08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3258)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Ingvar Pálmason:

Jeg skal ekki vera harðorður í garð hv. 1. landsk. (SE), þar sem hann er nú dauður, en jeg verð að segja, að þessi síðasta ræða hans bar meiri keim af hita en röksemdum. En hv. þm. mótmælti engu af því, sem jeg sagði. (SE: Jeg mótmælti því öllu, og illgirninni líka).

Hv. þm. sagði, að jeg hefði tekið upp eldhúsdag gagnvart sjer. Jeg er nú svo ókunnugur eldhúsdögum, en þetta mál er þannig vaxið, að í sambandi við það er ekki hægt að komast hjá því að fella dóm yfir hv. 1. landsk. (SE). Hann sagði, að hann hefði ekki breytt stefnu í ákvörðuninni um útsölustaðina. Jeg hafði þar bara fyrir mjer hans eigin orð. Hann sagði, að hann hefði farið að heiman með þeim ásetningi að hafa aðeins einn útsölustað. En niðurstöðuna þekkja allir. Hann sagði, að eftir að hafa ráðfært sig við menn í útlöndum, hefði hann sannfærst um, að nauðsynlegt væri að hafa útsölustaðina fleiri en einn. Jeg sagði, að danskir vínsalar hefðu haft „interessu“ fyrir, að útsölustaðirnir væru sem flestir. Þetta kallar hv. 1. landsk. (SE) svo óheiðarleg orð, að hann hótar mjer ærumeiðingum, ef jeg ætli að standa við þau. Hv. 1. landsk. má lýsa mig svo ljelegan sem hann vill. En jeg býst ekki við, að jeg noti nokkurn tíma þau orð við hv. 1. landsk., að hann hafi ástæðu til að fara í mál við mig.

Sem sagt, það kendi í ræðu hv. þm. (SE) meiri hita en röksemda. Það, sem jeg sagði um stefnubreytingu hans, var eftir hans eigin orðum. Hafi þau verið röng, verður hann sjálfur að bera ábyrgð á því.

Hv. þm. (SE) sagði, að hann hefði ekkert verið að horfa á það sjerstaklega, hvort útsölustaðirnir væru 1 eða 2 í sömu sýslunni. Mjer hefði fundist eðlilegra að ákveða 1 útsölustað í hverjum fjórðungi, og mjer finst vera hægt að ætlast til þess af jafnkunnugum manni og hv. 1. landsk. er, að hann hefði tekið þá stefnu. Hefði hann viljað vinna fyrir bannið, sem jeg hygg að hann hafi viljað gera, var ólíkt nær að gera það.

Þá segir hv. þm. (SE), að það verði aldrei sannað, hvort krafa Spánverjanna hafi verið sú, að hafa útsölustaðina fleiri en einn. Þessu hjelt jeg fram, og hv. þm. segir, að í skjóli þess arna noti jeg þetta. En ef þessi tillaga verður samþ., þá er það þó einn vegurinn til þess að benda á líkur fyrir því, að Spánverjar hefðu viljað hafa staðina fleiri. Hvað mundi hv. 1. landsk. segja, ef tillagan yrði samþ. og Spánverjar segðu ekki neitt? Fer þá ekki dómurinn að verða honum í óhag? Hann tók fram, að nú, þegar búið væri að ákveða þetta, yrði að taka afleiðingunum af þeirri ákvörðun. Það er alveg rjett, og þess vegna er það, að jeg hefi orðið þungorður í garð hv. þm. (SE). Ef ekki hefði verið ákveðinn nema einn útsölustaður, þá hefði ekki nú þurft að deila um að leggja hann niður. Jeg get ekki skilið, að hver og einn geti verið fullkominn bannmaður, þegar hann sættir sig við svo og svo marga útsölustaði. En ef hvorki má hreyfa hönd nje fót af ótta við Spánverja, hvenær tekur þá samningurinn enda? Jeg býst við, að ef við aldrei þorum að hreyfa við þessu, verði Spánarsamningurinn seint upphafinn. Jeg vil benda hv. 1. landsk. (SE) á það, af því að það snertir aðra hugsjón hans, að ekki er óhugsandi, ef við höldum áfram þessu voli og víli við Spánverja, að þeir komi og segi: Við viljum hafa fleiri útsölustaði. Hvað gerum við þá?

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um niðurlagið á ræðu hv. þm. (SE). Hann sagði, að jeg væri hjer að útbúa kosningabrellu, sem ætti að vera kjölfesta fyrir sigur míns lista. Þetta er sagt alveg út í bláinn og að ástæðulausu. Ef jeg einhvern tíma losna af þingi, býst jeg við, að jeg hafi annað að gera en að útbúa kosningabrellur.

Hv. þm. (SE) tók það fram, að hann væri vissulega sami bannmaðurinn og hann hefði verið. Það getur vel verið, en honum sem bannmanni hefir yfirsjest, og jeg hefi ekki farið fram á annað en að hann viðurkenni það.

Skal jeg svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Jeg býst við, að mesti hitinn sje rokinn úr hv. 1. landsk., enda er öll ástæða til þess. Hvernig sem fer um þessa till., tel jeg sjálfsagt, að hún skeri úr því, hvort Alþingi vill gera tilraun til þess að fækka útsölustöðunum. Þjóðin krefst þess. Undanfarið hafa verið höfð góð orð um að gera alt, sem hægt væri, en enginn árangur hefir sjest. Það er miklu betra, að Alþingi segi hreint og beint: Við viljum ekkert gera. Þá veit þjóðin, að hverju hún gengur, enda mun það koma fram við þessa atkvgr.

Jeg held, að það sje alveg nýtt í sögu áfengisverslunarinnar hjer á landi, að útsölustöðum hafi verið þröngvað upp á kaupstaðina. Jeg er viss um, að það hefði hvergi mælst illa fyrir, þótt heimtað hefði verið samþykki viðkomandi kaupstaðar með meiri hl. atkv. Jeg held, að Spánverjar hefðu aldrei gerst svo djarfir að heimta, að sá rjettur borgaranna væri fyrir borð borinn, sem þeir hafa haft í fjöldamörg ár, að mega ákveða, hvort þeir vildu hafa hjá sjer vínsölu eða ekki. Jeg býst við, að við hefðum getað vitnað í gamlar venjur, sem hjer hafa gilt um þessi efni. Jeg held, að ef Spánverjar hefðu ekki virt þessa gömlu reglu, þá hefði það mælst mjög illa fyrir. Hefði þá verið fengin full vissa fyrir, að þeir hefðu blandað sjer inn í frelsi einstakra borgara landsins. Hv. 1. landsk. (SE) getur varla mótmælt þessu. Það er margt, sem til greina kemur í þessu máli, en jeg mun nú ekki segja meira um þetta í bili, því að hv. 1. landsk. er nú dauður, svo að hann getur ekki borið hönd fyrir höfuð sjer. En hann ber mesta ábyrgð á þeim skyssum, sem gerðar hafa verið í þessum efnum. En jeg vil aðeins undirstrika það, að í þessu mátti fara þá leið að ákveða útsölustaðinn aðeins einn, svo lengi Spánverjar ekki kröfðust þess að hlutast til um, hvernig útsölu vínanna væri hagað innanlands. Ætla jeg þá ekki að tefja hv. deild með lengra máli í þetta sinn.