11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (3288)

120. mál, færsla póstafgreiðslustaðar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer sýnist hv. flm. (IngB) með till. þessari skjóta yfir markið, þar sem hann vill umfram alt láta flytja póstafgreiðsluna frá Grenjaðarstað. Honum ætti vissulega að vera nóg, að póstafgreiðsla sje sett á Breiðumýri eða Einarsstöðum. Og mjer finst honum fara undarlega við kjósendur sína, er hann vill ekki hafa póstafgreiðslu á Grenjaðarstað líka. Undirskriftaskjölin, sem jeg nefndi, sýna þó, að fjöldi manna um þessar slóðir vill hafa póstafgreiðslu áfram á Grenjaðarstað. Þar sem nú svo stendur á, að sýslunefndin vill ekki breyta þessu strax, sje jeg ekki, að ástæða sje til að samþ. þessa till. nú. Það ætti að vera nóg að gera einhverja slíka ákvörðun á næsta þingi. Og einmitt ákvörðun sýslunefndar S.-Þ. sýnir, að jeg hafði rjett fyrir mjer, að vilja ekki flytja póstafgreiðsluna frá Grenjaðarstað strax. Út af því, sem hv. flm. sagði um mín afskifti af þessu máli, tók jeg það fram í fyrri ræðu minni, að jeg man ekki betur en að aðalpóstmeistari ætti tal við mig um þetta í fyrravor, og stakk hann þá upp á því að hafa 2 póstafgreiðslur. Hinsvegar minnist jeg ekki að hafa lesið þau mörgu skjöl, sem hv. flm. segir að hafi verið send póststjórninni, en aðalpóstmeistari mun hafa lagt málið fyrir mig munnlega. Jeg leit þá svo á, að stofnun nýrrar póstafgreiðslu mundi verða talsverður kostnaðarauki, og hann vildi jeg forðast, en athugaði ekki þá, að kostnaðarmunurinn á brjefhirðingum og póstafgreiðslum er ekki mjög mikill síðan sú breyting var gerð nýlega, að brjefhirðingar afgreiða bæði ávísanir og póstkröfur. Nú hefir sýslunefnd tekið þá afstöðu til málsins, að hún vill, að þessi breyting komi ekki til framkvæmda fyr en vegur er kominn að Máskoti, og finst mjer því ekki ástæða til að samþ. þessa till. nú. Jeg vil því skjóta því til hv. flm. (IngB), hvort hann geti ekki sætt sig við að bíða með að fá ákvörðun um þetta, með því að mjer skilst, að honum geti ekki verið það kappsmál að fá póstafgreiðsluna tekna burtu frá Grenjaðarstað, ef einnig kemur póstafgreiðsla á Einarsstöðum eða Breiðumýri.