08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (3264)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Jóhann Jósefsson:

Þetta mál horfir ekki alveg eins við og hv. þm. (IP) vill láta líta út fyrir. Honum er e. t. v. af einhverjum ástæðum fróun að geta sagt frá því, að hann hafi ekki trú á að vísa málinu til hæstv. stjórnar. En hv. 2. þm. S.-M. (IP) er alt of gamall og reyndur maður til að tala svo ljettúðlega sem hann gerir. Ef hv. Ed. leggur fyrir hæstv. stjórn að leggja niður útsölurnar, þá er það yfirlýstur þingvilji, og mundi hæstv. stjórn sennilega haga sjer eftir því. En það jeg veit hefir ekkert nýtt komið fram frá Spánverjum, sem rjettlæti það, að þetta sje gert. Og þar sem fyrverandi stjórn mun hafa gengið svo langt í þessu máli sem fært var, nálgast þetta, að gengið sje á samninga við Spánverja. Hins gengur enginn dulinn, að kröfurnar um að losna við vínið munu halda áfram, og stjórnin verður að taka til vandlegrar athugunar, hvort það er ekki hægt að takmarka útsöluna án þess að lenda í deilum við Spánverja.

Það eru líka fleiri leiðir til þess að draga úr áfengissölunni en að leggja vínsöluna niður og flytja birgðirnar burt. Jeg held, að sú leið sje hyggilegri, að draga smátt og smátt úr vínsölunni, þó að takmarkið, að losna við vínið, náist seinna með því móti, heldur en leggja niður umræðu- og umhugsunarlítið vínsöluna í einum kaupstað landsins, sem mundi þá gilda fyrir þá alla. Jeg held, að í þessu máli sje betri krókur en kelda. Þó hv. 2. þm. S.-M. (IP) vilji spranga yfir kelduna, þá get jeg ekki fylgt honum þá leið, en legg til, að þessu verði vísað til stjórnarinnar, í trausti þess, að hún og viðkomandi bæjarstjórnir athugi, hvað hyggilegast er að gera í því að takmarka vínsöluna í kaupstöðum landsins.