverjar hafi engrar íhlutunar krafist um útsölustaði.

Hvað sem verður um þessa þáltill. að þessu sinni, þá hætti jeg ekki við að hreyfa þessu máli meðan jeg á sæti á Alþingi. Jeg vænti þess, að slík till. sem þessi komi aftur fram, enda er áður margyfirlýstur þjóðarvilji til um þessa stefnu. Nú hefir og stjórnin lýst því yfir, að hún vilji styðja bannstefnuna, en ef stuðningurinn á ekki að verða meiri en það, að játa aðeins trúna í orði, en sýna hana ekki í verkinu, ef engu má hagga í því, sem þegar hefir gert verið í þessu máli, þá efast jeg um, að kjósendur verði hrifnir af slíkum stuðningi við bannið. Jeg vildi aðeins koma þessum aths. að í umr. um þetta mál — að hv. 1. landsk. (SE) hefir, þegar hann var ráðherra, farið lengra en þörf var á, er hann veitti undanþáguna frá bannlögunum í fyrstu. Jeg veit, að hann misvirðir þetta ekki við mig. (SE: Jú það geri jeg sannarlega). Því mjer skilst, að hann og aðrir góðir menn hjer vilji þó heldur halda banninu við. Því miður hefir hann misstigið sig í þessu máli, og mjer finst, að hann ætti að kannast við það.