18.02.1926
Efri deild: 8. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

13. mál, löggiltir endurskoðendur

Frsm. (Eggert Pálsson):

Eins og tekið er fram í aths. við þetta frv., þá hefir það oft áður komið fyrir þingið, þótt ekki hafi það fyr verið til umræðu í þessari hv. deild. Seinast var það samþykt í hv. Nd. á síðasta þingi og sent hingað í deildina, en þá var svo á liðið þingtímann, að ekki var neinn tími til að taka það til meðferðar, og dagaði það svo uppi. Nú er frv. á ný borið fram af hæstv. stjórn, og hefir verið athugað í nefnd. Virðist því hafa verið nægur tími og tækifæri fyrir þingmenn ti1 þess að athuga frv. rækilega, enda má ætla, að það hafi verið gert, þar sem það hefir verið samþykt í hv. Nd. oftar en einu sinni.

Af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi nefnt, tel jeg óþarft að fjölyrða um málið alment, en vil aðeins benda á þá almennu nauðsyn, að ríkið styðji að því, að menn, sem reka stórfeld og margbrotin fyrirtæki, geti átt aðgang að því að fá hæfa menn til þess að endurskoða hjá sjer. Það er öllum ljóst, hve nauðsynlegt slíkt er, ekki síst í stærri kaupstöðum og alstaðar þar, sem rekin eru stór fyrirtæki. Það getur riðið á miklu að geta náð til manna, sem skyn bera á, til þess að endurskoða hag slíkra fyrirtækja. Eins og menn vita, eru hjer á landi ýms stór fyrirtæki, sem bera háa skatta til ríkisins og bæja eða sveita. En ef enginn veit með vissu, hvernig hagur þeirra stendur, þá er hætt við, að ekki verði ætíð hægt að haga álögunum með fullri sanngirni. Þá er það einnig nauðsynlegt fyrir lánsstofnanir að geta vitað um hag slíkra fyrirtækja, hvort heldur um er að ræða verslun, verksmiðjur eða stórútgerð, svo þær þurfi ekki að renna blint í sjóinn um lánveitingar til þeirra. Það má því telja það vafalaust, að þannig lagað frv. sem þetta sje alveg nauðsynlegt alstaðar þar, sem atvinna er rekin í stærri stíl.

Þetta frv. er bygt á danskri löggjöf um þessi efni frá 14. maí 1909. Þó eru þar ýms atriði, sem ekki hafa verið tekin hjer upp, t. d. það, að til þess að geta orðið löggiltur endurskoðandi þurfi maður að hafa rjett innborinna manna. Ennfremur er þar lögtekið, að þeir menn, sem löggiltir eru, greiði 120 kr. í ríkissjóð. En ekki hefir þótt ástæða til þess að taka þessi ákvæði upp hjer. Aftur er eitt ákvæði, sem nefndinni þótti ástæða til að taka upp í frv., sem sje það, að sá maður, sem er löggiltur endurskoðandi, megi ekki reka atvinnu, sem sje ósamrýmanleg við starfið.

Þá hefir nefndin gert aðra breytingu, við 8. gr. frv., og er sú breyting eingöngu í þá átt, að málið verði skýrara. Með þeirri breytingu er það ljóst, að ef málið er á annað borð lagt undir úrskurð ráðherra, þá heyrir það ekki undir dómstólana. En annars er það dómstólamál.

Annars hygg jeg, að ekki sje nauðsynlegt að fara fleiri orðum um málið. Það er svo einfalt og ljóst. Jeg vona, að háttv. deild samþykki það eins og það liggur nú fyrir.