10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í D-deild Alþingistíðinda. (3273)

114. mál, aðstaða málfærslumanna við undirrétt

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi þáltill. er, eins og tekið hefir verið fram, ekki mjög gömul, en af vissum ástæðum þótti mjer geta skeð, að ekki mundu allir í deildinni óska þess, að hún kæmi á dagskrá. Jeg hefi orðið þess var, að maður einn utan þingsins, sem þetta mál snertir, hefir látið nokkuð ófriðlega, og eftir öðrum sólarmerkjum að dæma hefir mjer þótt borin von um, að till. yrði tekin til umræðu.

Hv. 1. landsk. (SE) kom fram með frv. hjer í deildinni um breytingu á hæstarjetti og rökstuddi það með því, að rjettaröryggið væri betur trygt, ef 5 væru þar lögskipaðir dómarar, heldur en ef 3 væru. Jeg sagði þá, og endurtek hjer, að ef það kæmi í ljós, að rjettaröryggið í hæstarjetti sýndi sig að vera ekki nógu trygt með 3 mönnum, þá væri líklegt, að ýmsir skiftu um skoðun. En ef knýjandi nauðsyn ber til að endurbæta hæstarjett, þá munu margir líta svo á, að undirdómaskipulag okkar, sem lítið hefir breyst í langan tíma, þurfi ekki síður athugunar við. Þessi till. er ein af fleirum, sem jeg hefi hugsað mjer að bera fram, þó líklega vinnist ekki tími til þess á þessu þingi, og lúta að því að hefja umræður um undirdómaskipulag landsins og hefja umbætur á því sviði. Slíkar umbætur geta verið á marga vegu, og tekur nokkurn tíma að koma þeim í framkvæmd. Þó að í þessari till. sje aðeins talað um undirdóminn í Rvík, af því að hjer sýnast hafa komið fram sjerstakir annmarkar á fyrirkomulaginu, þá mun víðar þurfa endurbóta við, og kem jeg kanske að því síðar.

Þessi till. er í þremur liðum. Fyrst er ósk til dómsmálaráðherrans um að skýra frá, hve oft núverandi bæjarfógeti í Rvík hafi orðið að víkja sæti af því, að sonur hans starfar sem málfærslumaður við rjettinn, og hve mikið landssjóður hafi orðið að greiða þessum settu dómurum. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. dómsmálaráðh. sje ljúft að svara þessari spurningu, enda hlýtur það að vera auðvelt fyrir hann, og því fremur, sem einn af undirmönnum hans í stjórnarráðinu mun oft hafa verið kvaddur til þess að vera aðstoðardómari. Sumir munu nú líta svo á, að ekkert sje við því að segja, þó að svo standi á, að vegna vensla þurfi að kveðja til nýjan dómara. Þessu fylgir þó kostnaður, og jeg hefði gaman af að heyra rök hæstv. dómsmálaráðh. og bæjarfógetans í Rvík fyrir því, að þetta væri góð búmenska fyrir landið. Það má segja, að hart sje fyrir venslamenn dómarans að mega ekki starfa við rjettinn, en það er líka hart fyrir ríkissjóðinn, ef hann þarf oft að leggja fram fje fyrir þessar sakir. Ef allir hæstarjettardómararnir ættu uppkomna syni, sem væru starfandi málfærslumenn við hæstarjett — og það gæti komið fyrir — yrðu þeir æði oft að víkja úr sæti og nýir dómarar að koma í staðinn. Þetta getur haft sjerstaka þýðingu, því gera verður ráð fyrir, að aðaldómarinn sje yfirleitt hæfari til starfsins en óvanur maður, sem settur er í hans stað. Þetta getur haft talsverða þýðingu, ef t. d. menn, sem ekki treysta málstað sínum, geta fengið son dómarans til þess að flytja málið, vitandi það, að annar dómari dæmir.

Málfærslumaður verður að taka á móti málum, sem til hans koma — eða menn gera það yfirleitt — og þess vegna geta þeir, sem eru sjertaklega hræddir um sinn málstað, trygt sjer, að dómarinn sje kvaddur úr dómnum, með þessari aðferð. Jeg lít þess vegna þannig á, að þetta sje ekki eingöngu kostnaðaratriði, heldur líka að ýmsu leyti mjög dragandi úr öryggi rjettarins, ef aðiljar geta — svo að segja þegar þeir vilja — krafist að aðaldómarinn víki sæti.

Þetta er fyrsti liðurinn, og jeg geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh. (JM) muni geta gefið einfaldar skýrslur, a. m. k. hvað fjárhagsatriðið snertir.

2. liðurinn lýtur að því, að hæstv. stjórn leiti álits málfærslumannafjelagsins í Rvík um þetta skipulag og leggi skýrslu um það fyrir næsta þing. Jeg býst við, að hæstv. ráðh. sje ekki ókunnugt um það, undir niðri að minsta kosti, að það hefir orðið talsverð óánægja út af þessu atriði hjer í bænum. Jeg geri ráð fyrir, að málfærslumenn hafi ekki kvartað opinberlega. Er meðal annars sú ástæða til þess, að þeir eiga töluvert undir dómaranum í Rvík um ýmsa aðstoð, svo að það er ekki víst, að þeir kæri sig um að hengja bjölluna á köttinn ótilneyddir. Jeg held, að hæstv. ráðh. væri auðvelt að sannfæra sig um það, að margir óska eftir breytingu á þessu, þó að ekki hafi verið rætt opinberlega. En ef það t. d. kæmi í ljós, að málfærslumannafjelagið sæi ekkert athugavert við þetta, þá myndi það ekki einungis hafa þýðingu fyrir þetta einstaka tilfelli, sem jeg skoða í sjálfu sjer lítils virði, heldur gæti það líka orðið til þess, að þá væri kanske engin ástæða að amast við því annarsstaðar á landinu, þar sem líkt getur komið fyrir. Gæti þá máske komið í ljós, að hægt yrði að breyta reglum fyrir skipun hæstarjettar, nefnilega að þar mættu vera bræður, feðgar og tengdafegðar o. s. frv., sem ekki er leyfilegt nú, einmitt af því að menn gera ráð fyrir öruggari dómstóli, ef menn eru þar óskyldir og óvenslaðir.

3. liður till. er ennfremur áskorun til hæstv. stjórnar um það, að þegar hún hefir kynt sjer þetta og athugað, leggi hún fyrir næsta þing reglur um það, að ekki sjeu leyfð meiri vensl milli þeirra, sem starfa við undirrjett, heldur en leyft er við hæstarjett.

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. (JM) skýri þetta frá sínu sjónarmiði. Eins og jeg tók fram, þá er þetta kanske ekki þýðingarmikið atriði, hvort einn maður, skyldur dómaranum, starfar í undirrjetti á einum stað á landinu. En það, sem líðst á einum stað, líðst á öðrum. Og þar sem fyrir mjer vakir að hreyfa endurbótum á ýmsu viðvíkjandi dómaskipun landsins, þá hefi jeg álitið rjett að taka á ýmsum þeim atriðum, sem geta orkað tvímælis, og fá skýringar hlutaðeigenda, t. d. stjórnarinnar, og þegar svo ber undir, eins og hjer, að hlutaðeigandi dómari á sæti í deildinni. Umbót eins og hjer á að gera hlýtur að taka nokkuð langan tíma, og getur þess vegna hver lítill þáttur verið einskonar byrjunarrannsókn í því efni. Jeg þykist þess vegna vita, að hv. þm. Seyðf. geti að einhverju leyti upplýst málið; og ef til vill hefir hann og hæstv. ráðh. þegar gögn fyrir því, að það leiði engan aukakostnað af þessu skipulagi og að hver málfærslumaður sje harðánægður með það. Þá hefir maður fengið einn þátt í upplýsingunum, a. m. k. frá vissri hlið. Annars ætla jeg ekki að orðlengja frekar að sinni, en bíða eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi aðiljum.