11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í D-deild Alþingistíðinda. (3289)

120. mál, færsla póstafgreiðslustaðar

Flm. (Ingólfur Bjarnarson):

Viðvíkjandi þeirri spurningu hæstv. atvrh. (MG), hvort jeg geti ekki fallist á að geyma þetta mál til næsta þings, verð jeg að segja það, að jeg sje ekki ástæðu til þess. Það er að vísu orðað svo, að afgreiðslan skuli flutt frá Grenjaðarstað til Breiðumýrar, en aðalatriðið er vitanlega að fá póstafgreiðslu á Einarsstöðum eða Breiðumýri. En jeg hefi nú sýnt fram á í fyrri ræðu minni, að þetta hefir ekki viljað ganga greiðlega, þrátt fyrir það, að tekið hefir verið vel í málið og í raun og veru búið að fá samþykki aðalpóstmeistara til þessa. Ennfremur lít jeg svo á, að líkur sjeu til þess, að skilyrði sýslunefndar um, að Reykjadalsbrautin komist alla leið upp að Máskoti, geti orðið uppfylt nú í sumar, og gæti þá breytingin komið til framkvæmda um næstu áramót. Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að hann hefði ekki sjeð nein skjöl um þetta mál frá viðkomandi hreppum. Er það mjög furðulegt, þar sem erindi komu fram í fyrra að nýju frá 3 hlutaðeigandi hreppum og voru send aðalpóstmeistara, eins og jeg hefi tekið fram fyr. Var nauðsyn málsins ítarlega skýrð og rökstudd í erindum þessum. Og sýnist sem þau hefðu átt að leggjast fyrir hæstv. atvrh., um leið og aðalpóstmeistari leitaði samþykkis hans til færslu póstafgreiðslunnar. Þykir mjer sennilegt meira að segja, að hæstv. atvrh. hefði þá máske treyst sjer til að samþ. færsluna. Með tilliti til meðferðar máls þessa í fyrra tel jeg rjett og nauðsynlegt, að hv. deild taki nú ákvörðun um málið, svo sem hjer er farið fram á. Get jeg því ekki orðið við tilmælum hæstv. ráðh. um að taka þessa till. aftur.